Einhverfa/Asperger og Teacch-skipulagið

17. apríl síðastliðinn hélt Svanhildur Svavarsdóttir, sérkennari og boðskiptafræðingur
erindi um TEACCH-skipulagið við kennslu einhverfra á fræðslufundi hjá
Foreldrafélaginu. Hér á eftir er leitast við að taka saman það helsta sem fram kom í máli
Svanhildar, en einnig byggt á glæruefni og ljósritum sem hún var svo vinsamleg að skilja
eftir við erindislok.

Einkenni og umfang einhverfu

Svanhildur skilgreindi einhverfu sem þroskahömlun sem kemur þannig fram að um er að
ræða:
A. Truflun á gagnkvæmni í félagslegum samskiptum. Einhverfir einstaklingar eru
uppteknir af eigin boðskap og hlusta ekki á aðra eða taka tillit til þeirra.
B. Truflun í boðskiptum með og án orða og í möguleikum á virkni sem byggir á
ímyndunarafli. Einhverfir skilja illa huglæg orð eins og t.d. stilltur eða ekki, (í stað þess
að segja „vertu stilltur“ verður að segja „settu hendur á borð og fætur á gólf”, í stað þess
að segja „ekki hella niður” er betra að segja „vatnið á að vera í glasinu”), þeir romsa
gjarnan og skilja ekki hvenær á að þegja.
C. Sérkenni í hegðun, sér í lagi áráttukennd hegðun, ásamt lítilli fjölbreytni í virkni
og áhugamálum.

Hún vakti athygli á að orsaka fyrir einhverfu væri að leita í truflunum á heilastarfsemi, en
ekki í geðtruflunum. Það er hins vegar ekki enn fullkannað hvaða orsakir eru fyrir
einhverfu.

Hvað varðar tíðni einhverfu er talið að um 1 af 1000 hafi einhverfu með mikilli
greindarskerðingu og um 5 af 1000 Asperger. Það er tegund einhverfu þar sem
einstaklingurinn hefur venjulega greind en er oft með misþroskaeinkenni. Talið er að um
það bil 50 % þeirra geti lifað eðlilegu lífi á fullorðinsárum og um það bil 15-20% ljúki
háskólaprófi. Margir fullorðnir með Asperger hafa hins vegar áfram takmarkaða getu til
þess að ná eðlilegum félagslegum samskiptum við aðra og þurfa oft aðstoð frá
geðlæknum vegna þunglyndis, þvingunaráráttu og geðklofaeinkenna. Sumir eiga afar
erfitt með að skipuleggja líf sitt, eiga í stöðugum útistöðum við alla í sínu nánasta
umhverfi og verða jafnvel hættulegir umhverfinu vegna lélegrar dómgreindar um að
athæfi sé rétt eða rangt.

Tengsl einhverfu og asperger við misþroska og skyldar truflanir á heilastarfsemi

Til að sýna tengsl einhverfu og asperger við misþroska og skyldar truflanir á
heilastarfsemi sýndi Svanhildur meðfylgjandi yfirlitsmyndir sem eru fengnar úr bókinni
Barnneuropsykiatri, MBD/DAMP, autistiska störningar, dyslexi eftir Tore Duvner, gefin
út af Almquist & Wiksell Medicin, Liber Utbildning 1994. Hver sneið á hringmynd
svarar til tiltekinnar heilastarfsemi. Stærð dökku svæðanna gefur til kynna hversu
alvarlegar truflanir er almennt um að ræða í tiltekinni heilastarfsemi hjá einstaklingi með
viðkomandi greiningu. Ljósgráu svæðin gefa til kynna að ákveðnir einstaklingar geti búið
við alvarlegri truflanir í viðkomandi heilastarfsemi.

Misþroski (MBD/DAMP)

Frávik í hreyfigetu, skynjun og einbeitingu, þar með talin stýring á virkni. Sumir eru
ofvirkir og aðrir vanvirkir. Oft er einnig um erfiðleika að ræða á öðrum sviðum t.d. í tali,
samskiptum og hegðun svo og lestrar- og skriftarerfiðleika.

Ofvirkni með athyglisbresti - AMO (ADHD)

Áberandi einbeitingartruflanir og ofvirkni. Má flokka sem sértilvik af hinu almennara
misþroskahugtaki.

Dyslexi

Skortur á lestrar- og skriftargetu, sem ekki er unnt að skýra út frá almennu greindarstigi
einstaklingsins. Margir eiga auk þess við erfiðleika að etja á öðrum sviðum.

Vangefni

Vitsmunaerfiðleikar tengdir skilningi og hæfileika til að læra og hugsa óhlutbundið. Oft
er um að ræða truflanir á flestum sviðum heilastarfsemi.

Einhverfa

Truflun í samskipta- og boðskiptahæfileikum og í annarri hegðun. Tengist oft almennri
vangefni. Einhverfir einstaklingar hugsa ekki eins og aðrir og hafa sér í lagi öðruvísi
rökhugsun. Margir hafa áberandi einbeitingarerfiðleika og eru ofvirkir.

Asperger

Sérstök tegund einhverfu hjá einstaklingi sem oftast er með venjulega greind.

Tourette syndrome

Ástand sem tengist því að vera með einn eða fleiri hreyfikæki og að minnsta kosti einn
hljóðkæk. Oft er einnig um að ræða aðra þvingaða hegðun og skort á getu til þess að setja
sig í spor annarra líkt og á við um marga misþroska einstaklinga.

Mál, tal, boðskipti og ímyndun

Svanhildur vék að hugtökunum mál, tal og boðskipti sem væru oft notuð eins og innihald
þeirra þýddi það sama, en svo er alls ekki.

Málið er tæki sem við notum til boðskipta, táknkerfi sem er notað til að koma áleiðis
hugmyndum og hugtökum. Notkun á máli krefst vitsmunafærni sem hjálpar
einstaklingnun síðan að skipuleggja og flokka upplýsingar sem skilningarvitin gefa þeim.
Talið er tæki sem við höfum til til að koma málinu til skila til annarra, en það er hægt
að koma skilaboðum málsins áfram á marga aðra vegu, t.d með því að skrifa, nota
táknmál eða með hjálp tölvu.

Boðskipti hafa í för með sér samband, tengsl við aðra. Það þarf tvo til í boðskiptum, þann
sem sendir og þann sem tekur við boðunum. Boðskiptin hafa áhrif þannig að sá sem
sendir boð veldur því að viðtakandi gerir eitthvað fyrir hann. Boðskipti sem hafa áhrif eru
kölluð virk boðskipti.

Þá vék Svanhildur að máli og ímyndun.

Málið er nauðsynlegt tæki til að koma skipulagi á tilveruna, til að sundurgreina og
aðgreina áreiti, til að raða upp í huganum ferlum og venjum. Vinstra heilahvel sér um
skilning á orðum og hugtökum, leitar orsaka og nær samhengi milli athafna og orða.
Hægra heilahvel stjórnar eftirhermutali, formi orðanna, áherslum en ekki merkingu.
Ímyndun er eitthvað sem verður til í huganum, eitthvað sem við ekki sjáum en getum
ímyndað okkur. Það getur verið afar flókið fyrir börn með einhverfu/Asperger að skilja
hvað það er. Það að nota orð á breytilegan en réttan hátt með merkingu krefst oft mikillar
ímyndunarhæfni, og orðin hverfa jafnhratt og þau eru sögð, en börn með
einhverfu/Asperger þurfa oft tíma til að skilja og þess vegna þarf að hjálpa þeim með að
ná skilningi á huglægum orðum með því að gera þau sýnileg.

Námserfiðleikar einhverfra

Veikleikar einhverfra eru margvíslegir þegar að námi kemur. Málskilningi þeirra er
ábótavant og þeir skilja oft málið ekki eins vel og kennari telur.
Þeir eiga í erfiðleikum með skilmerkilega tjáningu og vantar orðaforða til að sýna fram
á að þeir vilji hætta, séu þreyttir eða leiðir.
Óeðlileg virkni raðminnis veldur því að að þeir eiga í erfiðleikum með að skilgreina
algenga hluti sem gerast daglega.

Þeir kjósa frekar að fást við kunnuglega hluti og sýna því mótþróa við nýjar aðstæður.
Þeir eiga oft í erfiðleikum með að haga hegðun sinni í samræmi við kröfur umhverfisins
og skilja ekki reglur samfélagsins.
Lítill skilningur á umhverfisreglum dregur úr löngun til að þóknast öðrum og fá umbun
og leiðir til mótstöðu við kennslu.
Mikil viðkvæmni gagnvart skynjunaráeitni leiðir til truflandi hegðunar.
Skortur á einbeitingu og hæfni til að skynja og skilgreina tíma veldur líka oft truflandi
hegðun.

Takmark árangursríkrar kennslu er að hjálpa einstaklingnum til að stjórna fötlun sinni og
skilja hana.

TEACCH-skipulagið

TEACCH-skipulagið við kennslu einhverfra var þróað í Bandaríkjunum og byggir á
eftirfarandi grunni:
1. Ítarleg þekking á eiginleikum einhverfu.
2. Foreldrar eru viðurkenndir sem meðferðaraðilar.
3. Kennsluaðferðir eru grundvallaðar á þörfum einstaklingsins.
Megináhersla er lögð á skipulag í öllum þáttum kennslunnar.

I. Ytra skipulag

Kennslustofan er skipulögð með það í huga að að einstaklingurinn sjái greinilega hvar
hann eigi að vera við hverja athöfn, með því að vera með afmörkuð hópvinnusvæði,
leiksvæði, svæði fyrir einstaklingsvinnu, svæði fyrir stundaskrá og svæði fyrir þjálfun í
sjálfhjálp. Leitast er við að draga úr sjónrænu og heyrnrænu áreiti og í mörgum tilvikum
er nauðsynlegt að afmarka autt svæði sem hefur ekki annan tilgang en að gefa
nemandanum tækifæri til þess að hvíla sig frá örvun og ná sjálfstjórn. Loks þarf að huga
að atriðum eins og þeim að heppilegt getur verið að hafa teppalagt borð þannig að blöð
sópist síður niður á gólf og að vera með merkingar á gólfi sem gefa til kynna nákvæma
staðsetningu stóls fyrir nemendur sem truflast auðveldlega og standa oft upp.

II. Daglegt skipulag - stundaskrá

Lögð er áhersla á að vera með stundaskrá sem segir nemandanum á sjónrænan hátt hvað
er næst á dagskrá, t.d með því að nota hluti, myndir eða ljósmyndir. Stundaskráin er á
einum stað en tákn af henni eru notuð til að einfalda einstaklingnum að fara milli svæða.

III. Skipulag einstaklingsvinnu

Leitast er við að setja einstaklingnum lýsanlegar reglur. Gæta verður þess að hann skilur
alls ekki reglur sem höfða t.d. til siðferðis og ekki þýðir að messa yfir nemendum. Þá er
þess gætt að einstaklingurinn viti fyrirfram hve mikið hann á að vinna og hvað, hvenær
hann er búinn og hvað taki þá við. Gjarnan má semja við hann um hegðun og hafa þá
umbun tiltæka. Orð eins og duglegur duga ekki alveg heldur verður að grípa til sælgætis
eða dóts. Ekki dugar að gagnrýna neikvæða hegðun. Einstaklingurinn verður sjálfur að
taka ákvörðun um breytta hegðun. Vænlegra er að „spóla til baka”, byrja upp á nýtt.

IV. Starfsvenjur

Með sífelldum endurtekningum fær einstaklingurinn skilning á því sem hann á að gera,
hann verður öruggur og sjálfstraust eykst. Slíkar starfsvenjur lúta t.d að því að samtvinna
vinstri til hægri, athuga stundaskrá og fylgja leiðbeiningum um skipulagsform.

V. Sjónrænt skipulag

Mikil áhersla er lögð á sjónrænt skipulag, bæði sjónræna uppbyggingu á gögnum og
svæðum, sjónrænar vísbendingar, með t.d. litamerkingum og ýkjum og sjónrænar
leiðbeiningar.
Svanhildur lagði áherslu á áhrif skipulags í kennslu við að efla málskilning, máltjáningu
og málnotkun. Skipulag eru skilaboð okkar til nemendanna og auðveldar skilning á
aðstæðum og röðum athafna. Undirstaða fyrir betri og markvissari tjáningu er innra
skipulag á hugsun. Við notum málið sem leið til að skipuleggja atferli, sem leið til að
skilgreina og túlka; við notum málið til að skilja.

PEP-R, kennslufræðilegt mat

Við undirbúning kennslu samkvæmt TEACCH-skipulaginu er byggt á kennslufræðilegu
mati sem nefnist PEP-R (The Psycho-Educational Profile) sem miðar að því að skoða
hvernig barnið lærir, hvernig einbeiting, athygli, viðbrögð, skoðun og skipulag þess er og
hvað það er sem truflar námið. Athuguð eru sjö atriði:

1. Eftirherma (barn fær t.d. fyrirmæli um að herma eftir
hreyfingum og tali).
2. Skynjun (t.d. viðbrögð við hljóðum, tali, sjónáreitum, snertingu og hreyfingu).
3. Fínhreyfingar (t.d. hvernig notar barnið litlu vöðvana í höndum og andliti).
4. Grófhreyfingar (t.d. hvernig notar barnið stærri vöðva líkamans og tekur við
fyrirmælum um hreyfingu).
5. Samhæfing augna og handa (t.d. setja púsl í rétt hólf, spora, para form og stafi).
6. Málskilningur (t.d. skilningur á mæltu máli, þekkir form, flokkar eftir lit, skilur
fyrirmæli og fer eftir þeim).
7. Máltjáning (t.d. segir nafnið sitt, heiti lita, forma, stærða og stafa, biður um hjálp,
endurtekur orð, notar fleirtölu).

Foreldrasamstarf

Svanhildur lagði loks mikla áherslu á mikilvægi foreldrasamstarfs í tengslum við
TEACCH-skipulagið. Foreldrar eru viðurkenndir sem meðferðaraðilar og skoðanir þeirra
nýttar. Leitast er við að hafa samskipti opin og heiðarleg. Foreldrar eiga að fá að heyra
viðbrögð fagaðila fyrst. Samstarfið felst í því að skiptast á skoðunum, rífast við
foreldrana á jafnréttisgrundvelli. Með viðeigandi leiðsögn geta foreldrar sinnt iðjuþjálfun
og talþjálfun.

* Hins vegar verður að gæta þess að byrja ekki umræður um úrræði fyrir barn án
foreldra.
* Einnig verður að hafa í huga að foreldrar geta þurft á stuðningi að halda vegna
tilfinningalegs álags.
* Loks verða fagaðilar að hafa í huga að gagnstætt fagaðilunum velja foreldrar ekki sitt
hlutverk, og foreldrar hafa fyrst og síðast áhuga á sínu barni.

Sven Sigurðsson tók saman