Markmið og stefna
Markmið ADHD samtakanna
Markmið ADHD samtakanna er að börn og fullorðnir með athyglisbrest, ofvirkni og skyldar raskanir mæti skilningi alls staðar í samfélaginu og fái þjónustu sem stuðlar að félagslegri aðlögun þeirra, möguleikum í námi og starfi og almennt bættum lífsgæðum.
Helstu leiðir að markmiðum ADHD samtakanna eru :
- fræðsla og ráðgjöf um ADHD og skyldar raskanir
- stuðningur við börn og fullorðna með ADHD og skyldar raskanir
- stuðningur við fjölskyldur viðkomandi barna
- miðlun upplýsinga til allra viðkomandi ADHD, sérstaklega þeirra sem í starfi sínu koma að málefnum einstaklinga með ADHD
- að efla gagnkvæm tengsl og miðlun upplýsinga milli félagsmanna
- réttindagæsla og barátta fyrir bættri löggjöf og framþróun í málefnum einstaklinga með ADHD
ADHD samtökin gegna veigamiklu hlutverki gagnvart börnum og unglingum með ADHD og skyldar raskanir, fjölskyldum þeirra og fullorðnum með ADHD. Fræðslu- og upplýsingaþjónustan, fræðslufundir, útgáfustarfið, heimasíða, námskeið og stuðningshópar, norrænt samstarf, hagsmunagæslan, þróun starfsins á landsbyggðinni, allt eru þetta verkefni og starfsemi sem gagnast þeim stóra hóp fjölskyldna og einstaklinga sem leita til samtakanna.
Ennfremur vilja ADHD samtökin beita sér fyrir eftirfarandi :
- Þróun starfseminnar á landsbyggðinni; samtökin vilja styrkja tengslin við félagsmenn á landsbyggðinni, fagaðila og sérfræðinga sem landsbyggðarfólk leitar til.
- Fræðsluátak til allra þeirra sem vinna með börnum og unglingum með ADHD og skyldar raskanir; stöðugt er þörf á aukinni fræðslu um hvað er ADHD eða athyglisbrestur og ofvirkni; orsakir og tíðni, afleiðingar þessarar taugaþroskaröskunar fyrir börn og unglinga og framtíðarhorfur þeirra. Niðurstöður Rannsóknar og greiningar á utanskólanemendum á framhaldskólaaldri, benda til að ungt fólk með athyglisbrest og ofvirkni séu áberandi í hópi brottfallsnema á framhaldsskólastiginu.
Samstarf hérlendis og erlendis
- Samstarf hérlendis; til margra ára hafa ADHD samtökin átt gott samstarf við alla helstu fagaðila og sérfræðinga í málefnum barna og fullorðinna með athyglisbrest, ofvirkni og skyldar raskanir.
- Norrænt samstarfog norrænir samstarfsfundir sem haldnir eru árlega eru mikilvægur þáttur í þróunarvinnu og gagnkvæmri upplýsingamiðlun ADHD samtakanna á Norðurlöndum, sem og ráðstefnur hérlendis og erlendis.