Opnir fræðslufundir um ADHD á Facebook

Fræðslufundir á Facebook

Á meðan samkomutakmarkanir stjórnvalda vegna Covid voru í gildi, stóðu ADHD samtökin fyrir reglulegum opnum fræðslufundum um ýmis málefni tengd ADHD. Fræðslufundunum var streymt beint á Facebook síður samtakanna - ADHD samtökin, ADHD Eyjar og ADHD Norðurland.

Fræðslufundirnir urðu sex má nálgast upptökur af þeim hér að neðan:

15. april kl. 19:30 - Unglingar og ADHD. Fyrirlesturinn má nálgast hér.

Umsjón: Sólveig Ásgrímsdóttir, sálfræðingur, stjórnarkona í ADHD samtökunum og höfundur verðlaunabókarinnar Ferðalag í flughálku - unglingar og ADHD fer yfir þær fjölbreyttu áskoranir sem unglingar með ADHD ganga í gengum á þessu viðkæma aldursskeiði og horfir sérstaklega til þess erfiða ástands sem nú ríkir í samfélaginu, þegar kærkomnar rútínur eru brotnar upp og óvissa ríkir. Ekki er ólíklegt að kvíði, streita og jafnvel mótþrói gerir meira vart við sig í því ástandi sem nú ríkir og þá er mikilvægt að þekkja leiðir sem virka... setja hæfilegar kröfur og laga sig að nýjum aðstæðum. Ýmislegt er til ráða og mun Sólveig miðla af reynslu sinni og svara spurningum eftir megni.  

22. apríl kl. 19:30 - Lyf og ADHD. Fyrirlesturinn má nálgast hér.

Mikil umræða hefur verið um notkun lyfja og ADHD á liðnum misserum og víða má greina fordóma og vanþekkingu um þessi mál. Á fundinum verður farið yfir virkni helstu lyfja sem notuð eru vegna ADHD, rætt um mögulegar aukaverkanir og reynt að svara helstu spurningum sem brenna á vörum fundargesta. Umsjón með fundinum hefur Vilhjálmur Hjálmarsson, varaformaður ADHD samtakanna.

29. apríl kl. 19:30 - ADHD, svefn og streita. Fyrirlesturinn má nálgast hér.

Átt þú í erfiðleikum með svefn? Einstaklingar með ADHD sofa að jafnaði þriðjungi minna en aðrir. Þeir safna í svefnskuld og ADHD einkenni aukast. Í fyrirlestri kvöldsins skoðar Sigrún Jónsdóttir, ADHD markþjálfi og stjórnarkona í ADHD samtökunum hvernig má bæta svefn og minnka steitu - bæði hjá börnum og fullorðnum. 

13. maí kl. 19:30 - Betra líf - ADHD markþjálfun. Fyrirlesturinn má nálgast hér.

Viltu taka stjórnina eða sleppa tökunum? Sigrún Jónsdóttir, fyrirlesari dagsins er ADHD markþjálfi og með nokkuð  þrálátan  áhuga á öllum sviðum ADHD. Hún er stjórnarkona í ADHD samtökunum, móðir ADHD dásemda og sjálf með ADHD.  Á fræðslufundinum fjallar hún um hvernig hvernig nálgun ADHD markþjálfans getur hjálpað og stutt við ferlið að þekka eigin styrkleika og yfirstíga hindranir einstaklinga með ADHD. Fólk með ADHD er fjölbreytilegt  og því þarf að finna leiðir sem henta hverjum og einum. Spurningin er Kannski þessi; Viltu þú vera við stýrið í eigin lífi? Þeir sem vilja leggja spurningar fyrir Sigrúnu, nafnlaust eða undir nafni, geta sent henni spurningar hér.
 

Fræðslufundirnir eru opnir öllum en þeir sem vilja ganga í ADHD samtökin og styrkja þannig starfsemina geta gert það hér:
https://www.adhd.is/is/styrkja/gerast-felagsmadur-beintengt

Þá vekjum við athygli á vefverslun samtakanna, en þar er m.a. hægt að fá margskonar fikt-, leik- og þroskandi vörur og fjölda bóka sem nýst geta vel við nám og daglegt líf með ADHD. Félagsmenn ADHD samtakanna njóta sérkjara á ýmsum vöruflokkum. Vefverslun ADHD samtakanna.