Íþróttir og tómstundir

Fjörður Íþróttafélag www.fjordursport.is 
Íþróttafélag fatlaðra í Hafnarfirði. Íþróttagreinar: Sund og Boccia.
 
Íþróttafélag fatlaðra í Reykjavík www.ifr.is
Öflugt íþróttastarf fer fram á vegum félagsins. Íþróttagreinar: Boccia, bogfimi, borðtennis, frjálsar íþróttir, íþróttaskóli ÍFR, knattspyrna, lyftingar, sund og skautar.
 
Íþróttafélagið Ösp www.ospin.is
Íþróttafélagið Ösp er opið öllum, sem hafa áhuga á íþróttum, sem æfðar eru hjá félaginu: Sund,  keila, frjálsar íþróttir, boccia, fótbolti, lyftingar, þrekþjálfun, nútíma fimleikar og áhaldafimleikar í samstarfi við Gerplu.
 
Litli Íþróttaskólinn www.litliithrottaskolinn.is
Litli íþróttaskólinn er fyrir börn á aldrinum 17 mánaða til 3 ára þar sem börn og aðstandendur eru saman í hreyfistund á forsendum barnsins.
 
Mudo gym www.nareban.is
Drekarnir (Bláu drekarnir) eru 8-14 ára og fá sitt pláss og sitt svæði eins og alvöru drekar. Þessir hópar eru sérstaklega fyrir krakka á einhverfurófi og er unnið með líkamsvitund, samskipti, skynjun og svo auðvitað Taekwondo tækni. Hámarksfjöldi er 10 í hóp og 2-3 kennarar. 
 

Parkourhópurinn Víkingasveitin hjá Gerplu www.gerpla.is
Þessi hópur er miðaður að iðkendum sem treysta sér ekki til að stunda íþróttir þegar margir iðkendur eru í salnum. Þar má nefna iðkendur sem eiga ekki heima í hóp sem Gerpla er með fyrir fatlaða, en treysta sér ekki til að æfa í hóp þar sem margir iðkendur eru með tilheyrandi áreiti. Þar fá iðkendur að koma á Parkour miðaða æfingu undir leiðsögn þjálfara sem hafa leitt hópinn síðustu 4 ár. Iðkendur sem leita í þennan hóp eiga margir erfitt með að vera í hefðbundnum íþróttum og finnst erfitt að venjast nýju umhverfi. Þar er þeim kenndur grunnur í Parkour en áhersla er á að þau fái hreyfingu í öruggu umhverfi til þess að auka sjálfstraust. Oft hafa iðkendur síðar verið tilbúnir að færa sig yfir í hefðbundnari Parkour hóp þegar þeir treysta sér til þess og vilja æfa oftar í viku. Í hópinn leita gjarnan iðkendur sem eru með Tourette, ADHD, á einhverfurófi, félagsfælnir eða óöruggir. Gerpla býður upp á prufutíma ef áhugi er fyrir hópnum með þeim fyrirvara að það sé laust pláss í hópnum. Hópurinn æfir á laugardögum klukkan 16:00-17:30 í íþróttahúsinu í Vatnsenda.

 
Nexus Noobs er hópastarf ætlað ungmennum á aldrinum 12 til 20 ára sem hafa áhuga á að kynnast félögum með svipuð áhugamál ásamt starfsemi og félagsstarfi hjá Nexus.
Í Nexus Noobs gefst þeim tækifæri til þess að fræðast um ólík viðfangsefni eins og öllu sem viðkemur teiknimyndasögum, vísindaskáldskap og ævintýrasögum. Þátttakendur fá kennslu á ýmsum borðspilum, herkænskuleikjum og hlutverkaspilum svo eitthvað sé nefnt.
 
Skema stendur fyrir fjölbreyttum tækninámskeiðum og vinnur auk þess að því markmiði að kennsla í forritun verði í boði í grunn- og framhaldsskólum landsins.
Skema notar aðferðafræði sem er studd af rannsóknum á sviði sálfræði, kennslufræði og tölvunarfræði. Undirstöðuatriði aðferðafræðinnar byggja á jákvæðni, myndrænni framsetningu og notkun á þrívíðum forritunarumhverfum til að stíga fyrstu skrefin inn í heim tækninnar.
 
Tónstofa Valgerðar www.tonstofan.is
Í Tónstofunni fer fram tónlistarkennsla fyrir nemendur sem vegna fatlana og eða sjúkdóma þurfa sérstakan stuðning. Tónstofan er eini tónlistarskólinn á landinu þar sem þessir einstaklingar njóta forgangs. Framvinda og markmið kennslunnar sem og kennsluaðferðirnar taka mið af forsendum, þörfum og óskum hvers einstaks nemanda. Nemandi í Tónstofunni getur lagt stund á hefðbundið tónlistarnám. Hann getur einnig notið fjölþættrar tónlistarkennslu og þjálfunar sem beinist að því að efla tónnæmi hans og tónlistarfærni, bæta líðan hans og veita sköpunarþörfinni útrás.
 
Spilavinir www.spilavinir.is
Eru með opin spilakvöld þar sem 40-80 manns geta mætt lært á ný spil, þar er einnig boðið uppá bekkjarkvöld en þau eru haldin um alla borg. Að auki eru Spilavinir að prófa sig áfram með Fjölskylduspilastundir í versluninni. Opnu spilakvöldin eru annan hvern fimmtudag, en Fjölskylduspilastundirnar eru óreglulegri — suma föstudaga milli 16-18. Hægt er að fylgst með viðburðunum á Facebook.
 

Rafíþróttir
Hjá Rafíþróttasamtökum Íslands er hægt að sækja námskeið um jákvæða upplifun af tölvuleikjaspilun og hvernig foreldrar eða samfélög geta stuðlað að jákvæðari upplifun ungmenna af tölvuleikjaspilun. Góð stund fyrir fyrstu kynni af rafíþróttum. Eins hafa sprottið upp rafíþróttadeildir inna íþróttafélaganna og er gríðarlega uppbyggilegt og fjölbreytt starfa þar í boði.

 

Rafíþróttir - Fylkir  www.fylkir.is/rafithrottadeild/ eða www.adhd.is 

Hjá Rafíþróttadeild Fylkis er hægt að sækja námskeið sem miða að því að efla félagsfærni,  mynda tengsl við aðra og ekki síst til að rjúfa félagslega einangrun með því að spila tölvuspil. Lögð er áhersla á jákvæða tölvuleikjaspilun, líkamlega og andlega heilsu og liðsheild. Iðkendur hita upp með líkamlegri hreyfingu, læra heilbrigða spilunarhætti og vinna saman sem lið. Rafíþróttadeild Fylkis hefur boðið upp á sérsniðin námskeið fyrir börn og ungmenni með ADHD og aðrar raskanir/fatlanir. 

 

Pílukastfélag Hafnarfjarðar www.pfh.is

Er vettvangur fyrir þá sem áhuga hafa á pílukasti. Allir velkomnir frá byrjendum til lengra komna. Iðkendur eru á öllum getustigum. Ingibjörg og Vitor sjá um barna-og unglingastarf í Píluklúbbnum og alvön að vinna með einstaklinga með ýmsar áskoranir. Aðstaðan er sérstaklega hönnuð að hreyfihömluðum.