Starfsemi samtakanna

ADHD

ADHD samtökin eru landssamtök til stuðnings börnum og fullorðnum með athyglisbrest, ofvirkni og skyldar raskanir.

Markmið ADHD samtakanna er að börn og fullorðnir með ADHD og skyldar raskanir mæti skilningi alls staðar í samfélaginu og hafi gott aðgengi að þjónustu sem hefur það að markmiði að hámarka hæfni þeirra og lífsgæði á öllum aldursskeiðum.

Samtökin vinna að markmiðum sínum með því að búa yfir eða eiga í samstarfi við aðila sem hafa framúrskarandi þekkingu á greiningu, meðferð og stuðningi við einstaklinga með ADHD og skyldar raskanir. Þeirri þekkingu miðlum við til hagsmunaaðila með ráðgjöf og öflugu fræðslustarfi ásamt því að sinna markvissri hagsmunagæslu í eigin nafni eða í góðu samstarfi við aðra sem hafa sömu baráttumál á stefnuskrá sinni.

Skrifstofa samtakanna er að Háaleitisbraut 13, 108 Reykjavík í sama húsi og Sjónarhóll ráðgjafarmiðstöð er til húsa og félögin sem standa að Sjónarhóli. En þau félög eru auk ADHD samtakanna, Landssamtökin Þroskahjálp, Umhyggja – til stuðnings langveikum börnum og Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra.

Helstu starfsþættir ADHD samtakanna eru :

Upplýsinga- og fræðsluþjónusta er veigamikill þáttur í starfi samtakanna, skrifstofa samtakanna er opin alla virka daga kl. 13-16. Upplýsingar og ráðgjöf er veitt í gegnum síma 581-1110 alla virka daga frá kl. 13-16. Á skrifstofu samtakanna er bókasafn, greinar og gögn um málefnið. Vefsíða samtakanna www.adhd.is hefur verið í stöðugri þróun og er enn, á vefsíðunni er aðgengilegt efni um flest það sem tengist málefninu og linkar á aðrar gagnlegar vefsíður.

Fréttabréf samtakanna er sent öllum félagsmönnum og sömuleiðis fer það til fjölmargra stofnana, fyrirtækja, fagaðila og sérfræðinga sem tengjast málefninu. Í fréttabréfi eru fræðslufundir auglýstir, ýmis tilboð, námskeið og stuðningshópar er kynnt, auk greinaskrifa og viðtala um málefnið.

Önnur útgáfa; í gegnum árin hafa samtökin staðið að ýmissi útgáfu um ADHD og skyldar raskanir. Fræðslubæklingar sem ADHD samtökin hafa gefið út á síðustu misserum eru samtals 15. Þá hafa samtökin gefið út fjórar bækur.

Fræðslubæklingar: (linkar í alla bæklingana)

Bækur:

 Fræðsla, námskeið, hópvinna;  spjallfundir eru haldnir einu sinni í mánuði yfir vetrartímann fyrir fullorðna með ADHD og einu sinni í mánuði yfir vetrartímann fyrir foreldra og forráðamenn barna með ADHD. Fræðslufundir ADHD samtakanna eru jafnan vel sóttir. Á hverju ári eru haldnir tveir til fjórir fræðslufundir þar sem margir af helstu sérfræðingum hérlendis og erlendis hafa haldið fræðsluerindi um ADHD hjá börnum, unglingum og fullorðnum.

ADHD samtökin hafa haldið námskeið fyrir foreldra og forráðamenn barna með ADHD, sjálfsstyrkingarnámskeið fyrir unglinga, fræðslunámskeið og ráðgjöf fyrir fullorðna með ADHD og námskeið fyrir kennara og annað fagfólk sveitarfélaga.

Málþing ADHD eru haldin árlega í lok alþjóðlegs vitundarmánaðar sem er í október.

Ráðgjafarmiðstöðin Sjónarhóll; vegna aðildar samtakanna að stofnun og rekstri Sjónarhóls hafa félagsmenn nú aðgang að sérhæfðri fjölskylduráðgjöf sem miðar að því að greiða götu fjölskyldna barna með sérþarfir í flóknu umhverfi hinna ýmsu stofnana og þjónustuaðila. En eitt af markmiðum Sjónarhóls er að koma á samstarfi allra þeirra aðila sem geta tengst máli einnar fjölskyldu, sem sagt samþætting þjónustunnar og eftirfylgd.

VEFUR SJÓNARHÓLS

Ráðstefnur og norrænt samstarf; ADHD samtökin hafa eftir efnum og aðstæðum reynt að senda fulltrúa á helstu ráðstefnur um ADHD bæði hérlendis og erlendis. ADHD samtökin eru aðili að norrænu samstarfi sambærilegra félagasamtaka á hinum Norrænu löndunum og eru samstarfsfundir haldnir árlega.