Frá hinu opinbera

Vinnulag við greiningu og meðferð athyglisbrests með ofvirkni (ADHD)

Landlæknisembættið hefur gefið út vinnureglur við greiningu og meðferð athyglisbrests með ofvirkni (ADHD), en höfundar þeirra eru Gísli Baldursson, barna- og unglingageðlæknir, Páll Magnússon yfirsálfræðingur, H. Magnús Haraldsson, sérfræðingur í geðlækningum fullorðinna, og Matthías Halldórsson aðstoðarlandlæknir.

Um er að ræða 30 blaðsíðna rit, þar sem farið er ítarlega yfir helstu atriði er varða þessa algengu röskun, bæði meðal barna og fullorðinna. Ritið styðst við fjölda heimilda. Verklagsreglurnar eru aðlagðar íslenskum aðstæðum. Afar mikilvægt er að vel sé staðið að greiningu og meðferð þessarar röskunar. Á síðustu árum hafa komið fram forðalyf, sem eru auðveldari í notkun en þau lyf sem áður voru notuð og eru síður misnotuð en Ritalín. Eftir sem áður mega foreldrar sitja undir fordómum og ásökunum þeirra sem oft hafa litla þekkingu á efninu, enda þótt rannsóknir sýni að þessi lyf hafi góð áhrif á kjarnaeinkenni ADHD og séu í mörgum tilvikum forsenda annarrar meðferðar, sem þó er einnig mikilvæg. Flestir þekktustu vísindamenn á þessu sviði hafa gefið út sameiginlega yfirlýsingu á ensku. ADHD félagið hefur látið þýða þessa yfirlýsingu á íslensku.

Mikilvægt er að meðhöndlun sé ávallt í samræmi við bestu þekkingu á hverjum tíma. Verklagsreglurnar eru því ekki endanlegar, heldur verður þeim breytt í samræmi við þá þekkingu sem fram kann að koma.

Matthías Halldórsson
aðstoðarlandlæknir


Samið við sálfræðinga vegna þjónustu við börn

Í fyrsta sinn hefur nú verið samið við sjálfstætt starfandi sálfræðinga um greiðsluþátttöku TR vegna þjónustu við börn. Í samningnum er m.a. gert ráð fyrir að sálfræðingar sem sinna þessari þjónustu hafi víðtæka reynslu af meðferð við börn og ungmenni. Þá er og gert ráð fyrir að barna- og unglingageðdeild Landspítala, BUGL, og Miðstöð heilsuverndar barna vísi á sálfræðingana.

Samninganefnd heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra og sálfræðingar gengu á dögunum frá samningum sem ráðherra og samninganefnd sálfræðinga samþykktu. Af hálfu heilbrigðis-og tryggingamálaráðherra er samningurinn liður í þeirri stefnu hans og áherslum sem fram koma í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarflokkanna að stórefla þjónustu við börn og ungmenni. Kostnaðurinn vegna samningsins á næsta ári verður um 35 milljónir króna og hefur Guðlaugur Þór Þórðarson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra lagt áherslu á að með samningunum fjölgi valkostunum sem þeir hafa sem þurfa á þjónustunni að halda www.heilbrigdisraduneyti.is/frettir/nr/2671