Stuðningur

 

Stuðningsfjölskylda

Fjölskyldur fatlaðra barna eiga kost á stuðningsfjölskyldu. Þjónustumiðstöðvar eiga að beita sér fyrir því að þær sé að finna eftir því sem þörfin segir til um. Tilgangurinn er meðal annars að draga úr álagi á heimili, veita börnunum tilbreytingu og gefa þeim kost á auknum félagslegum tengslum. Þau sem hafa hug á því að notfæra sér stuðningsfjölskyldu skulu snúa sér til viðkomandi þjónustumiðstöðvar sem sér um tilhögun dvalar og umsjár. Dvöl barns hjá stuðningsfjölskyldu skal bundin í samningi, milli þjónustumiðstöðvar og stuðningsfjölskyldu, og miðast við ákveðið tímabil.
Það getur verið erfitt að fá úthlutað stuðningsfjölskyldu og því oft fljótlegra ef foreldrar finni einhvern sjálfir sem er tilbúinn í verkið.
Þjónustumiðstöðvarnar eiga að kanna vandlega heimilishagi og aðstæður stuðningsfjölskyldu í þeim tilgangi að meta hæfni og möguleika viðkomandi fjölskyldu til að sinna hlutverki sínu. Þjónustumiðstöðvarnar hafa eftirlit með starfsemi stuðningsfjölskyldna og veita þeim fræðslu, ráðgjöf og stuðning. Tekið skal tillit til óska forráðamanna hins fatlaða einstaklings við val á stuðningsfjölskyldu.
Stuðningsfjölskyldur eru bundnar þagnarskyldu varðandi þær upplýsingar sem þær fá um einkahagi hins fatlaða og fjölskyldu hans og helst hún eftir að störfum er lokið.

Forráðamönnum barns ber að upplýsa stuðningsfjölskyldu um það sem er mikilvægt velferð barnsins, þar á meðal ef barn er haldið ákveðnum sjúkdómi. Ákvörðun um dvöl barns hjá stuðningsfjölskyldu er á ábyrgð forráðamanna barns.
Greiðslur til stuðningsfjölskyldu eru stigskiptar eftir fötlun og umönnunarþörf. Þær eru verktakagreiðslur og fara fram á vegum Fjársýslu ríkisins. Greiðslur til stuðningsfjölskyldu skerða ekki aðrar greiðslur eða þjónustu sem hinn fatlaði einstaklingur eða aðstandendur hans kunna að njóta.
Félagsráðgjafar hjá viðkomandi sveitarfélagi aðstoða foreldra við að sækja um stuðningsfjölskyldu.


Skattamál

Framfærendur fatlaðra og langveikra barna geta sótt um lækkun á tekjuskattsstofni vegna veikinda eða fötlunar barns, verði þeir fyrir verulegum kostnaði sem ekki fæst bættur annars staðar.
Umsókn um lækkun (eyðublað RSK 3.05) er skilað með skattframtali.
Lækkun skv. 2. tl. - Veikindi eða fötlun barns sem haldið er langvinnum sjúkdómum
Skilyrði fyrir lækkun skv. þessum tölulið er að maður hafi veruleg útgjöld umfram venjulegan framfærslukostnað vegna barns sem haldið er langvinnum sjúkdómum eða er fatlað. Með verulegum útgjöldum er átt við þann kostnað sem er umfram fengnar bætur, styrki og lífeyri sem greiddur er vegna kostnaðar sem af þessum tilvikum leiðir. Með kostnaði í þessu sambandi er átt við dvalarkostnað á stofnunum, lyfja- og lækniskostnað, kostnað vegna ferða, ýmiss konar sérútbúnaðar vegna fötlunar o.s.frv. Sýna þarf fram á að um óhjákvæmilegan kostnað sé að ræða og leggja fram gögn til staðfestingar á honum.
Umönnunargreiðslur eru ekki greiddar með börnum með ADHD greiningu.