Námskeið á vegum Barnageðlæknafélags Íslands, Fræðslustofnunar lækna og annarra
Dagana 10. og 11. nóvember héldu Barnageðlæknafélag Íslands og Fræðslustofnun
lækna ásamt nokkrum öðrum samtökum er málið varða, námskeið ætlað kennurum,
skólastjórnendum, sálfræðingum, heilsugæslulæknum og skólahjúkrunarfræðingum.
Námskeiðið bar hið volduga heiti skörun námsvanda við erfiðleika í hegðun og athygli
og önnur geðheilbrigisvandamál barna.
Fyrirlesarar komu frá Hospital for Sick Children, Toronto í Kanada, en þeir voru þau
Rosemary Tannock Ph.D, Rhonda Martinussen Ph.D og Abel Ickowicz MD.
Undirrituð átti þess kost að sitja seinni dag námskeiðsins á vegum félags okkar. Var
ánægjulegt að sjá hversu margir úr menntastéttinni voru þarna samankomnir ásamt
öðrum. Hafði flest fólkið setið fyrri daginn en margir voru farnir um hádegishlé þar sem
þeim fannst ekki koma fram neitt nýtt. Ekki skal ég nú dæma um það því sjálfri finnst
mér gott að heyra þessi fræði með reglulegu millibili til að skerpa á þeirri kunnáttu sem
fyrir er. Ef setið er undir fyrirlestri nýs aðila þá er mjög líklegt að eitthvað komi fram sem
getur varpað ljósi á einhver tiltekin atriði sem geta hjálpað til í baráttunni við að koma
menntuninni til skila hjá börnunum. Alla vega fannst mér þetta koma mér að gagni þrátt
fyrir að hafa setið ýmsa fyrirlestra áður.
Erfitt er að gera þessum fyrirlestrum skil í grein sem þessari því efnin sem fjallað var
um komu svo víða við og fyrirlesararnir skiptu bróðurlega með sér verkum þannig að
oftast komu þau öll með innlegg þegar fjallað var um einn ákveðinn þátt. Þannig var
fjallað um hvert atriði frá sjónarhóli rannsóknaraðila, læknis, kennara og sálfræðings.
Það sem virkilega vakti athygli mína voru blöðin sem þátttakendur fengu. Á þeim voru
lítil ljósrit af öllum þeim glærum sem notaðar voru. Þetta varð til þess að mun auðveldara
var að skrifa niður því nú þurfti maður bara að skrifa það sem ekki var á glærunum! Það
var svo sem alveg nóg fyrir ófaglærða manneskju eins og mig.
Þar sem námskeiðið var sniðið að miklu leyti að skólaumhverfinu þá var mikið talað
um hvernig kennarar sjá vandamál barnanna, viðbrögð þeirra er þeir fyrst verða varir við
slík vandamál, mat þeirra á námsgetu barnanna, samskiptum við foreldrana, sérkennsluúrræðum
og úrvinnslu greiningarferlisins.
Eins og komið hefur fram þá komu fyrirlesararnir frá öðru landi og þekktu því ekki til
hátta hér og lögðu þau því ríka áherslu á, að það sem virkaði vel hjá þeim gæti allt eins
virkað hér.
Síðdegisnámskeið, sem ætlað var foreldrum, var haldið eftir að námskeiði fagfólksins
lauk. Ætla mætti að foreldrar myndu fjölmenna á slíkt námskeið sérstaklega þar sem
fyrirlesarar voru erlendir og þátttaka var ókeypis! Því miður varð sú ekki raunin og er í
raun skammarlegt hversu fáir foreldrar sáu sér fært að mæta. Getur verið að kynningin á
þessum kafla námskeiðsins hafi brugðist því bágt á ég að trúa því að foreldrar láti hjá
líðast að mæta þegar slíkir fyrirlesarar eru í boði.
Þrátt fyrir fámennið þá fóru hinir erlendu fyrirlesarar með styttri útgáfu af fyrirlestrum
dagsins sem hefði svo sannarlega vel átt erindi til fleiri foreldra. Vegna
þátttakendafjöldans gafst meiri tími til fyrirspurna og má segja að í lokin hafi
andrúmsloftið verið mjög óformlegt.
Framtak sem þetta ber að þakka því það verður að segjast eins og er að enn finnast þeir í
kennarastéttinni og í heilsugæslugeiranum sem ekki hafa fengið þá fræðslu um þessi mál
sem nauðsynleg er fyrir börnin okkar. Um leið verður að benda á það að ef foreldrum
gefst kostur á að mæta á námskeið sem þetta þá verður að gæta þess að auglýsa það
sérstaklega vel þannig að það fari ekki framhjá neinum.
Kristín Ingibjörg Guðmundsdóttir Foreldri og stjórnarmaður í FFMB