Sérkennsla og foreldrar

Gyða Stefánsdóttir sérkennari
Úrdráttur úr fyrirlestri
17. nóvember 1993

Fyrirlestur Gyðu var óvenju vel sóttur, líklega um 130 manns. Náði hún góðu sambandi
við áheyrendur, létt var yfir fólki og oft hlegið. Sjálf sagðist hún hafa skemmt sér best
allra. Er fundinum lauk var eins og salurinn ætlaði aldrei að tæmast, svo margir vildu
leita hjá henni ráða.
Fyrst sagði hún frá sjálfri sér, að hún væri ekki í rauninni hefðbundinn sér kennari
heldur móðir barna með leserfiðleika og hefði fyrst farið að læra þegar börnin voru
uppkomin.

„Bestu berklalæknarnir hér áður fyrr voru allt gamlir berklasjúklingar, þeir vissu hvar
eldurinn brann heitast á þeim sjálfum og þekktu þjáninguna. Það er vissulega mjög
æskilegt að það fólk fari út í þetta, sem þekkir það á sjálfu sér hvernig er að standa í þessu
og sem sér, að þetta er ekki neitt sem þarf að hlaupa í burtu frá“.
Gyða segist ekki komin með neina endanlega lausn, heldur sé enn að leita leiða, rétt að
byrja. Hún byrjaði á því að þróa foreldraaðstoð.

„Ef ég væri móðir með ung börn í dag þá vildi ég fá kennara sem segði mér hverjar
kröfur samfélagsins væru á þessi börn mín og hvernig ég gæti kennt þeim“.
Hún telur að þetta sé eina leiðin til þess að krakkar með eðlilega greind en sértæka
námsörðugleika fái kennslu við hæfi. „Það er enginn meiri sérfræðingur í barninu en
foreldrið, enginn elskar það meira og enginn hefur meiri þolinmæði bara ef foreldrið veit
hvað á að gera og hvað er best. Kennarinn veit ekki endilega hvað er best nema ræða við
foreldrana.“

Foreldraaðstoðin

Gyða gerir samning við foreldrana um að halda út í 2-3 mánuði, því það kostar átak að
byrja. Eftir mánuð verður vinnan að hennar sögn eins og að bursta tennurnar og svo fer
fólki að finnast gaman.

Áætlað er að kennslan taki 10-15 mínútur á dag. Ekki er ráðlegt að lengja tímann um of,
því þá verða börnin leið. Einn þátturinn er hljóðunarþjálfun sem Gyða hefur reynt að búa
til sjálf eftir fyrirmynd frá Ísrael. Hún setur dagsetta miða í lestrarbókina með þeim
orðum sem barnið á í erfiðleikum með. Foreldri sest niður með barninu og kennir því að
hlusta eftir hljóðunum. „Skrifaðu fyrsta hljóðið í þessu orði (t.d. út í loftið) og svo það
næsta“.

Stafsetningin gengur betur þegar börnin fara að hlusta eftir hljóðum. Þessi börn eiga
auðveldara með að læra myndrænt en á annan hátt og því þarf að kenna þeim að búa til
myndir og tengja. Gyða nefndi dæmið um undantekningarnar á ng og nk reglunni. Fjögur
orð; kóngur - frænka - sæng - vængur. Búa til mynd, t.d.: Frænka kóngsins liggur á
sæng með væng! Þá man barnið undantekningarnar.

Öll fjölskyldan vinnur saman, foreldra og systkini. Hver skrifar eina setningu og límir á
áberandi stað. Allir ræða hvað er rétt og rökstyðja. „Af hverju er þarna grannur sérhljóði
og þarna breiður?“ Foreldrarnir segjast oft vera jafn lélegir í stafsetningu og barnið en
þetta gengur samt.

Oftast eiga börnin í erfiðleikum með að læra ljóð og þá er sama aðferð notuð. Eins
setning á dag er límd upp á vegg og allir læra hana saman.

Þó foreldraaðstoðin sé enn þungamiðjan, hefur Gyða tekið litaðar glærur og snefilefnið
sink inn í dæmið og segist álíta að það létti mikið.

Glærurnar

Gyða segir að samkvæmt rannsókn í Harvard háskólanum fái 88% lesblindra hjálp með
lituðum glærum eða glerjum og fór hún utan til þess að kynna sér málið betur.
Ákveðnar frumur í sjónskyninu eiga að vinna helmingi hraðar en aðrar (magnocellular
pathway) en hraðinn mælist minni en eðlilegt er hjá lesblindum. Afleiðingin er að þeir
þurfa lengri tíma til þess að skynja sjónáreiti og eiga í erfiðleikum ef skerpa er lítil.
Litaðar glærur gera á einhvern hátt gagn og sagði Gyða að langflestir veldu bláan lit (um
80%) en að næst kæmi rauður (8%). Börn á aldrinum 7-8 ára eru yfirleitt ánægð með
glærurnar en eldri börn vilja frekar lituð gleraugu.

Sinkið

Í British Medical Journal ‘89 kom fram að bresk skólabörn með lestrarörðugleika væru
1/3 lægri í sinki en félagar þeirra og í grein í Lancet sama ár var rætt um jákvæð áhrif
bætiefnagjafar, þ.m.t. sinks, á árangur í “nonverbal“ prófum.
Árið 1992 fór Gyða að vinna með börn sem fallið höfðu á grunnskólaprófi. Sum hver
voru alveg búin að missa lífslöngunina. Þá ákvað hún að athuga hvort hér gæti verið að
finna hjálp. Hún fór til landlæknis, sem lét prófa 70 íslenska krakka. Þau mældust flest
við neðri normalmörk. Hún fékk leiðbeiningar hjá íslenskum læknum um hvað mætti
gefa börnum og bætti við Vitaminerali og B-combi. Foreldrarnir hafa umsjón með
bætiefnagjöfinni sem fer fram eftir ákveðinni forskrift.
Gyða sagði að aldrei hefðu jafn margir náð upp úr fornámi MK eins og þennan vetur og
var hún sjálf hissa á árangrinum.
Ekki er þó allir jafn sannfærðir, því ekki hefur farið fram strangvísindaleg rannsókn á
áhrifum sinkgjafar á námsárangur.
„Ef ekki er farið yfir ráðlagðan dagsskammt (RDS), á hún altént ekki að geta skaðað“.

Börnin

Gyða sýndi okkur nokkur dæmi um hvernig þessi börn sjá stafina. Fyrst sýndi hún blað
sem var eins og þvegið og illlæsilegt og svo blað þar sem letrið allt var tvöfalt. Sumir
segja að það sé eins og letrið hristist allt og skjálfi og glennist sundur hér og þar. Það
kostar mikla áreynslu að lesa og oft eru börnin búin eftir eina síðu.
Lesblinda (Dyslexia) er meðfætt taugafræðilegt ástand og kemur alltaf fram við nám í
erlendum tungumálum. Samt virðist vera hægt að lifa með þessu, vinna úr því og nýta
krafta barna þannig að þau nái prófum.
Fram kom að þessi börn eiga oft erfitt með að svara spurningum. Gyða notar gömul próf
og kennir þeim að svara spurningum og taka próf. Hún ráðleggur foreldrum að kaupa
kennaraleiðbeiningarnar og kenna barninu bara sjálfir.
Þessi börn gjalda þess hve hraðinn eykst í samfélaginu, því þau þurfa lengri tíma en
aðrir til þess að vinna úr áreitum. Oft vantar þau almennar upplýsingar sem talið er
sjálfsagt að allir hafi, kannski af því að þau ná ekki að fylgjast með.
„Því greindari sem börn eru, þeim mun erfiðara verður vandamálið þeim, þau gera sér
grein fyrir því að þetta er eitthvað sem þau geta ekki en ættu að geta“.

Val á börnum í sérkennsluna

Gyða er ekki sátt við hvernig henni er skammtaður ákveðinn hópur. Rannsóknir sýna að
fimmta hvert barn þarf aðstoð við námið. Sum börn leyna á sér, geta e.t.v. lesið orð eftir
minni í 7-8 ára bekk en ná ekki lengri orðum.
„Ef lítið er að, fer barnið fljótlega frá mér aftur en með því að taka nógu marga er verið
að tryggja góðan árangur.“
Ef aðstoð dregst fram yfir 3. bekk, er búið að missa líkurnar á árangri úr 80% niður í
35% skv. rannsóknum Ísraela.
Gyða hefur ekki góða reynslu af því að byrja aðstoð þegar börnin eru orðin 10 ára eða
eldri. Þá eru þau farin að skammast sín fyrir vandamálið og eru oft ófús til samstarfs,
öfugt við þau yngri.

Að gefast ekki upp

Í sumum fjölskyldum er lesbindan svo slæm að það jaðrar við ólæsi en Gyða leitar allra
leiða.
„Bendir eitthvað til þess að barnið eigi auðveldara að læra á einum stað en öðrum eða
með einni aðferð fremur en annarri?“
Hún hefur enn ekki fengið barn sem þarf að gefast upp með og telur sig verða stöðugt
öruggari.

Við höfum vald

Gyða sagði að foreldrar skyldu ekki vanmeta eigin áhrif. Við getum sagt við
stjórnmálamenn: ,Hvar standið þið í þessu máli? Viljið þið standa fyrir því að þessi börn
fái kennslu við hæfi í 7-8 ára bekk. Ef ekki, þá kjósum við ykkur ekki´. Hún ráðlagði
fólki að mynda þrýstihóp, þar sem það væri ódýrara, léttara og skemmtilegra að taka á
þessu í 7-8 ára bekk.

Enn að leita leiða

Gyða er á leið til Írael til þess að kynna sér starfsemi kennslu-miðstöðvar þar. Fall var
60% meðal barna nýbúa af austurlenskum uppruna og tilgangur miðstöðvarinnar er að
kenna foreldrum að kenna börnunum. Reynslan þaðan sýnir að foreldrum léttir mjög
þegar einhver fer að vinna með þeim.

Spurningar og svör

* Í svari kom fram að gleraugun fást í Linsunni en enginn selur enn glærurnar. Gyða
hefur aðeins fengið leyfi til að panta fyrir sína nemendur.
* Gyða sagði aðspurð að foreldraaðstoðin væri aðalatriðið en glærurnar og sinkið léttu
mikið. - „Með því að sýna barninu athygli gefum við því þá tilfinningu að það sé
einstakt og að við séum sátt við það eins og það er“.
* Gyða hyggst kynna sér forvarnarstarf í leikskólum og taldi hugsanlegt að ef unnið væri
með barn síðasta árið í leikskóla, væru vandamálin síður sýnileg, þótt þau kæmu
óhjákvæmilega fram síðar í erlendu tungumálunum.

Ingibjörg Gísladóttir tók saman