Halló, halló Danmark

Á nýliðnu sumri bauðst mér og 13 ára dóttur minni að fara í viku sumarbúðarferð til
Danmerkur fyrir lítinn pening á vegum FFMB. Við slógum til en þar sem við erum
hvorugar mjög flínkar í landafræði eða tungumálum og þurftum að skipuleggja sjálfar
ferðina í búðirnar og heim aftur fengum við okkur einfaldlega þetta líka fína ferðakort af
Danmörku með lestarleiðum og öllu og bjuggum okkur svo undir mikið ævintýri.

Og ævintýri varð það og byrjaði reyndar fyrr en við reiknuðum með því það eru
ekki bara börnin okkar blessuð sem geta verið utan við sig, heldur tókst mér fullorðinni
konunni að mæta með okkur í flugvélina sólarhring eftir að hún var flogin. Heppnin lá
samt í loftinu og við fengum far með fluginu sem við mættum í, þótt það væri alls ekki
okkar. Hún kveikti svo aftur á perunni þegar við stóðum klyfjaðar bakpokum, tjaldi og
tilheyrandi útilegugræjum á lestarpallinum í Köben, kengbognar og sælar í útlöndum:
Auðvitað vorum við þá líka degi á eftir áætlun í búðirnar sjálfar og þar með búnar að
missa af fyrsta deginum þar sem fjölskyldurnar voru svona að hittast og koma sér fyrir.
Við létum það ekki á okkur fá heldur nutum þess að þvælast í lestum um hálfa
Danmörku og einbeittum okkur að því að fylgjast með hvar við vorum og hvert við
stefndum á fína kortinu okkar. Ferðamátinn var einstaklega þægilegur og miðinn sem við
keyptum á flugvellinum í Kastrup gilti ekki bara í lestirnar, heldur líka strætó sem við
þurftum að taka í lokin til að komast í lítinn skógi vaxinn bæ sem heitir Pindstrup og
liggur á milli Auning og Ryomgård, sem liggja svo á milli Grenå og Randers (á AusturJótlandi).
Þar fundum við svo sumarbúðirnar okkar á skemmtilegu skátasvæði með flottum
leiksvæðum, heljarinnar skógi, gamalli járnbraut sem var skemmtilegt að þræða á kvöldin
og hinni heimilislegustu sundlaug. Og þarna fundum við líka hinar fjölskyldurnar í
kringum tíu talsins, þannig að samanlagt vorum við yfir fjörtíu manns þarna samankomin.
Einhver afföll höfðu orðið en vikuna áður þar sem meira var stílað inn á yngri börn var
fjöldinn yfir áttatíu manns. Allavega, Danirnir tóku vel á móti flug- og lestarþreyttum
Íslendingum, fyrirgáfu allan seinagang og hefðu meira að segja tjaldað fyrir okkur ef
stoltið hefði leyft í lúnum kroppum.

Við vorum ekki eina fjölskyldan í tjaldi en flestir þó með sinn húsbíl eða
tjaldvagn, enda allt Danir, allstaðar að af landinu og hver fjölskylda allavega á einum bíl.
Sameiginlega höfðum við svo skátaskálann til eldamennsku og þvotta en höfðum reyndar
þann háttinn á þar sem við vorum þetta fá að elda saman hvert kvöld og þá alltaf á
útigrillinu því veðurguðirnir léku þvílíkt við okkur þessa viku að síðbuxur sáust helst ekki
á ferli fyrr en dimma tók. Þetta þýddi líka það að við Frónardömur vöknuðum kófsveittar
í okkar íslensku svefnpokum á morgnanna, en “so” eins og unglingarnir segja?

Ef ég hefði ekki vitað að þessi hópur samanstæði af „DAMP”-börnum hefði það
verið það síðasta sem mér hefði dottið í hug. Bæði börn og unglingar voru svo yfirmáta
afslöppuð og róleg að það var unun að slaka á og fylgjast með. Þessi afslöppun var ekki
bara sólinni að þakka heldur líka því að sumar fjölskyldurnar voru að koma þarna jafnvel
í níunda skiptið svo börnin vissu mörg upp á hár að hverju þau gengu og hinir fylgdu svo
á eftir og nutu með. Þá var dagskráin mjög hæfilega skipulögð, lítil spenna í gangi og það
skemmtilegasta kannski að krakkarnir sjálfir voru orðir vanir að halda utan um leiki sem
snérust ekki síst um að láta fullorðna fólkið blotna og villast í allskyns útgáfum af
þrautum og ratleikjum. Eitt kvöldið voru liðin samansett af bæði börnum og fullorðum og
heldur betur stolt íslensk móðir sem horfði á unglingsstelpuna sína slá flest dönsk
tímamet í trjáklifri og kaðlasveiflum. Seig hins vegar örlítið í aðra brúnina þegar
verðlaunin þyngdu bakpokann á heimleiðinni því þau voru stór danskur steinn áletraður
„1. Nattløb 2001” með tússi og varð að sjálfsögðu að fara með yfir hafið.

Dagskráin var semsagt mest afslöppun, góður matur, skemmtilegir leikir og
ævintýraferðir. Fyrstu þrjá dagana voru unglingarnir út af fyrir sig á daginn í skipulagðri
dagskrá með sér eldra ungu fólki sem er vant að vinna með DAMP-unglingum. Satt að
segja veit ég ekki mikið hvað þau voru að bauka því dóttir mín kaus að vera ekki með í
þeirri hópvinnu. Hún var að glíma við nýtt land, nýtt tungumál og sýndist þessir
unglingar eiginlega mikið stærri og fullorðinslegri en þeir hér heima og svo nærri bara
strákar. Nei takk, hún vildi frekar vera með okkur hinum þótt hinir dönsku unglingar
hættu að vera svona gríðarstórir þegar á leið og strákarnir svo auðvitað bara hin bestu
skinn þegar á reyndi.

Við létum okkur samt ekki leiðast og fyrst við vorum orðnar svona flínkar að
ferðast með lestum, tókum við mæðgur okkur til og skruppum af og til úr búðunum að
degi til og fundum okkar ævintýri tvær á ferð. Það var mjög gott í bland við
félagsskapinn á meðan daman var að átta sig. Einn af þessum skreppitúrum okkar var
skemmtileg ferð í dýragarð sem við fundum einhverstaðar inni í sveit og svo úr alfaraleið
að við ráfuðum í klukkutíma á eftir í leit að strætisvagnastoppistöð.
Tvisvar hópuðu fjölskyldurnar sig saman í bíla og lögðu í ferða-lög. Fyrst í
Kattegatcentret sem er heilmikið hákarla- og sjávardýrasafn í Grenå og svo eyddum við
einum ógleymanlegum degi í Djurs-sommerland sem er heilt ævintýri af
vatnaleikföngum. Við höfðum þann háttinn á í þessum ferðum að láta hverja fjölskyldu
um sig og og hittumst svo á fyrirfram ákveðnum tíma. Í Sumarlandinu var svo gaman að
á hverju fjölskyldustefnumóti var ákveðið að framlengja heimsóknina og útkeyrðar en
hamingjusamar fjölskyldur sem skiluðu sér í sumarbúðir að kvöldi. Helsta skemmtun
minnar dóttur á þessum stað var einhverskonar vatnsrússibani sem hún plataði mig í og
lét skjalfesta skelfingarsvipinn sem kom á mömmuna í mynd sem prýðir nú lyklakippuna
mína og heitir Frankenstein. Eftir fjórða skiptið sagði ég stopp og vildi bara fá frið til að
horfa á frábæra dýfingameistara sprella og leika listir sínar af háum stökkbrettum ofan í
pínkulitla laug. Á meðan ég naut þeirra listar tvær umferðir fékk unglingurinn sína útrás
með því að fara fjörtíu ferðir í bátarússíbana, takk fyrir.

Síðasta kvöldið í sumarbúðunum var slegið upp smá diskófíling í útitjaldi og þá
var mín dama orðin svo upptekin í leik með sínum dönsku félögum að hún gat voða lítið
við mig talað, nema til að segja mér að henni fyndist hundfúlt að þurfa svo að yfirgefa
alla þessa skemmtilegu stráka og eina þriggja ára hnátu daginn eftir.

Það tók hana sem sé tíma að blandast hópnum og gæti verið skemmtilegt að fara
aftur næsta sumar og leyfa henni að klára ferðina. Og örugglega enn skemmtilegra ef
fleiri íslenskar fjölskyldur vildu slást í för og njóta skemmtilegra sumardaga með Dönum.
Árið áður höfðu þeir eina færeyska fjölskyldu með í hópnum og voru yfir sig hrifnir af
því að hafa okkur þarna með þeim. Ég sat svo með á fundi í lokin til að fara yfir vikuna
og þótt ég skildi svo sem enga glás veit ég að þarna var rætt hvað mætti missa sig og
hvað má gera betur, allt í góðu bróðerni og yfir þessari líka ljúffengu köku sem einn
pabbinn galdraði fram. Krakkarnir funda á svipaðan hátt og svo er skipaður nýr hópur til
að sjá um undirbúninginn fyrir næsta sumar. Í þetta sinn samanstendur hópurinn bæði af
fólki sem hefur nærri áratugareynslu og foreldrum sem voru þarna í fyrsta sinn og svo
yfir sig ánægðir með ferðina að þeir ætla að koma með sitt fólk aftur og aftur.
Við fengum bílfar langleiðis til Kaupmannahafnar með einni sumarbúðarmömmunni og
tveimur sonum í lokin og komum við í H.C. Andersenhúsi í Óðinsvéum. Unglingurinn
minn skildi nú reyndar ekki alveg tilganginn með þessum útúrsnúningi til að æða í
eitthvað eldgamalt hús sem einhver löngu dauður kall átti einhvern tímann. Lyftist örlítið
brúnin á dömunni þegar hún sá allskyns útfærslur af ævintýrum sem hún kannaðist við í
þessu eldgamla húsi og brosti svo breitt þegar þau lifnuðu enn meira við í tívolíinu í
Köben seinna um kvöldið. Við enduðum nefnilega þessa miklu og skemmtilegu ferð
okkar með því að fá okkur heimagistingu í Kaupmannahöfn eina nótt, ráfuðum um í
okkar stuttbuxum á Strikinu daginn eftir og fundum okkur fleiri ævintýri. Skiluðum
okkur svo til Íslands í réttu flugi með bakpokana, allar græjurnar og að sjálfsögðu
steininn góða, svo yfir okkur þreyttar en sælar að við brostum nú bara þegar við sáum að
gamla bílnum okkar var farin að leiðast svo biðin eftir okkur í Leifsstöð að allt loft var
hreinlega úr einu dekkinu.

Takk kærlega fyrir okkur.

Ingibjörg Þ. Ólafsdóttir.

Ingibjörgu er þakkað kærlega fyrir fjörlega skrifaða grein um sumarbúðarlífið í
Danmörku. Þessu samstarfi verður haldið áfram og skuldlausum félögum býðst að sækja
um áþekka dvöl næsta sumar