Sumarbúðir í Danmörku sumarið 2001

Að fá að fara í sumarbúðir er draumur sem flest börn um allan heim eiga með sér.
Að vera misþroska – ofvirkur – vanvirkur – með hegðunarerfiðleika eða einhverja aðra
dulda eða sýnilega fötlun og eiga þess kost að fá að fara í sumarbúðir, og vera með
jafningjum sínum er kannski enn óraunverulegri draumur.
En vitið þið hvað? Sumir draumar rætast og fyrr en varði var draumurinn orðinn að
veruleika, og þegar fram líða stundir er hægt að ylja sér við minningar úr
ævintýradraumnum.

Sumarið 2001 var 2 fjölskyldum úr FFMB boðið að taka þátt í 7 daga sumarbúðum fyrir
misþroska (AD/HD) börn í Danmörku.

Norðmenn héldu búðirnar fyrir þáttakendur á aldrinum 10-14 ára, í fyrsta sinn utan
Noregs undir yfirskriftinni „Det er dejlig å ha AD/HD i Danmark!¨ í Fenskær Efterskole
í Nr. Nissum við Limfjörðinn á Jótlandi.

Norðmennirnir þ.e. Foreldrafélagið í Noregi sem heitir ADHD-foreningen buðu 2
þátttakendum frá hverju hinna Norðurlandanna að taka þátt í búðunum með sér.
Alls voru börnin 20, 14 Norðmenn, 2 Svíar, 1 Finni, 2 Íslendingar og 1 Dani.
Öll höfðu börnin með sér fylgdarmann, en Íslendingarnir og Finninn höfðu með sér báða
foreldra sína og Finninn jafnframt þrjú systkin.

Flestir Norðmannanna komu saman í rútu frá Noregi. Ekki var nema eitt barn úr hverju
fylki og þar mynduðust fyrstu kynnin á milli Norðmannanna og voru þau fljót að kynnast
og taka púlsinn hvort á öðru, en segja má að eftir fyrsta daginn í búðunum voru
samskiptin komin í nokkuð gott horf á milli barnanna. Sum voru aðeins lengur að hafa
sig í frammi á meðan önnur voru fljót til, fljót til að stýra og stjórna. En þetta er nú bara
eins og alls staðar þar sem fólk kemur saman og hefur ekki þekkst áður.
Ekki voru tungumálaerfiðleikar að neinu marki. Ef börnin gátu ekki gert sig skiljanleg
með orðum notuðu þau svipbrigði og hreyfingar eða brugðu fyrir sig þeirri kunnáttu sem
þau höfðu í ensku eða fengu hjálp frá öðrum þátttakendum og allt gekk þetta vel.
Við bjuggum í 4 raðhúsum sem hvert um sig hafði 6 herbergi auk salernis og
þvottaaðstöðu, en matsalurinn og svæðið þar fyrir utan með borðum og stólum ásamt
leiksvæði fyrir börnin voru aðalsamverustaðirnir.

Kokkurinn Trond var með í för, og honum til aðstoðar var „altmuligman” hann Knut og
stelpurnar Sara og Helene sem áttu óskipta athygli barnanna allan tímann.
Maturinn var frábær, fjölbreytt morgunverðarhlaðborð og amk. tveggja rétta
kvöldmáltíð. Hefði hvaða 4 stjörnu hótel sem var getað verið stolt af þessum mat.
Knut, sem er lærður geðhjúkrunarfræðingur og er sjálfur með AD/HD og á son með
AD/HD, fræddi börn og fullorðna um vandann. Var okkur skipt þannig að börnin voru
sér og fullorðna fólkið sér. Samdóma álit allra var að þetta hefði verið mjög fróðlegt og
gagnlegt og skemmtilegt og hefðu þeir fullorðnu viljað fá fleiri skipulagða tíma þar sem
málefnið var rætt.

Í lok hvers dags var kvöldvaka þar sem hvert land stýrði einni vöku. Börnin voru stærstu
þátttakendurnir og voru ófeimin við að skemmta sér og öðrum með söng, leikjum og
látbragði. Auk þess voru kynningar á landi og þjóð og nokkrir buðu upp á eitthvað til að
smakka á, sem var sérkenni þess lands sem var með kvöldvökuna í það skiptið.
Ekki má gleyma einu, alla vikuna voru ýmsar meiningar á milli Íslendinga og Norðmanna
um hvort landið „eigi” þorskinn. Sem betur fer kom ekki til alvarlegra árekstra, en óhætt
er að segja að þessar umræður hafi verið hin mesta skemmtun fyrir okkur fullorðna
fólkið allavega.

Síðasta kvöldið var frábrugðið hinum, en þá var haldið diskótek undir styrkri stjórn þeirra
Söru og Helenar. Að sjálfsögðu var fullorðnum bannaður aðgangur og það sem við
fengum að gera var að skúra og skrúbba eldhúsið. Það fannst krökkunum ágætt á okkur á
meðan þau gleymdu sér í dansi og skemmtan undir háværri tónlistinni.
Veðrið var frekar rysjótt og hvasst og nokkuð kalt en það spillti ekki fyrir ánægjunni sem
skein út úr hverju andliti í heila viku. Farið var með hópinn í heimsókn í Legoland,
Tívolí í Álaborg, í stóra sundhöll með rennibrautum og ýmsum öðrum leiktækjum og
ýmsar aðrar ferðir.

Á milli barnanna náðist nokkuð góð samstaða en auðvitað slettist upp á vinskapinn eins
og gengur og gerist og allir þekkja sem eiga stórar fjölskyldur þar sem hagsmunir rekast
á. En ekkert alvarlegt kom upp sem ekki var hægt að leysa á farsælan hátt.
Þegar á heildina er litið má segja að allir hafi skemmt sér vel og átt saman meiriháttar
góða viku í útlandinu, þar sem börn og fullorðnir frá Norðurlöndum öllum fengu að
kynnast og skiptast á skoðunum. Þetta var mjög fróðlegt og skemmtilegt og gott að koma
saman með barnahópinn þar sem allir þekktu til vandans og allir gátu því verið
afslappaðir og í öruggu umhverfi. Börnin náðu að tengjast vel og eru sum hver komin í
tölvupóstsamband sem þau rækta af alúð.

Að lokum langar mig til að þakka FFMB og Velferðarstjóði íslenskra barna fyrir veittan
stuðning, en þau styrktu íslensku fjölskyldurnar rausnarlega til fararinnar.
Vonandi verður framhald á þessu frábæra úrræði og e.t.v. eigum eftir að sjá sumarbúðir á
Íslandi sérsniðar að þörfum barnahópsins okkar.

Steinunn Þorsteinsdóttir foreldri