Nemendur með félagslega örðugleika / ofvirkni / misþroska vandamál / námsörðugleika í skóla frá sjónarhóli foreldra

Eftirfarandi grein er í raun fyrirlestur fyrir kennara og skólafólk. Hann var fluttur á

nokkrum námskeiðum í Reykjavík og úti á landi og var þar að auki uppistaðan í
fyrirlestrahaldi í Færeyjum haustið 1996, þegar höfundur var fenginn til að kynna ADHD
/ DAMP fyrir skólafólki þar í tengslum við fund og námskeið á vegum norrænu
samstarfsnefndarinnar um misþroska þar.

Greinin ætti að gagnast foreldrum í viðræðum við leik- og grunnskólakennara.
Nemendur með félagslega örðugleika / ofvirkni / misþroska vandamál / námsörðugleika í
skóla frá sjónarhóli foreldra

Ég vil að það komi hér strax fram, að þótt ég ræði hér um sjónarmið foreldra, þá starfaði
ég sem kennari í nær tvo áratugi og vitaskuld hefur það mikil áhrif á hugmyndir mínar og
afstöðu. Ég hef verið í stjórn Foreldrafélags misþroska barna frá stofnun þess árið 1988,
tekið þátt í norrænu samráði um misþroska og ég hef mjög kynnt mér það sem er í
umræðunni um málefnið á Norðurlöndunum og nokkuð í Bandaríkjunum. Greinin byggist
því að miklu leyti á reynslu minni, sem fengin er af viðtölum og umræðum við bæði
foreldra og fagfólk um vandamál misþroska barna.

En nú er best að víkja að sjálfu umræðuefninu.

Athyglisbrestur - misþroski - ofvirkni

Einstaklingur, sem á í það miklum erfiðleikum í daglegri umgengni sinni við aðra, að
óeðlilega miklir árekstrar verða - og einstaklingur, sem að einhverju leyti einangrast
félagslega án þess að vilja það sjálfur, á við félagslega örðugleika að stríða. Undir þessa
skilgreiningu fellur svo stór hópur misþroska og/eða ofvirkra barna.
Þetta er víð skilgreining hugtaksins. Hér eru þó grunnskólabörn til umræðu og því mun
ég halda mig við þann aldurshóp. Þó er útilokað að ræða félagslega örðugleika
grunnskólabarna án þess að líta til þess sem á undan er gengið í lífi þeirra.

Upphaf skólagöngu

Þegar barn hefur skólagöngu sína, er félagsleg reynsla þess yfirleitt fengin á heimilinu
annars vegar og/eða á leikskólum hins vegar. Á þessum stöðum hefur ákveðin
samskiptageta þróast með barninu, það hefur tileinkað sér kunnáttu en jafnframt öðlast
töluverða tilfinningu fyrir sjálfu sér og félagslegri stöðu sinni. Ef barnið hefur skólagöngu
sína fullt sjálfstrausts, eru allar líkur á að það verði fljótt að finna sér stað í hópnum og
það ekki of neðarlega í goggunarröðinni. Margir bekkjarfélaganna eru leikfélagar úr
nágrenninu eða af leikskólanum og í raun heldur hér áfram þróun þess félagslega
mynsturs sem mótaðist á leikskólanum.
Börn, sem ekki hafa verið á leikskóla, koma að heiman með sínar forsendur og að öllu
jöfnu finna þau sér líka stað innan hópsins.
Flest börn hafa líka öðlast þá félagslegu þjálfun, sem byggir á því að skilja ekki aðeins
það sem sagt er, heldur líka átta sig á skilaboðunum sem felast í því hvernig það er sagt,
skilja það sem „liggur í augum uppi“ og að átta sig á „sjálfsögðum“ og óyrtum
leikreglum.

Sumir standa verr að vígi en aðrir

Ég sagði - flest börn - en því miður er nokkur hluti hvers árgangs sem af ýmsum
ástæðum ekki nær þessari færni. Þessi vandamál geta verið á sviði of- eða vanvirkni,
barnið getur verið mjög eirðarlaust og átt í erfiðleikum með að einbeita sér, það getur átt í
erfiðleikum með bæði fín- og grófhreyfingar eða strítt við einhverja tegund dyslexíu.
Námsörðugleikar af einhverju tagi eru mjög oft fylgifiskur vandans og að jafnaði má
segja að þessi börn nái ekki að læra allt það sem þau gætu lært með besta fáanlega
stuðningi. Mörg barnanna eru lengi að tileinka sér það sem öðrum finnst sjálfsagt að allir
„eigi að kunna“, ekki síst hinum óskrifuðu reglum.
Suma þessara ofannefndu þátta vilja sérfræðingarnir kalla misþroska einkenni, skerta
samskiptagetu eða einhverju öðru nafni. En merkimiðinn er ekki aðalatriðið, heldur
barnið - einstaklingurinn - sem kennarar taka við. Og þegar ég segi kennarar, á ég við alla
kennara. Þau börn, sem hér um ræðir, eru allt að fimm af hundraði hvers árgangs, að
jafnaði eitt í hverjum bekk 20 barna bekk. Ef skólamenn ekki þykjast kannast við
einkennin, þá eru þeir annað hvort að reyna að blekkja sjálfa sig eða aðra, nema hvoru
tveggja sé. Þessi hópur er nefnilega stærsti einstaki „vandamála“hópurinn innan
grunnskólans.

Þessi börn hefja oft skólagöngu sína í kjölfar mikilla ósigra í lífinu. Þau eiga kannski fáa
leikfélaga, lenda í stöðugum útistöðum við hina krakkana og jafnvel fullorðið fólk,
foreldrarnir eða að minnsta kosti faðirinn skilur ekki hvaða rugl er á krakkanum og
nágrönnunum er uppsigað við barnið.

Það hlakkar til að byrja í skólanum en er auðvitað líka mjög kvíðið, því það veit af
reynslunni að það muni lenda í erfiðleikum. Sjálfstraustið er mjög víkjandi og þessar
aðstæður eru í raun mjög mótandi um alla skólagöngu barnsins. Í 6 ára bekkjum eru að
jafnaði 15 til 25 börn, að minnsta kosti á þéttbýlissvæðunum, og tími til persónulegs
sambands hvers og eins við hina þjóðsagnakenndu persónu kennarann er í lágmarki.
Vanmætti forráðamanna

Fljótlega fara samskipti þessa barns við kennarann um of að einkennast af neikvæðum
þáttum og þetta eykur enn frekar þá tilfinningu barnsins, að það sé ekki nógu gott og
duglegt. Í kennslustundum er athyglin reikul og einbeitingarskorturinn verður æ
greinilegri eftir því sem kröfurnar aukast. Barnið einangrast oft í kennslustofunni og
nýtur því ekki nægilega þeirrar ótrúlega miklu aðstoðar sem bekkjarfélagarnir geta veitt í
samvinnu um námið. Barnið fer að kvíða frímínútunum, því það er útundan í leikjum og
verður stundum jafnvel fyrir áreitni og/eða einelti. Samt situr það oft á sér eins og það
getur í skólanum vegna þess að það veit að til þess er ætlast. Þeim mun meiri verður
sprengingin þegar heim er komið og barnið þarf að varpa af sér þessu oki skóladagsins.
Foreldrarnir sitja svo uppi með alla súpuna og vita sem er, að þeir geta lítil sem engin
áhrif haft á skóladag barnsins síns. Auk þess hafa þeir nú þegar nóg með að aðstoða
barnið við heimaverkefnin, sem oft eru miklu tímafrekari og erfiðari viðureignar hjá
þessum börnum en öðrum. Foreldrarnir hafa einnig oft miklu meira af þessu barni en
öðrum að segja, því aðrir krakkar koma sjaldan eða aldrei í heimsókn og barnið fer helst
ekki ótilneytt út í leiki. Álagið getur þannig orðið ótrúlega mikið. Þegar foreldrarnir mæta
svo jafnvel litlum sem engum skilningi hjá skólanum og finnst einna helst að gefið sé í
skyn að ástandið sé lélegu uppeldi að kenna, er hér kominn vítahringur, sem erfitt er að
rjúfa.
Þannig heldur þetta svo áfram, með miklum eða litlum utanaðkomandi stuðningi.

Samskiptin við skólann

Samskipti heimilisins við skólann eru óhemju mikilvæg í þessum málum, foreldrar verða
að vera duglegir að láta kennarann vita af því sem máli getur skipt og kennarinn verður
að hafa samband við heimilið þegar eitthvað kemur upp á. Það er reyndar líka
nauðsynlegt fyrir foreldrana að fá að vita af því, þegar vel gengur, kennarar mega ekki
gleyma að láta vita af því jákvæða. Almennt séð ættu kennarar að vera duglegir að hafa
samband við heimili þessara barna, að minnsta kosti ef hægt er að ræða um þessa hluti
við foreldrana.

Það þekkist því miður að foreldrar hafni vandanum algerlega og kenni bara skólanum
um allt. Margir þekkja foreldrið sem mætir með ásökunartón í viðtöl og segir: „Hvers
vegna er hann svona slakur í ár? Hann var með svo ágætar einkunnir fyrir tveim árum?“
Kennarinn situr þá þarna með vandræðaleg svör og stamar einhverju upp úr sér um
auknar kröfur í nýjum bekk. Hann er ekki með gögnin með sér sem sýna að fullyrðingar
um góðan námsárangur fyrir tveim árum voru bara alls ekki réttar. Ef málin eru hins
vegar rædd jafnóðum og ekki beðið eftir stóru sprengingunni, þá er útilokað fyrir
málsaðila annað en að horfast í augu við vandann, að minnsta kosti að hluta til.

Breytingar með tímanum

Eins og við vitum, eru ýmsir skólar aðeins ætlaðir börnum upp að vissum aldri, auk þess
sem alltaf verða töluverðar breytingar í bekkjum með árunum. Sumir flytja burt eða
færast úr einni bekkjardeild í aðra og nýir nemendur koma í staðinn. Þá kemur upp sú
staða, að þótt foreldrar hafi verið duglegir við að útskýra fyrir kennurum bekkjarins stöðu
barnsins, og þótt bekkurinn beri um sinn skynbragð á vandann og sýni honum þolinmæði,
þá fækkar þeim nemendum sem hafa lært að þekkja og þola hina félagslegu örðugleika.
Oft gleymist líka að gera nýjum kennurum grein fyrir stöðunni og það getur strax í
upphafi leitt til stórra vandamála, sem bæði nemandinn og kennarinn eiga í miklum
erfiðleikum með að vinna sig út úr á viðunandi hátt.
Þegar boðleiðir bregðast þannig á milli umsjónarkennara og annarra kennara, getur það
leitt til mikillar niðurlægingar nemandans með félagslegu eða námslegu örðugleikana,
svo mikillar niðurlægingar að nemandinn á sér tæpast viðreisnar von í augum hópsins.
Ekki bætir úr skák, þegar fagkennarar í tungumálum og öðrum erfiðum greinum eru að
taka við. Þá getur alvarlegur árekstur í upphafi haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar fyrir
samskiptin og skaðað það traust, sem svo nauðsynlegt er. Þarna má enginn kennari, sem
veit af vandanum, sofa á verðinum og foreldrarnir verða stöðugt að gæta þess að halda
áfram að gefa upplýsingar.

Við þetta bætist að það verður stöðugt erfiðara og viðkvæmara að útskýra og sætta sig
við ýmis persónuleg vandamál af þessum toga, þegar unglingsárin halda innreið sína.
Unglingurinn á mjög erfitt með að sætta sig við að vera öðruvísi á þeim árum, þegar
samsömunin við félagahópinn er hvað nauðsynlegust.

Bekknum boðið heim

Eitt mikilvægasta félagslega sviðið í augum margra ungra skólabarna eru afmælin.
Mikið er pælt í hverjum eigi að bjóða ef sú regla gildir ekki í bekknum að öllum sé boðið.
Þarna getur reynt mjög á áhrif kennarans því það getur verið mjög sársaukafull reynsla að
lenda í því hvað eftir annað að vera jafnvel sá eini sem ekki er boðið í afmæli. Það má
benda kennurum á það, ef þeir komast á snoðir um þetta og geta ekkert gert í málinu til
að fá misþroska og/eða ofvirka barnið með, að það getur verið gott ráð að hringja í
foreldrana og láta vita að barninu sé ekki boðið í veislu í bekknum. Foreldrarnir geta þá
gripið til sinna ráða og til dæmis farið með barnið í bíó eða gert eitthvað annað
eftirminnilegt til þess að draga úr sársaukanum. Skert skammtímaminni er þessum
börnum einnig stundum blessun að því leyti að loforð um eitthvað skemmtilegt daginn
sem allir hinir eru í afmælinu, getur algerlega þurrkað út úr huga þess
höfnunartilfinninguna. Foreldrarnir fá hins vegar sjaldnast að vita um veislur sem barninu
þeirra er ekki boðið í og því munu skilaboðin frá kennaranum verða kærkomin á mörgum
heimilum.

Þráhyggja - árátta

Mörg misþroska og/eða ofvirk börn eiga í töluverðum erfiðleikum vegna þráhyggju og
áráttu af ýmsu tagi. Oft er eins og armurinn á plötuspilara meðvitundarinnar sitji fastur í
sama sporinu og einhver ein hugsun eða hugmynd heltakur barnið. Ef þetta virðist vera
að gerast, er nauðsynlegt að leita sem fyrst til sálfræðings skólans til að vinna á þessum
vanda.

Leikfimi og frímínútur

Íþróttatímarnir og atburðir þeim tengdir eru þessum börnum oft mjög erfiðir og
búningsherbergi og sturtur geta verið sem versti pyntingaklefi. Eðlilegir pústrar og
„gamnislagsmál“ eru börnum með félagslega námsörðugleika ekkert eðlilegir. Þau hafa
ekki fengið þá félagslegu þjálfun, sem nauðsynleg er til að kunna að skilja á milli ágengra
leikja og áreitni og hættir því auðveldlega til að túlka allt sem áreitni. Einmitt þessar
aðstæður geta svo auðveldlega leitt til áreitni eða einelti og gera það oft. Börn eru ekkert
öðruvísi en annað fólk að því leyti að þau hafa gaman af því að fá viðbrögð við verkum
sínum og barn með lélega sjálfsstjórn getur gert allt vitlaust við aðstæður, þar sem öðrum
myndi bara takast að eyða málinu. Og hinir krakkarnir hafa svo bara gaman af öllu
saman. Ef snertifælni er líka til staðar, bætir hún heldur ekki úr skák. Svo kemur barnið
heim og segir sínar farir ekki sléttar. Foreldrarnir reyna þá stundum að fara í málið og
hafa samband við skólann og svona kvörtun, sem kennarinn jafnvel fær ekki skilið, getur
valdið mjög auknu álagi á samskipti heimilisins og skólans.
Sjálfir íþróttatímarnir eru oft erfiðir og við þekkjum það foreldrarnir, þá sjaldan barnið
kemur heim með gleðibros á vör og segir: „Það var gefið á mig í dag“ eða „Ég var ekki
valinn síðastur í lið“. Frá sjónarhóli heimilisins er það einnig stórt vandamál, þegar
íþróttatímarnir verða of einhæfir. Flest börn standa sig sæmilega í að minnsta kosti
einhverju einu og þetta á auðvitað oftast líka við um íþróttirnar. Boltaleikir eiga til dæmis
mjög illa við börn með vandamál á sviði bæði gróf- og fínhreyfinga og of mikil og einhæf
áhersla á þá getur algerlega drepið niður þann áhuga barnsins á hreyfingu, sem þó er til
staðar.

Þess ber þó að geta að margir íþróttakennarar eru orðnir mjög vel vakandi fyrir þessum
börnum, víða hafa fengist aukatímar fyrir þau í samráði við sérkennarana og í mörgum
tilfellum skilar þetta starf miklum árangri, þótt erfitt sé að mæla það, frekar en önnur
uppeldisstörf, með einhverri algildri gæðamatsmælistiku.

Verklegar greinar

Ekki má gleyma kennurum greina á borð við matreiðslu, smíðar, teikningu og annað.
Vandinn með fín- og grófhreyfingar kemur annars oft mjög alvarlega fram í þessum
greinum og þá þarf viðkomandi kennari að vita af því. Hins vegar eru sum barnanna með
sínar sterku hliðar einmitt í einhverjum þessara greina og þá er mjög mikilvægt að allir
hlutaðeigandi viti af því þannig að hægt sé að hrósa. Hrósið er svo vitaskuld lykilatriði í
námssamskiptum við þessi börn og oft þarf tilefnið ekki að vera mikið né hrósið mjög
hástemmt svo það hafi fyrirtaksáhrif.

Leyfin

Jólafrí og óvæntir viðburðir í skólanum geta oft verið mikið vandamál á heimilum. Fastir
liðir skólastarfsins eru oft brotnir upp um jól og kennarinn segir bekknum iðulega frá
þessu yfir hópinn og svo með tilkynningu heim. Nú er það svo að börn með skerta athygli
eru ekki bestu bréfberar heims og þar með er heimilið oft búið að missa af möguleikanum
til þess að aðstoða barnið við að undirbúa sig fyrir þessa röskun á daglegri rútínu. Svo er
líka allt á öðrum endanum heima fyrir við alls konar jólaundirbúning, allir eru önnum
kafnir og stressaðir og niðurstaðan er að barnið missir gersamlega yfirsýn yfir það sem er
að gerast. Foreldrum margra ofvirka barna til dæmis ber saman um það að við þessar
aðstæður verði oft allra stærstu árekstar ársins og að jólaskapið snúist þá gjarnan upp í
algjöra andhverfu sína.

Systkinin

Systkini fatlaðra barna er hópur sem farið er að veita stöðugt meiri eftirtekt. Ekki má
heldur gleyma systkinum þessara barna. Þeirra tilfinningar geta verið mjög blendar
gagnvart ofvirka og/eða misþroska barninu. Í venjulegum fjölskyldum, ef þær þá eru til,
skiptast fjölskyldumeðlimirnir á um að vera í miðpunkti athyglinnar, en þegar barn er til
dæmis mjög ofvirkt, getur verið erfitt að horfast í augu við það fyrir systkinið að fá aldrei
að njóta óskertrar athygli foreldranna. Það getur eftir atvikum verið gagnlegt að benda
foreldrum á þessa staðreynd, þegar tækifæri gefst til, því margir hafa aldrei hugleitt þessa
hlið málsins.

Vinsældaleitin

Þrátt fyrir að ofvirk og/eða misþroska börn séu utanveltu í krakkahópnum, hafa þau, ekki
síður en önnur börn, mikla þörf fyrir félagsskap og viðurkenningu hópsins. Þau grípa því
til ýmissa ráða til þess að bæta sér upp einangrunina. Ein algengasta leiðin til þessa er að
ganga inn í trúðshlutverkið og að vilja hvorki né geta skilið að hinir krakkarnir eru ekki
að hlæja með manni, heldur að manni. Þessi hegðun á auðvitað rætur að rekja til
öryggisleysis og lélegrar sjálfsímyndar en afleiðingarnar geta orðið miklu alvarlegri en
einhvert tímabundið ástand með fíflalátum. Barnið er ómeðvitað að koma þeim
skilaboðum áleiðis, að auðvelt sé að plata það og oft leiðir þetta til ýmissa ókytta, hnupls
og síðar jafnvel stærri og alvarlegri félagslegra vandamála. Þegar kennarar sjá að þessi
þróun sé í þann veginn að hefjast, verða þeir umsvifalaust að grípa til sinna ráða í samráði
við sálfræðing skólans og heimilið.

Meðferðarkerfið

Okkur berast stöðugt upplýsingar foreldra um allt land, þar sem fram koma upplýsingar
um ákaflega tilviljanakennd málstök fólks í meðferðarkerfinu. Sumir virðast taka það upp
hjá sér að afgreiða öll misþroska og/eða ofvirk börn sem bara illa uppalda óþekktarorma.
Kannski er það vegna þess að þeir sjá það í hendi sér að þessi hópur geti orðið
skólakerfinu dýr, kannski byggist þetta bara á vanþekkingu eða fordómum. Vanþekkingu
og fordóma verður að kveða niður með fræðslu og hvað kostnaðinn varðar þá er hann
aðeins brotabrot af því sem sami einstaklingur gæti síðar kostað samfélagið sem
afbrotamaður, fíkill eða því um líkt.

Hvað er til ráða?

Á allri þessari upptalningu má sjá, að hlutverk foreldra ofvirkra og/eða misþroska barna
er langt frá því að vera auðvelt. Ástandið getur haft í för með sér endalausar áhyggjur og
jafnvel þunglyndi og uppgjöf. Vissulega er það ekki á ábyrgð skólans en hér verður að
koma fram, að skilningsríkur kennari, sem gefur sér tíma til þess að fara yfir málin með
foreldrum, getur unnið kraftaverk. Vissulega er hvert foreldri sérfræðingur í sínu eigin
barni - eða á að vera það, en oft hafa foreldrarnir ekki mikla reynslu af uppeldisfræðum
og skortir þar af leiðandi þá yfirsýn, sem kennarinn - fagmaðurinn - hefur.
En hvað getur kennarinn þá gert? Ég vil hér taka fram að þessi kafli er að nokkru leyti
fenginn úr nýlegri grein eftir Edvard M. Hallowell og John J. Ratley, bandaríska
barnalækna sem lengi hafa unnið með ADD-börn.

Hann þarf í fyrsta lagi að setja sig inn í þær upplýsingar, sem barninu fylgja frá öðrum
stöðum, t.d. forskóla, lækni, iðjuþjálfun eða öðrum aðilum. Víða eru forskólarnir eða
leikskólarnir orðnir mjög duglegir við að senda upplýsingar um barnið til grunnskólanna
en þar vill því miður oft brenna við að upplýsingarnar endi sem „trúnaðarmál“ ofan í
skúffum skólastjórnenda eða hjúkrunarfræðings. Það er skelfilegt, þegar skólar, sem jú
byggja starfsemi sína á því að miðla þekkingu, stinga á þennan hátt undir stól þeirri
þekkingu sem kannski er nauðsynlegust til þess að geta komið á bestu námsaðstæðum,
upplýsingunum um einstakling á þeirra vegum, sem þarfnast aðstoðar. Kannski er
vandinn misþroski, kannski ekki, en kennarinn á fullan rétt á að kynna sér málið og
spyrja þeirra spurninga sem nauðsynlegar eru.

Greining og forsaga

Kennarar halda því á stundum fram að þeir vilji ekki heyra einhverja fordóma frá fyrri
kennurum varðandi nemendur, heldur vilji þeir sjálfir kynnast þeim á eigin forsendum og
án fyrir fram ákveðinna skoðanna. Þetta er í sjálfu sér göfugt markmið en vandinn er bara
sá að með þessu getur kennarinn verið að hafna áralöngu greiningar- og þjálfunarstarfi
með viðkomandi barn og þar með kippir kennarinn bæði sjálfum sér og skjólstæðingi
sínum langt aftur á bak. Það er engin leið að kennarinn geti á skömmum tíma sjálfur aflað
sér þeirrar þekkingar sem sérfræðikunnáttan býr yfir og þar með er verið að hafna mjög
mikilvægu, kannski ómetanlegu hjálpartæki í kennslunni.
Stundum vilja foreldrar koma á laggirnar fundi kennara og utanaðkomandi fagfólks, sem
unnið hefur við börnin og þá þarf skólinn að vera viðbúinn. En auðvitað hafa kennarar
líka fullan rétt á því að verða sér sjálfir úti um þá þekkingu, sem til er á vandkvæðum
þess barns, sem þeir eiga að starfa með í allt að tíu skólaár. Aðalatriðið er að boðskiptin á
milli heimilis, skóla og annarra meðferðaraðila finni sér farveg, að þau gangi í báðar áttir
og að þau séu reglubundin. Kennarar mega ekki láta ákvæði um þagnarskyldu villa sér
sýn, þeir verða að kynna sér eðli vandans og þeir verða að bæta upplýsingaflæðið sín á
milli. Þagnarskyldan bannar mönnum einungis að ræða mál skjólstæðinga við
óviðkomandi en auðvitað hljóta þeir að mega ræða málin við annað fagfólk og
samstarfsfólk. Og er ekki kominn tími til að menn geri sér almennt grein fyrir því að
þessir örðugleikar eru börnunum áskapaðir? Þau kusu sér ekki þetta hlutverk og það þarf
að aðstoða þau til þess að draga úr afleiðingum vandans fyrir þau sjálf, nánasta umhverfið
og að lokum þjóðfélagið allt.

Maður á mann - staða kennarans

Eitt af því sem miklu máli skiptir, er að þessi börn fái, eins oft og því verður við komið,
aðstoð og stuðning sem byggist á kerfinu maður á mann. Það er sama hvort sérkennarinn
kemur inn í bekkinn til að aðstoða ákveðna einstaklinga, hvort hann sér um bekkinn á
meðan bekkjarkennarinn sinnir þeim eða hvort sérkennarinn tekur einstaklingana út til
kennslu, þetta skilar allt árangri. Það að finna að einhver gefur sér tíma til þess að sinna
bara þessu eina barni og engum öðrum, getur skipt einmitt það barn ótrúlega miklu máli.
Ég ber stundum bekkjarmyndina af bekk dóttur minnar úti í Danmörku, þar sem
kennari og uppeldisfulltrúi voru með 14 barna hóp, saman við bekkjarmynd misþroska
sonar míns í skóla í Reykjavík, þar sem tveir kennarar voru með 46 barna hóp. Í hvorum
hópnum skyldi hafa verið meiri þörf fyrir utanaðkomandi sérkennslu? Við hverju getum
við eiginlega búist við þvílíkar aðstæður?

Stundum má rekja örðugleika barna til truflana í annað hvort heyrn eða sjón. Líkamlegi
vandinn getur jafnvel verið það lítill að hann mælist nær ekki en þegar við bætast
truflanir í miðtaugakerfinu, getur hann magnast mjög upp. Kennarar verða því að vera
mjög vakandi fyrir skyntruflunum af þessu tagi.
Kennarar verða að koma sér upp eigin stuðningskerfi með aðstoð sérkennara og
annarra. Það er mjög mikilvægt að leita sér aðstoðar áður en vandinn vex manni yfir
höfuð. Þá er líka oft hlaupin þvílík kergja í málin að viðunandi lausn er ekki til.

Nokkur hollráð

Oft er gagnlegt að spjalla hreinlega við barnið sjálft um hvað það vill gera. Börn bera oft
gott skynbragð á stöðu sína og veikar og sterkar hliðar og hér eins og annars staðar er
betra að hafa fólk með sér en á móti.

Fastmótað skipulag er nauðsyn þegar unnið er með misþroska börn. Gott er að hafa fáar
fastar reglur og skýrar, það auðveldar öllum starfið.

Nauðsynlegt er að setja takmörk. Þær gera barninu lífið léttara og auðvelda því daglegt
starf. Kennarinn þarf að vera sjálfum sér samkvæmur, ákveðinn og óhikandi og ekki
endalaust að láta draga sig inn í rökræður um hvers vegna.

Engin ástæða er að óttast að endurtaka fyrirmæli og verkefni. Það getur hjálpað
mörgum börnum með einbeitingarerfiðleika. Einnig er gagnlegt að brjóta stærri verkefni
upp í minni einingar, þær auðvelda yfirsýn.

Þessi börn eru eins og önnur börn í eðli sínu mjög forvitin og hafa gaman af nýjum og
óvæntum uppákomum. Sjálfsagt er að reyna þær öðru hverju.

Taka þarf tillit til þess að börnin nota oft mjög mikla orku í skólastarfið og koma
örþreytt heim. Of mikil heimavinna getur því alveg gert út af við þann námsáhuga sem
enn er til staðar. Því er nauðsynlegt að hafa heimavinnuna meiri af gæðum fremur en
vöxtum. Börnin geta einnig haft mikil not af aðstoð við skipulag á frítímanum.

Mikilvægt er að öll skilaboð til heimilisins, sem litli bréfberinn er sendur með heim, séu
á skipulegu formi og að helst sé einhver tvítrygging fyrir því að bréfin berist
foreldrunum. Þetta er einkum mikilvægt, þegar um er að ræða hvers konar uppbrot í
skólastarfinu. Ef foreldrarnir vita ekki ekki af því sem til stendur, geta þeir ekki undirbúið
barnið og þá stendur það enn verr að vígi en annars við að takast á við verkefnin og nóg
er nú samt.

Oft eiga börn í vandræðum með staðsetningar og það að rata. Þá er gott að koma upp
einhvers konar kerfi í skólanum til að auðvelda þeim að finna þá staði sem þau eiga að
sækja. Þetta má gera á ýmsan hátt með lita- og táknamerkingum og ég efa ekki að margar
snjallar lausnir á þessu eru nú þegar í gangi í hinum ýmsu skólum landsins.

Misþroska og/eða ofvirk börn skrifa oft skelfilegt hrafnaspark, sem bæði skemmir fyrir
þeim í skrift og reikningi. Það ætti enginn að óttast að láta börnin vinna á tölvur því
ekkert jafnast á við það að vinna verkefni og sjá það velta út úr prentara snyrtilegt og
læsilegt. Reikningsvillur eru oft hreinlega því að kenna að skrifaðir talnadálkar standast
ekki á og hér hjálpar tölvan.

Gott og skýrt skipulag á framgangi vinnunnar og skólastofunni er mjög mikilvægt. Allir
kennarar vita, hve freistandi það er að hressa upp á grámyglulegar stofur með
litskrúðugum myndum og veggspjöldum ýmiss konar, en ef barnið á við
einbeitingarörðugleika að stríða, geta þau gert mikið ógagn. Þetta þarf þó auðvitað að
skoða í hverju og einu tilfelli.

Þegar kemur að tómstundastarfi er nauðsynlegt að benda foreldrum á og að aðstoða þá
við að finna barninu eitthvert tómstundastarf, og svo að aðstoða barnið við að komast af
stað. Tómstundaleiðbeinendur, jafnvel á vegum skólanna, eru oft með litla reynslu í
uppeldismálum en kannski fyrst og fremst brennandi áhugafólk um greinina. Þolið er þá
oft lítið gagnvart lélegum þátttakanda sem þó vill reyna og það getur reynst mjög
afdrifaríkt. Nauðsynlegt er að leiðbeinandinn fái ekki bara að vita af vandamálinu heldur
að þess sé gætt að hann fái einhverjar upplýsingar um eðli vandans, til dæmis bæklinga
eða aðra fræðslu.

Sjálfstraust barnsins er þó lykilatriðið, þegar öllu er á botninn hvolft. Því fleiri verkefni
sem það fær leyst, þeim mun betur líður því og því betur sem því líður, þeim mun meiri
líkindi eru á að það nái frekari árangri í starfinu.

Að lokum

Að lokum vil ég leggja áherslu á þetta: Ýmsir hafa áhyggjur af því að það sé óréttlátt að
veita sumum börnum miklu meiri aukastuðning og sérkennslu en öðrum. En þá verður að
hafa í huga að réttlæti felst ekki alltaf í algeru jafnrétti. Jafnrétti til náms getur þýtt, að
vísvitandi þurfi að mismuna nemendum með það fyrir augum að allir nemendur hafi
tækifæri til þess að ná árangri.

Matthías Kristiansen