ADHD er snilld!

Frétttablaðið 8. nóvember 2018.

Hákon Helgi Leifsson, snillingur í stjórn ADHD samtakanna.

Við erum öll svo vön því að heyra það neikvæða um ADHD. Fréttir litaðar um meinsemdir svífa inn í vit hins almenna borgara og hefur áhrif til hins verra. En hvað um hið góða, fallega, fyndna og hið ótrúlega skemmtilega sem alltaf er áberandi í hug okkar, gjörðum og hjörtum?

Til þess að komast nær fullyrðingu titilsins verð ég að snerta á hinu samtímis. En það er eiginlega ADHD í hnotskurn. ADHD er heilkenni jaðranna, getur verið eins svart og desembernótt á miðhálendinu eða hvítt eins og nýfallinn snjór á aðfangadagsmorgni.

Hið svarta
Innbyggð í okkur öll er frestunaráráttan ægilega. Andhverfa hins áhugaverða er okkur hrein vítiskvöl. Að fá ADHD­snilling til þess að útfæra hið ómerkilega eða venjulegt, reynist mörgum okkar um megn. Sem dæmi þá var á mínu heimili í æsku útdeilt til skiptis uppvaski eftir kvöldmat. Ef þú ekki sinntir verkefninu samdægurs bættist næsti dagur leirtaus við. Eftir nokkra daga var stærðargráðan „haugur uppvasks“ eingöngu fjarlæg og draumkennd minning. Himalajafjallagarður leirtausins blákaldur raunveruleikinn. Í minningunni storkuðu staflarnir náttúrulögmálum á meðan ég grét klifin með viskustykki og bursta í hendi. Fjallgöngumenn Everest höfðu þó Serpa sér til aðstoðar, ekki ég! Þetta einkennir okkur mörg og gerir erfitt fyrir. En getur stundum verið til góðs. Hæfni að vinna vel undir álagi er oft kostur og til að gefa ykkur gott dæmi um það þá eru þessi orð rituð á síðasta augnablikinu!

Hið hvíta
Athyglina fær það sem heillar okkur, réttu einstakling með ADHD glætu hins áhugaverða og hann skapar sól á heiðríkum sumardegi. Það er erfitt að útskýra hversu magnað hið áhugaverða er fyrir okkur með orðum. En myndlíking gæti náð marki. Hver var uppáhaldslitur þinn sem barn, manst þú hvernig þú sást hann þá? Þegar uppáhaldsliturinn var meira en bara litur. Kannski meira tilfinning en annað. Blár var ekki bara litakóði úr málningarbækling byggingarvöruverslunar í minni æsku, heldur eitthvað sem stóð útúr og skildi að svarthvítan veruleikann. Þegar athyglin okkar festist í einhverju spennandi viðfangsefni, hvað sem það kann að vera, stöðvar okkur ekkert. Við verðum óstöðvandi í áhuga, dugnaði, forvitni og þekkingarþorsta. Vandinn sem við flest stöndum fyrir er að hitta á hið rétta áhugamál. Það er erfitt að stjórna hvað það er sem kitlar áhugann en það skiptir öllu máli að valið sé rétt. Þegar vel heppnast gerast kraftaverk. Þá verður til besti listamaðurinn, kennarinn, frumkvöðullinn, vísindamaðurinn. Með öðrum orðum þá nýtast styrkir okkar samfélaginu til fulls.

Hið góða og fallega
Stórt hlutfall okkar skortir hæfileikann að smella inn í ferkant hins víðtekna. Við eigum oft erfitt með að lesa í tilfinningar annarra og skilningur okkar á hinni „réttu“ nálgun félagslega er iðulega ágiskun frekar en eðlislæg hæfni. Þetta hefur oft miklar afleiðingar fyrir okkur inn í framtíðina. Eins merkilegt og það kann að hljóma, þá geta vandamál æskunnar fylgt kostir til lengri tíma litið. Reynsla okkar margra getur gefið aukna samkennd, skilning og kærleik. Það grundvallast á því að við viljum ekki að aðrir upplifi okkar raunir og sjáum við fólk í vanda eða neyð leggjum við okkur fram við að hjálpa. Mín kenning er sú að fáir þjóðfélagshópar eru gæddir meiri gæsku en við, takist okkur að vinna úr á réttan hátt. Þótt við getum verið hér og þar, sagt einhverja tóma vitleysu eða farið með bjánalega brandara á vandræðalegum tímum þá get ég fullyrt að fáir vinir eru eins traustir, skilnings­ og kærleiksríkir og við með ADHD.

Hið skondna
Við erum stöðugt að gera eitthvað. Aðgerðirnar eru þó misjafnar eins og þær eru margar. Ég hef eytt árum af lífinu í að leita af lyklunum. Ígræðsla örflagna sem inniheldur alla lykla hljómar eins og eitthvað úr dystópíu Orwells fyrir venjulegt fólk en himnasending fyrir mörg okkar. Fjarstýringar í ísskápnum, hvaða rugl er það? Meðaltal mitt við að ná aftur í leiðbeiningar af pakka í matargerð til staðfestingar, úr ruslinu… eru sirka fimm skipti. Frestun á námskeiðið um frestunaráráttu er goðsagnakennt. Samtalið óvænta úti á götu við Jón um æskuárin eru mér minnistæð. Sérstaklega þar sem maðurinn heitir alls ekkert Jón, heldur Guðmundur og hefur auk þess aldrei hitt mig, eru regluleg og skemmtileg. Bílferðin heim í Kópavoginn úr miðbænum með viðkomu í álverinu í Straumsvík sökum dagdrauma er hressandi. Hver elskar ekki að keyra í gegnum Hafnarfjörðinn? Eitt sinn fór ég í úlpuna mína um leið og ég vaknaði, það var heldur kalt. Þegar í vinnuna var komið renndi ég úlpunni niður og tók eftir að ég hafði gleymt því að fara í peysu. Renndi henni umsvifalaust upp aftur og tjáði yfirmanni að mér væri svo kalt. Hann hækkar hitann. Ég myndi skrifa bók um ævintýrin öll, væri það ekki fyrir frestunaráráttuna. En það er eitt sem ég hef tekið eftir hjá okkur með ADHD. Það er hæfnin að sjá vitleysuna okkar og hlæja að ruglinu. Við erum fáránlega fyndin oft á tíðum, það virðist innbyggt í okkur og þá sér í lagi á okkar eigin misgáfulegu athafnir.

Framtíðin
Framtíðin er björt að mínu mati. Með frekari vitundarvakningu og skilningi þjóðfélagsins á ADHD er ég viss um það. Draumar mínir eru þeir að í stað þess að við þurfum að móta okkur að samfélaginu, mun samfélagið sjá þá miklu krafta sem leynast í hæfileikum okkar og nýta til fulls. Í hinu dagsdaglega forritaða handriti lífsins þrífumst við ekkert sérstaklega. En ef þið gefið okkur tækifæri að vinna með innbyggðum styrkleikum, sköpum við virði á við tíu venjulega. Það er loforð. Bara eitt að lokum.

Sértu með ADHD þá ertu snillingur! (stundum misskilinn reyndar en snillingur engu að síður!)

Hákon Helgi Leifsson ADHD snillingur og stjórnarmaður í ADHD samtökunum