Nýtt lyf við ADHD laust við aukaverkanir

RÚV 24.01.2018

Nýtt lyf við athyglisbresti með ofvirkni, sem byggist á uppgötvun íslensks læknis, er nú í þróun og eru vonir bundnar við að það komi á markað á næstu árum. Lyfið hefur ekki mælanlegar aukaverkanir og ekkert bendir til þess að það gæti verið fíknivaldandi.

Íslendingar eiga met í notkun ávanabinandi lyfja á borð við Rítalín og Concerta, og neyta þeirra margfalt á við nágrannaþjóðirnar. Þó að lyfin séu mikilvægur þáttur í meðferð við ADHD hafa þau margar aukaverkanir og geta meðal annars verið ávanabindandi.

Miklar breytingar gætu aftur á móti orðið á þessum málum þegar nýtt lyf kemur á markað. Niðurstöður rannsóknar þar sem börn með ADHD voru látin prófa lyfið komu vel út. Rannsóknin byggist á uppgötvun Hákonar Hákonarsonar, læknis og forstöðumanns erfðarannsóknastöðvar háskólasjúkrahúss Fíladelfíu í Bandaríkjunum, um stökkbreytingu í genum barna með ofvirkni og athyglisbrest.

„Allir þessir skalar voru notaðir í þessari rannsókn og allir komu mjög hagstætt út. Þær sýndu að yfir 80 prósent barna með þessar stökkbreytingar höfðu mjög sterka svörun gegn þessu lyfi og höfðu engar aukaverkanir umfram lyfleysu. Það eru engin ummerki að það sé fíkn, hvorki í dýramódelum né þeim mannarannsóknum sem hafa verið gerðar,“ segir Hákon í samtali við fréttastofu.

Þröstur Emilsson, framkvæmdastjóri ADHD samtakanna fagnar þessari framþróun.

„Það er fagnaðarefni að það komi fram annars konar tegund lyfja sem fyrstu bendingar gefa til kynna að virki dável. Hingað til höfum við kannski fyrst og fremst verið að tala um Methylfenídatlyf og öll þekkjum við þá neikvæðu ímynd sem þau lyf hafa, og neikvæðu umræðuna,“ segir Þröstur.