Ofvirkni

Samantekt úr erindi Solveigar Sigurðardóttur í maí 2001

Megineinkenni ofvirkni eru á sviði athyglisbrests, hvatvísi og hreyfiofvirkni. Einkennin
eru mismikil hjá hverju barni og samkvæmt því greiningarkerfi sem notað er hérlendis er
greint á milli ofvirkni með athyglisbresti, athyglisröskunar án ofvirkni og annarrar
ofvirkniröskunar.

Einkennin koma fram strax á forskólaárum, þau hamla barninu á ýmsa vegu og
eru í ósamræmi við aldur þess og þroska. Rannsóknir sýna að allt að 2-4% barna teljast
ofvirk. Hjá yngstu börnunum ber yfirleitt mest á hreyfiofvirkni en athyglisbrestur verður
oft ráðandi þegar börnin ná skólaaldri. Margir hafa velt því fyrir sér hvort aðstæður
fjölskyldna nú, þar sem hraði er mikill og vinnudagur langur, eigi þátt í því að fleiri börn
greinast ofvirk en fyrir nokkrum áratugum. Þetta er ólíkleg skýring því að rannsóknir
sýna að ofvirkni stafar af líffræðilegri röskun í starfsemi miðtaugakerfisins þar sem þáttur
erfða er stór en umhverfisþættir vega minna. Um er að ræða truflun í boðefnaflæði milli
taugafrumna í heilanum. Þetta misvægi í boðefnaflæðinu sést aðallega í heilastöðvum í
framheila og djúphnoðum heilans, en þar eru stjórnstöðvar sem eru mikilvægar fyrir
sjálfsstjórn, skipulag, einbeitingu og hreyfingar.

Við greiningu á ofvirkni er ítarleg saga um þroskaáfanga og hegðun mikilvægust.
Oft á tíðum hafa einkennin komið fram mjög snemma, í frumbernsku eða snemma á
forskólaárum, og ekki er óalgengt að ofvirk börn hafi hreyft sig meira í móðurkviði en
systkini þeirra. Staðlaðir spurningalistar eru notaðir til að fá upplýsingar um hegðun
barnsins á seinustu mánuðum fyrir greiningu. Þeir eru bæði lagðir fyrir foreldra og aðra
þá sem þekkja barnið vel, t.d. starfsfólk leikskóla eða skóla. Mikilvægt er að kanna aðrar
skýringar á ofvirkri hegðun sem til greina koma. Þar ber hæst víðtækari þroskatruflanir,
s.s. seinkun í málþroska eða almennan seinþroska þar sem einnig sést ofvirkni og
einbeitingarskortur. Líkamlegum kvillum, s.s. járnskorti og truflun á starfsemi
skjaldkirtils, geta einnig fylgt breytingar í hegðun þannig að rétt er að fá blóðrannsókn ef
einkenni gefa tilefni til, t.d. ef matarræðið er einhæft eða ef barnið borðar mikinn
mjólkurmat. Það má því segja að ofvirkni sé eins konar útilokunargreining sem á við
þegar ekki finnast aðrar líkamlegar eða þroskafræðilegar skýringar á einkennum barnsins.
Mikilvægt er að greina ofvirknina sjálfa rétt, en að auki þarf að varpa ljósi á
fylgikvilla sem eru algengir. Rannsóknir hafa sýnt að innan við 20% ofvirkra barna eru
„eingöngu” ofvirk. Helstu fylgikvillar eru ýmiss konar vanþroski og truflanir á skynjun,
geðræn vandamál s.s. kvíði, mótþrói og hegðunarraskanir, og sértækir námserfiðleikar,
sem greinast hjá um fjórðungi ofvirkra barna og unglinga. Ýmis taugasálfræðileg próf
koma að gagni við að meta þessa þætti. Auk þessa geta ofvirk börn átt erfitt félagslega,
þau eru oft hvatvís og geta lent upp á kant við jafnaldrana. Þau eiga þá til að einangrast
og vanmeta sjálf sig. Hvatvísin getur einnig leitt til ýmissa óhappa og slysa.
Yfirleitt koma tveir eða fleiri fagmenn að málum þegar barn er greint ofvirkt.
Oftast eru þetta læknir og sálfræðingur og er ákveðinn styrkur í því að fá álit og
sjónarmið hvors fyrir sig því að greiningin er eingöngu byggð á framangreindum þáttum
og ekkert líffræðilegt próf er lagt til grundvallar greiningunni. Ef einkenni eða
fylgiraskanir gefa tilefni til eru fengnar orsakarannsóknir, s.s. höfuðmyndataka,
heilalínurit eða litningapróf, sem stöku sinnum veita gagnlegar upplýsingar sem áhrif
hafa á meðferðina. Lyfjameðferð er í höndum læknisins en bæði sálfræðingur og læknir
koma að ráðgjöf til fjölskyldu og skólafólks. Ritalin er það lyf sem hefur reynst
áhrifaríkast við ofvirkni. Það líkir eftir örvandi boðefnum í heila og örvar nokkuð sérhæft
stöðvar í framheila. Þetta veldur því að barnið á auðveldara með að hafa stjórn á sjálfu
sér, einbeita sér og það róast. Rannsóknir hafa hvað eftir annað sýnt að ef Ritalin er
notað í viðurkenndum skömmtum við ofvirkni leiðir það ekki til ávana og misnotkunar
eins og margir hafa haldið fram.

Mikilvægt er að leggja áherslu á að lyfjameðferðin ein og sér gerir ekki kraftaverk
og að huga þurfi að uppeldisaðferðum, agastjórnun, aðstæðum í skóla og félagslegum
þáttum. Báðir foreldrar þurfa að vera virkir og samstíga í uppeldinu. Örva þarf barnið til
þátttöku í skipulögðu tómstundastarfi s.s. íþróttum, byggja upp sjálfsmynd þess og leggja
áherslu á að rækta styrkleika þess og hæfileika. Ef þetta er ekki gert aukast líkur á
vítahring stöðugra ósigra og minnimáttarkenndar og almennt versna þá langtímahorfur.
Horfur ofvirkra barna og unglinga eru mjög misgóðar. Í grófum dráttum má segja
að ofvirkni eldist af um 30% barnanna. Hjá þeim eru þá einkennin tímabundin og með
auknum aldri og þroska næst jafnvægi í heilastarfseminni. Um 40% barnanna glíma við
ákveðin ofvirknieinkenni fram á fullorðinsár. Einkennin birtast þá oft sem rótleysi, ýmiss
konar aðlögunarerfiðleikar og skipulagsleysi. Um 30% hópsins hafa á fullorðinsárum enn
alvarlegri einkenni ofvirkni og jafnframt alvarlegar fylgiraskanir, svo sem geðræna
erfiðleika og áfengis- og vímuefnamisnotkun, sem síðan getur leitt til afbrota. Rannsóknir
hafa sýnt að þeim börnum vegnar best sem eru laus við andfélagslega hegðun, standa vel
félagslega, hafa góða greind og þar sem fjölskyldan er samstíga og einhuga í uppeldinu.
Eins og fram kemur hér að ofan eru horfur hins vegar verstar hjá þeim sem glíma við
víðtæka fylgikvilla ofvirkni. Til að reyna að koma í veg fyrir að barnið lendi í síðasttalda
hópnum ráðlegg ég foreldrum að bíða ekki með að leita til sérfræðinga, heldur reyna að
fá greiningu og meðferð fyrir barnið sem allra fyrst, því að með öflugri alhliða meðferð
frá byrjun má hafa áhrif til góðs á langtímahorfur.

Solveig Sigurðardóttir