"Leyndardómar heilans – Láttu verkin tala" komin út

Ari Tuckman tekur við fyrsta eintaki bókarinnar
Ari Tuckman tekur við fyrsta eintaki bókarinnar

Íslensk þýðing bókar Dr. Ara Tuckman, "Understand your brain - Get more done" kom út á vegum ADHD samtakanna. Fyrsta eintak bókarinnar var afhent Ara við hátíðlega athöfn í Iðnó í dag. Bókin hefur hlotið nafnið "Leyndardómar heilans – Láttu verkin tala".

Til er fjöldi bóka um ADHD og í flestum má finna gagnlegar upplýsingar. ADHD samtökunum fannst þó tími kominn til að gefa út verkefnabók á íslensku fyrir fullorðna með ADHD, bók sem gæti hjálpað þeim að breyta lífi sínu til hins betra. Bókin er nokkurs konar handbók fyrir fullorðna með ADHD og eru í henni ráðleggingar til að auka athygli, hafa stjórn á tilfinningum, forgangsraða, stjórna tímanum betur, skipuleggja sig og bæta minnið.

Ari Tuckman sagði við útgáfuathöfnina að það væri ánægjulegt að sjá verk sín þýdd á önnur tungumál og hann væri auðmjúkur þegar hann tæki við fyrsta eintakinu. Hann sagðist líta á það sem eitt af sínum hlutverkum að tvinna saman vísindi og þekkingu og koma öllu í skiljanlegt form fyrir hinn almenna lesanda.

Dr. Ari Tuckman er sjálfstætt starfandi sálfræðingur í West Chester, Pennsylvaniu í Bandaríkjunum. Hann hefur haldið vel á þriðja hundrað fyrirlestra og kynninga og hlotið einróma lof fyrir skýra og einfalda framsetningu á flóknum umfjöllunarefnum.

Það var mikið lán fyrir ADHD samtökin að komast í samband við Dr. Ara Tuckman en hann var einn erlendra fyrirlesara á afmælisráðstefnu ADHD samtakanna haustið 2013.

Dr. Ari hefur gefið út þrjár bækur um ADHD;
1. Integrative Treatment for Adult ADHD: A Practical, Easy-To-Use Guide for Clinicians.
2. More Attention, Less Deficit: Success Strategies for Adults with ADHD
3. Understand Your Brain, Get More Done: The ADHD Executive Functions Workbook.
Sú síðastnefnda hefur nú verið þýdd á íslensku og gefin út af ADHD samtökunum.

Fjölmargir hafa lagt ADHD samtökunum lið við þýðingu bókarinnar og útgáfu. Dr. Ari Tuckman hefur sýnt samtökunum mikla velvild og gaf góðfúslegt leyfi til að þýða bækurnar á íslensku og gefa út. Stuðningur Ara er ómetanlegur fyrir ADHD samtökin. Þá fær ADHD teymi Landspítalans þakkir fyrir yfirlestur og ráðgjöf, Öryrkjabandalag Íslands fyrir fjárhagslegan stuðning og útgefendum Ara í Bandaríkjunum þakka ADHD samtökin gott samstarf.

Matthías Kristiansen annaðist þýðingu bókarinnar.
Í ritnefnd sátu Drífa Björk Guðmundsdóttir, Elín Hoe Hinriksdóttir og Vilhjálmur Hjálmarsson.
Ritstjóri verksins var Þröstur Emilsson.

"Leyndardómar heilans - Láttu verkin tala" verður seld á skrifstofu ADHD samtakanna, Háaleitisbraut 13, Reykjavík og á vef samtakanna, www.adhd.is eftir 17. október n.k. Tekið verður við pöntunum á netfangið adhd@adhd.is

Verð bókarinnar er kr. 5.900,- en félagsmenn í ADHD samtökunum fá veglegan afslátt, greiða kr. 4.900,-