ADHD fræðsla í Dalvíkurbyggð

Þann 12. október síðastliðinn fór fram öflug fræðsla um ADHD í Dalvíkurbyggð. Í samtarfi við ADHD samtökin fengu nemendur í 5. til 10. bekk fræðslu um ADHD og samskipti. Auk þess sóttu starfsfólk skóla og íþróttahúss fræðslu um ADHD og skólann þar sem farið var yfir mikilvægi þess að umhverfið tali í takt. Ekki síst fengu foreldrar og aðstandendur fræðslu um birtingamyndir ADHD, ADHD fókus og mikilvægi þess að byggja á styrkleikum til að vinna með áskoranir. Það er alltaf jákvætt þegar sveitarfélög og stofnanir vilja fræðast meira um ADHD og eftir því sem fleiri þekkja til röskunarinnar eykst skilningur og jákvæðni. ADHD samtökin fagna þessu mikilvæga framtaki hjá Dalvíkurbyggð og hlakka til að fylgjast með framhaldinu, ekki síst hvernig skólinn kemur til með að nýta sér þekkinguna. 

ADHD samtökin hafi á liðnum misserum staðið fyrir margskonar ADHD fræðslu fyrir starfsfólk leikskóla, grunnskóla, íþróttafélaga og tómstundamiðstöðva um allt land. Eftirspurn eftir slíkri færðslu er sem betur fer að aukast mikið, enda má með aukinni þekkingu og meðvitund um einkenni ADHD gjörbreyta öllu skóla- og frístundastarfi til hins betra – bæði fyrir börn með ADHD og aðra. Nánari upplýsingar um slíka fræðslu má fá á skrifstofu ADHD samtakanna adhd@adhd.is