ADHD og systkini - opinn spjallfundur

ADHD og systkini - opinn spjallfundur
ADHD og systkini - opinn spjallfundur

ADHD og systkini. ADHD samtökin bjóða upp á opinn spjallfund, um ADHD og systkini, miðvikudaginn 4. september nk. kl. 20:30. Fundurinn verður í fundarsal samtakanna að Háaleitisbraut 13 - IV.hæð og er ætlaður fólki með ADHD og foreldrum, forráðamönnum og nánum aðstandendum barna og ungmenna með ADHD.

Systkini barna með ADHD upplifa ýmsar áskoranir í samskiptum sínum við barnið með ADHD og geta upplifað sig sem fórnarlömb stríðni, árásargirni og afskiptaleysis. Oft á tíðum fer athyglin annað en á þau og kröfurnar geta orðið miklar. Allt fjölskyldulífið getur litast af erfiðum samskiptum milli systkina og þegar ADHD bætist við það flókna mynstur, verða verkefnin meira krefjandi. Á fundinum mun Dr. Drífa Björk Guðmundsdóttir, sálfræðingur og stjórnarkona í ADHD samtökunum fara yfir helstu áskoranir ADHD fyrir fjölskyldulífið með tilliti til systkina, benda á hagnýt ráð sem virka og leiða umræður.

Með virkri þátttöku fundargesta gefst einnig gott tækifæri til að læra af reynslu annarra og heyra uppbyggjandi reynslusögur. Á fundinum verður einnig hægt að nálgast bækling samtakanna, bækur um ADHD og annað fræðsluefni.

Allir eru velkomnir, félagsmenn sem aðrir. Það verður heitt á könnunni og að sjálfsögðu kostar ekkert að taka þátt.

Spjallfundir ADHD samtakanna eru yfirleitt fyrsta og þriðja miðvikudag í hverjum mánuði og má sjá dagskrána framundan hér: Spjallfundir ADHD samtakanna.

Hlökkum til að sjá ykkur sem flest.