ADHD samtökin 35 ára!

ADHD samtökin fagna 35 ára starfsafmæli í ár.
ADHD samtökin fagna 35 ára starfsafmæli í ár.

Þann 7. apríl verða 35 ár liðin frá stofnun ADHD samtakanna, sem í upphafi hétu Foreldrafélag misþroska barna. ADHD samtökin munu með ýmsum hætti fagna tímamótunum undir yfirskriftinni Betra líf með ADHD í 35 ár. Við munum horfa yfir farinn veg, gleðjast, fræðast og leggja drög að enn öflugara starfi um allt land og betra samfélagi fyrir fólk með ADHD og skildar raskanir.

Afmælisrit ADHD 35 áraNæstu daga mun afmælisriti ADHD samtakanna verða dreift um allt land, stútfullu af fróðleik um starfsemi samtakanna ásamt áhugaverðum viðtölum við fjölda einstaklinga. Meðal viðmælenda eru Tobba Marínós, Atli Már, Mæja listakona, Hlaðvarpsdraugarnir Baldur og Flosi, Bryndís Haraldsdóttir námsráðgjafi, Katrín Davíðsdóttir, geðlæknir og fleiri. Afmælisritið má einnig nálgast á heimasíðu ADHD samtakanna - Afmælisrit.

Um leið og við óskum okkur öllum til hamingju með 35 ára starfsafmælið gefum við formanni samtakanna, Vilhjálmi Hjálmarssyni orðið.

Til hamingju öll!

 

 Betra líf með ADHD í 35 ár

Á vordögum 1987, eftir ráðstefnu í Borgarleikhúsinu um hjálpartæki fatlaðra, fengu hjónin Heidi og Matthías Kristiansen hugljómun og vildu vekja athygli á röskuninni. Um haustið hittu þau fleiri foreldra sem voru með börn sín í sjúkraþjálfun hjá Styrktarfélagi lamaðra og fatlaðra. Þetta leiddi til að hóað var til fundar á Hótel Sögu, þar sem 130 manns mættu. Í framhaldinu var boðað til formlegs stofnfundar Foreldrafélags misþroska barna á sal Kennaraháskólans þann 7. apríl 1988. Stofnfélagar voru 90 talsins. Um 1990 var stofnaður þverfaglegur ofvirknihópur á BUGL þar sem unnið var að því að skipuleggja samræmda greiningu og meðferð. Undir aldamót vék hugtakið „misþroski“ fyrir hinni alþjóðlegu skammstöfun ADHD og eins var orðið ljóst að ADHD fylgir mörgum inn í fullorðinsárin. Í dag telja félagsmenn ADHD samtakanna yfir fjögur þúsund, einstaklingar og/eða fjölskyldur eftir atvikum. 

Frá upphafi hefur áhersla verið á fræðslu af ýmsu tagi, fyrst í formi fræðslufunda fyrir foreldra og aðstandendur. Með tíð og tíma bættust við fundir og námskeið fyrir fullorðna og börn með ADHD ásamt fræðslu fyrir ýmsar fagstéttir. Samhliða því starfi sinna samtökin hagsmunagæslu á margvíslegum vettvangi, með umfjöllun í fjölmiðlum, beinu samtali við stjórnvöld og gegnum aðild að Öryrkjabandalagi Íslands svo fátt eitt sé nefnt. 

Fyrir hálfum öðrum áratug var mörkuð sú stefna að breyta orðræðunni og um leið halda uppi þeim jákvæðu þáttum sem í ADHD felast. Margt hefur áunnist á síðastliðnum árum m.a. fyrir tilstuðlan aukinnar umfjöllunar í formi hlaðvarpa og annarra samfélagsmiðla og sá neikvæði stimpill er löngum hefur loðað við röskunina á undanhaldi. ADHD og skyldar raskanir eru einfaldlega hluti af mannlegri flóru sem ber að fagna og umvefja, fremur en ala á fordómum sem engu skila nema neikvæðni og niðurrifi. Höfum það hugfast og aðlögum frekar samfélagið og skólakerfið að ólíkum þörfum, fögnum fjölbreytileikanum og tökum tillit til þess að einstaklingar með ADHD passa ekki í einhverja kassa. 

Sjálfur fékk ég mína greiningu um aldamótin, þá 33 ára og hef upplifað á eigin skinni hvernig hlutirnir hafa breyst. Fyrir mig var sem ákveðin frelsun að fá loks skilið og eins geta útskýrt fyrir öðrum ýmislegt sem flækst hafði fyrir mér. Í dag segi ég hiklaust að ég sé með ADHD og öðruvísi vil ég ekki vera, minn heili er bara víraður svona en ekki hinsegin. 

Í 35 ár hefur fræðsla og aukinn skilningur verið lykillinn að betra lífi með ADHD. Sumt hefur þó lítið breyst í áranna rás og ber líklega hæst löngu fyrirséður skortur á geðlæknum og einhverja lengstu biðlista eftir greiningu og meðferð fyrir börn og fullorðna sem sést hafa innan heilbrigðiskerfisins. Með nýrri Geðheilsumiðstöð barna og ADHD teymi Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins stefnir þó vonandi til betri vegar. Eins hillir loks undir að áratugarbarátta fyrir niðurgreiðslu á sálfræðiþjónustu verði að veruleika. Hér veltur þó allt á að Alþingi og ríkistjórn láti fjármagn fylgja máli. Gangi það eftir geta ADHD samtökin horft björtum augum til framtíðarinnar. 

Á afmælisárinu munu ADHD samtökin brydda upp á ýmsu og þetta afmælisblað er bara upphafið. Njótið vel. 

Vilhjálmur Hjálmarsson, formaður ADHD samtakanna