ADHD-teymi á Landspítalanum lagt niður að óbreyttu

Frétt RÚV 07.10.2013

ADHD-teymi á Landspítalanum verður lagt niður að óbreyttu þar sem fjárveitingar til þess eru alfarið skornar niður í nýju fjárlagafrumvarpi. RÚV greindi frá. Framkvæmdastjóri geðsviðs Landspítalans segir í samtali við RÚV, brýna þörf fyrir úrræðið.

Sérstakt ADHD-teymi var stofnað á geðsviði Landspítalans í byrjun árs eftir að 40 milljóna króna fjárveiting fékkst til verkefnisins. Teymið samanstendur af sálfræðingum og geðlæknum og hefur það hlutverk að skima eftir einkennum ADHD hjá fullorðnum.Í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar er ekki gert ráð fyrir neinum fjármunum til verkefnisins á næsta ári.

María Einisdóttir, framkvæmdastjóri geðsviðs Landspítalans segir að þá þyrfti að leggja teymið niður, sem fengið hafi yfir 270 tilvísanir á þessum stutta tíma sem það hafi verið starfrækt.

Tilgangurinn með stofnun teymisins var meðal annars að tryggja að þeir sem fá ávísuð lyf eða sálfræðimeðferð vegna sjúkdómsins hafi fengið faglega greiningu áður. María segist þó bjartsýn á að Alþingi tryggi teyminu fjármuni, enda alvarlegt ef það yrði lagt niður. „Þá erum við bara með hóp fólks sem fær ekki þá greiningu og meðferð sem þau þurfa á að halda. Það er bara mjög alvarlegur hlutur. Við gætum ekki haldið þessari þjónustu úti, ef við fáum ekki peninga til að reka hana.“