Afmælisfagnaður í regni og sól

25 ára afmæli ADHD samtakanna var fagnað að Hömrum við Akureyri og í  Guðmundarlundi í Kópavogi á sunnudag.

Eftirfarandi frétt birtist á mbl.is

„Við dönsum þakkardans til regnguðanna,“ segir Ellen Calmon, framkvæmdastjóri ADHD samtakanna, en í dag héldu samtökin upp á 25 ára afmæli sitt og var boðið til afmælishátíðar í Guðmundarlundi í Kópavogi og að Hömrum ofan Akureyrar.

Ellen segir báðar hátíðir hafa heppnast ótrúlega vel, fólk hafi fjölmennt á báða staði og notið þess að koma saman.

„Það mættu yfir 300 manns hingað í Guðmundarlund og Sirkus Íslands var með hreint út sagt ótrúlegt atriði,“ segir Ellen og bætir við að einnig hafi hoppukastalar verið á svæðinu auk þess sem boðið var upp á grillaðar pylsur, poppkorn, svaladrykki og andlitsmálningu.

Ekki er hægt að segja að veðrið hafi beinlínis leikið við afmælisgestina sem mættu í Guðmundarlund en þrátt fyrir það skemmtu sér allir konunglega að sögn Ellenar.

„Það fóru margir og hoppuðu í hoppuköstulum enda var hægt að renna sér mjög vel í þeim í rigningunni. Á Akureyri var blíðskaparveður og fóru margir í bátsferðir en einnig var í boði að skoða hunda og fara á hestbak,“ segir Ellen.

„Við erum mjög ánægð með hátíðina og þann mikla fjölda sem sá sér fært um að mæta. Síðan erum við auðvitað glöð með að vera orðin 25 ára,“ segir Ellen og bætir við að vonandi geti ADHD samtökin haldið upp á jafn skemmtilega afmælishátíð eftir fimm ár þegar samtökin verða 30 ára.

Myndir frá afmælishátíð í Guðmundarlundi