Afmælishátið ADHD samtakanna

Frá vinstri til hægri Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, Ingibjörg Karlsdóttir, Elín Hoe Hinriks…
Frá vinstri til hægri Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, Ingibjörg Karlsdóttir, Elín Hoe Hinriksdóttir, Alexander Kristinsson og Vilhjálmur Hjálmarsson

Síðastliðinn fimmtudag héldu ADHD samtökin uppá 35 ára afmæli sitt með pompi og prakt í Gyllta salnum á Hótel Borg. Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra ávarpaði gesti og tónlistarmaðurinn Eyþór Ingi tróð upp. Grínarinn og ísgerðarkonan Anna Svava Knútsdóttir sá um að stýra viðburðinum með glæsibrag.

Katrín Jakobsdóttir og Vilhjálmur Hjálmarsson, formaður ADHD samtakanna veittu síðan eftirtöldum aðilum heiðursviðurkenningu fyrir ómetanlegt framlag þeirra í þágu fólk með ADHD. Viðurkenninguna hlutu Matthías Kristiansen og Heidi Kristiansen, Ingibjörg Karlsdóttir, Elín Hoe Hinriksdóttir og Björk Þórarinsdóttir heitin. Ingibjörg Karlsdóttir tók á móti viðurkenningu Matthíasar og Heidi í fjarveru þeirra og Alexander Kristinsson tók á móti viðurkenningu fyrir hönd móður sinnar Bjarkar Þórarinsdóttur en öll voru þau í forystu samtakanna og bera mikla ábyrgð á velgengni þeirra í dag.

Afmælisdagurinn er þó aðeins hluti af stærri dagskrá á þessu afmælisári en í sumar munu samtökin bjóða félagsfólki til veislu í Fjölskyldu- og Húsdýragarðinum. Auk þess standa ADHD samtökin fyrir alþjóðlegri ráðstefnu 26. og 27. október undir yfirskriftinni „Betra líf með ADHD“. Fyrir Páska gáfu samtökin einnig út afmælisrit sem hægt er að nálgast hér. https://www.adhd.is/static/files/Frettabref/pdf/afmaelisrit.pdf

Hér er hægt að skoða myndabanka frá viðburðinum: https://www.picdrop.com/ellephoenix/XuP44nPxBr