Ari Tuckman fyrirlesari á afmælisráðstefnu ADHD: Taktu stjórn á ADHD

Ari Tuckman
Ari Tuckman

Ari Tuckman, PsyD, MBA, er sálfræðingur sem hefur sérhæft sig í greiningum og meðferð ADHD hjá börnum og fullorðnum. Hann er virtur fyrirlesari og hefur skrifað bækurnar: “Understand Your Brain, Get More Done: The ADHD Executive Functions Handbook”, “Integrative Treatment for Adult ADHD: A Practical Easy-To-Use Guide For Clinicians” og “More Attention, Less Deficit: Success Strategies for Adults with ADHD”. Auk þess hafa verið gerðir 100 þættir sem sendir eru út á veraldarvefnum sem byggja á “More Attention – Less Deficit” (Meiri athygli, Minni röskun”), sem eru ráðleggingar fyrir fullorðna með ADHD og má sjá dæmi um slíkar ráðleggingar hér að neðan.

Hversu oft hefur þú heyrt athugasemdir eins og “ADD/ADHD er bara afsökun”? Efasemdarmenn hafa haldið því fram að ekki sé um raunverulega röskun að stríða heldur afsökun fyrir slæmri hegðun eða náms- og atvinnutengdum erfiðleikum. Þótt hugsanlega megi nota ADHD sem afsökun, er vænlegra að hugsa um það sem skýringu, sem auðveldar einstaklingum með ADHD að taka aukna ábyrgð á eigin erfiðleikum og ná stjórn á einkennunum.

Afsakanir gera þig kraftlausan á meðan skýringar auðvelda þér að ná stjórn á erfiðleikum tengt ADD/ADHD og bæta lífsgæði. Þeir sem nota ADD/ADHD sem afsökun fyrir því að gera ekki eitthvað sem þá langar ekki að gera munu án efa gjalda það dýru verði. Gera má ráð fyrir að slíkt leiði til þess að fólk telji þá vanhæfa, vænti minna af þeim og þar af leiðandi missi þeir kannski af spennandi tækifærum. Það að nota ADD/ADHD sem afsökun krefst þess líka að aðrir taki afsökunina til greina en ólíklegt verður að teljast að allir geri það. Til dæmis vilja fyrirtæki sem þú verslar við, s.s. síminn og orkuveitan fá reikningana sína greidda og láta sig engu varða ástæður þess að greiðsla hefur ekki borist á réttum tíma; borgir þú ekki er lokað fyrir þjónustuna.

Kostir þess að taka stjórnina á ADD/ADHD einkennunum:

Það setur einkennin í samhengi. Þú veist afhverju þú gerir ákveðna hluti – eins og að fresta því að fylla út skattaskýrsluna . Hefðir þú ekki ADD/ADHD til að skýra þessa hegðun myndir þú hugsanlega álykta sem svo að frestunaráráttan væri afleiðing leti, ábyrgðarleysis eða vanhæfni. Þegar þú gerir mistök sem rekja má til ADD/ADHD er mun betra að geta skýrt þau með röskuninni en með niðurbrjótandi hugsunum um eigin persónu eða persónulega eiginleika.

Það veitir aukna stjórn yfir ADD/ADHD. Mörgum einstaklingum með ADHD finnst þeir endalaust hafna í erfiðum aðstæðum án þess að fá við neitt ráðið. Með því að skilja orsakir erfiðleikanna aukast möguleikarnir á að gera hlutina öðruvísi. Í stað þess að vera óvirkt fórnarlamb ADD/ADHD röskunarinnar er mikilvægt að vera virkur í leitinni að nýjum aðferðum sem virka betur og nýta sér þær til að ná settum markmiðum.

Það hjálpar þér að finna leiðir til að takast á við ADD/ADHD. Það er þín ábyrgð að breyta óæskilegri hegðun frekar en að ætlast til þess og treysta því að aðrir fyrirgefi þér hegðunina. Það að geta útskýrt hegðunina með ADD/ADHD veitir þér fleiri valmöguleika. Það er ólíklegt að lánveitendur sættist á að fella niður dráttarvexti þótt þú gleymir síendurtekið að borga reikningana þína á réttum tíma. Hins vegar ef þú sættir þig við það að gleymska sé hluti af ADD/ADHD röskuninni getur þú gert ráðstafanir sem minnka líkurnar á að þú gleymir að borga reikningana, t.d. biðja einhvern að minna þig á það, setja reikningana í greiðsluþjónustu eða láta bankann skuldfæra þá á gjalddaga.

Það veitir von um betri niðurstöðu. Það að vita að ADD/ADHD einkenni geti valdið manni erfiðleikum í ákveðnum aðstæðum auðveldar manni að undirbúa sig betur og hámarka þannig líkurnar á árangri. Ef þú veist að þú sért gjarn á að gleyma hlutum, getur verið hjálplegt að skrifa hlutina hjá sér, notast við dagatöl eða verkefnalista og það eykur líkurnar á að þú munir að gera það sem þarf að gera.

Það auðveldar manni að biðjast afsökunar. Markmiðið er að vera hreinn og beinn í samskiptum við aðra – til dæmis að biðjast afsökunar og biðja þann sem þú greipst fram í fyrir að klára það sem hann var að segja. Með því að gangast við eigin gjörðum og leita leiða til að leiðrétta þær verða samskiptin betri.
Þú munt vita að þú sért að nota ADD/ADHD sem skýringu þegar þú gerir í raun hluti sem er krafist til að þú náir árangri (a.m.k. stundum). Þótt þér mistakist öðru hvoru er það ekki heimsendir, heldur tækifæri til að standa upp og reyna aftur.

Breyttu úr því að nota ADD/ADHD sem afsökun og taktu stjórnina ADD/ADHD einkennunum
• Athugaðu að allir eiga við erfiðleika að stríða þótt þínir geti virst greinilegri
• Sættu þig við að ADD/ADHD sé hluti af þínu lífi, hvort sem þér líkar betur eða verr.
• Athugaðu að allt sem þú gerir hefur áhrif á það hvernig líf þitt verður
• Leggðu þig fram við að gera þitt besta, þrátt fyrir að ADD/ADHD röskunin geti torveldað leiðina að settum markmiðum

Ari Tuckman er meðal fyrirlesara á afmælisráðstefnu ADHD samtakanna, "Lífsins ganga með ADHD" sem fram fer á Grand hótel reykjavík dagana 25. og 26. október 2013.

Skráning er hér