Atvinna og ADHD - nýr fræðslubæklingur.

Atvinna og ADHD - nýjasti fræðslubæklingur ADHD samtakanna.
Atvinna og ADHD - nýjasti fræðslubæklingur ADHD samtakanna.

Út er kominn hjá ADHD samtökunum, fræðslubæklingurinn Atvinna og ADHD - leiðarvísir fyrir fólk með ADHD, stjórnendur og allt samstarfsfólk einstaklinga með ADHD, sem vill ná árangri í atvinnulífinu. 

Atvinna og ADHD er nýjasti fræðslubæklingur ADHD samtakanna, en áður hafa samtökin gefið út 15 fræðslubæklinga um ýmislegt tengt ADHD. Eins og nafnið gefur til kynna fjallar nýjasti fræðslubæklingurinn um hvaða áskoranir einstaklingar með ADHD standa frammi fyrir á vinnustað ásamt því að innihalda upplýsingar um góð ráð og aðferðir sem nýst geta í starfi.

Oft á tíðum eiga einstaklingar með ADHD erfitt með að koma auga á eigin styrkleika og finnst þeim jafnvel mistakast flest sem þeir taka sér fyrir hendur. Í ofanálag upplifa þeir einatt neikvæð skilaboð frá umhverfinu og finnst sem þeir fái ekki notið sín á eigin forsendum og séu jafnvel einskis nýtir.

Þekking á röskuninni og birtingarmyndum hennar er mikilvæg fyrir okkur öll, bæði þá einstaklinga sem við hana glíma sem og alla hina sem standa þeim næst.

Atvinnurekendur og samstarfsmenn þurfa að gera sér grein fyrir að einstaklingur með ADHD getur lagt mikið til á góðum vinnustað. Margir þeirra búa við hindranir en með góðum stuðningi og réttum úrræðum geta þeir náð að vega upp á móti veikleikum sínum og náð langt. 

Fræðslubæklinginn Atvinna og ADHD má nálgast á rafrænu formi á heimasíðu ADHD samtakanna, en prentuð eintök er hægt að panta hjá samtökunum án endurgjalds, með því að senda póst á adhd@adhd.is

Helstu styrktaraðilar útgáfunnar eru Efling, VR, Heilbrigðisráðuneytið, Félagsmálaráðuneytið, Reykjavíkurborg, BHM, ASÍ og Starfsgreinasambandið, en fulltrúar þessara aðila fengu fyrsta eintakið afhent, fyrr í þessum mánuði. 

Atvinna og ADHD - fyrstu eintökin afhent.