Barnageðlækningar á Norðurlandi: Einkastofa opnuð á Akureyri

MYND: RÚV
MYND: RÚV

Frétt birt á RÚV 24.09.2013

Páll Tryggvason, barna- og unglingageðlæknir á Akureyri, hefur opnað einkastofu á Sjúkrahúsinu á Akureyri. Vandinn í barnageðlækningum nyrðra er þó ekki leystur til frambúðar, eftir því sem fram kom í frétt RÚV.

Í fréttinni segir ennfremur að Páll Tryggvason hafi sagt starfi sínu á Sjúkrahúsinu á Akureyri lausu síðastliðinn vetur vegna óánægju með nýtt skipurit þar sem barna- og unglingageðdeildin var lögð niður sem sjálfstæð eining. Sálfræðingur sem starfaði á deildinni sagði einnig um störfum. Þau hættu bæði 1. apríl og síðan þá hefur enginn barna- og unglingageðlæknir verið starfandi utan höfuðborgarsvæðisins. Biðlistar á Barna- og unglingageðdeild Landspítalans í Reykjavík hafa lengst í kjölfarið og foreldrar hafa lýst áhyggjum af ástandinu. Enginn sótti um þegar staða barna- og unglingageðlæknis var auglýst í vor og ekki náðist samkomulag í sumar milli sjúkrahússins og Páls um áframhaldandi þjónustu við börn og ungmenni á svæðinu.

Nú hefur Páll hins vegar fengið aðstöðu innan veggja sjúkrahússins fyrir einkastofu og byrjaði í gær að taka við sjúklingum. Sá leigusamningur rennur út í vor svo framhaldið er óráðið. Páll sagði í samtali við fréttastofu að þetta væri bráðabirgðaúrræði og ekki sambærilegt við þá þjónustu sem veitt var á sjúkrahúsinu áður þegar læknir, sálfræðingur og ritari störfuðu saman sem eitt teymi.