Brautryðjandi kvaddur

Páll Magnússon, sálfræðingur
Páll Magnússon, sálfræðingur

Páll Magnússon, sálfræðingur,  lést þann 10. okóber síðast liðinn.

Hér verður ekki fjallað um viðamikil fræði og rannsóknarstörf Páls meðal annars á sviði einhverfu og ADHD, heldur verður hér komið á framfæri þökkum fyrir störf hans í þágu fólks með ADHD og aðstandenda þeirra.  

Það var um 1990 að Páll hóf leit að úrræðum fyrir ákveðinn hóp barna sem komu ítrekað aftur á Barna- og unglingageðdeild eftir útskrift þaðan.  Það bar þann árangur að hann hófst handa við að fá með sér samstilltan hóp fagfólks til að kynna sér nýjar leiðir í  greiningu og meðferð þessara barna, sem í fyrstu voru kölluð ofvirk. Unnið var samkvæmt stöðlum aðferðum og mikil áhersla lögð á stuðning og fræðslu við foreldra.  Hópurinn, þróaði námskeið um ADHD og meðal annars var hafið skipulegt samstarf við Foreldrafélag misþroska barna og síðan ADHD samtökin.

Páli var hugleikið að rannsóknir á ADHD yrðu til að auka þekkingu á ADHD,  hvort heldur væri á sviði greiningar eða meðferðar.  Með aukinni þekkingu yrði mögulegt að bæta líðan fólks með ADHD og  efla kjark þess færni til náms og starfa. Hann lagði einnig áherslu á að auka almenna þekkingu á ADHD og skrifaði fjölda greina í þeim tilgangi.   Hann starfaði lengst af á Barna og unglingageðdeild Landspítalans, en þegar ADHD teymi geðdeildanna sem þjónaði fullorðnum var sett á fót varð hann fyrsti teymisstjóri þessi.  

Allt starf Páls miðaðist að því að vinna við ADHD greiningar og meðferð væri traust og byggð á gangreyndum aðferðum.  Hann var einn af höfundum klínískra leiðbeininga sem Embættis landlæknis gaf út og tók þátt í fjölmörgum rannsóknum.

Páll var einstakt prúðmenni í allri framgöngu, hægur og rólegur sem  aldrei hækkaði róminn.  Öll framkoma hans  bæði gagnvart skjólstæðingum og samstarfsfólki einkenndist af virðingu og hlýju.  Hann var mjög vel máli farinn bæði í ræðu og riti og mikill málamaður.  

ADHD samtökin senda aðstandendum Páls innilegar samúðarkveðju og þakka honum fyrir langt samstarf og ríkulegan stuðning við fólk með ADHD.