Einstakt verkfæri fyrir fólk með ADHD og einhverfu

Á dögunum opnaði vefsíðan www.egerunik.is. Síðan er einstakt verkfæri  fyrir fólk með ADHD og einhverfu og gerir því kleift, eða foreldrum barna með ADHD eða einhverfu, að útbúa persónulegt fræðsluefni um einstaklinginn. Ekkert slíkt verkfæri hefur verið til en mikil þörf verið á. Hugmyndasmiður og eigandi síðunnar er Aðalheiður Sigurðardóttir.

Síðan var formlega opnuð þann 23. september. Við það tækifæri var frumflutt glænýtt lag, "I am unique" sem Ingólfur Þórarinsson, betur þekktur sem Ingó Veðurguð, samdi fyrir verkefnið. Fjöldi ráðgjafa kom að verkefninu með Aðalheiði, meðal annars fulltrúar ADHD samtakanna.

En hvers vegna vefsíðan www.egerunik.is? 
"Vegna þess að áskoranirnar eru ósýnilegar og þeim fylgja oft miklir fordómar, stríðni og einmanaleiki. Okkar helsta markmið er að breyta viðhorfum um staðalímyndir og minnka fordóma gagnvart þeim sem eru öðruvísi. Að hafa fræðsluefnið persónulegt er mikilvægt vegna þess að við erum öll svo ólík og ein mikilvægasta reglan í samskiptum er: þegar þú þekkir einn, þá þekkir þú einn!" segir Aðalheiður Sigurðardóttir stofnandi vefsíðunnar.

Í stuttu máli virkar vefsíðan þannig að þegar búa á til persónulega bók eru fyrst valdar nokkrar skilgreiningar sem eiga við um þann sem bókin er um. Þá birtast fyrirfram skrifuð textabrot sem útskýra þær ósýnilegu áskoranir sem einstaklingur með ADHD eða á einhverfurófi gæti hugsanlega glímt við. Síðan eru þau textabrot valin í bókina sem best eiga við um þann sem bókin er um. Valin er hönnun og bókin skreytt með myndum úr eigin safni. Að lokum er hægt að velja um að fá bókina á rafrænu formi eða útprentaða.

Eins og áður segir er upphafskona verkefnisins Aðalheiður Sigurðardóttir, stolt einhverfumamma, sem hætti í vinnunni til að helga sig því verkefni að fræða samfélagið um fjölbreytileikann. Það gerir hún bæði með vefsíðunni www.egerunik.is og einnig með fyrirlestrahaldi í skólum og leikskólum.

HÉR má finna kynningarmyndband sem útskýrir virkni vefsíðunnar.

Myndir frá opnun vefsins