Embætti landlæknis: Mataræði barna með ADHD eða einhverfu

Fjölbreyttur og næringarríkur matur, í samræmi við opinberar ráðleggingar um mataræði og reglulegir matmálstímar, stuðla að góðu næringarástandi sem er mikilvægt fyrir vöxt og þroska og vellíðan allra barna. Meðferð við ADHD og einhverfu með sérstöku mataræði er ekki ráðlögð nema þegar grunur er um óþol og ætti þá að vera í samráði við næringarráðgjafa og aðra fagaðila. Embætti landlæknis birtir þessar upplýsingar á vef sínum í dag.

"Mataræði barna með ADHD eða einhverfu – staða þekkingar 2016" er yfirskrift fréttarinnar á vef landlæknis.

ÞAr er birt staða þekkingar hvað varðar mataræði sem meðferð fyrir börn með ADHD annars vegar og einhverfu hins vegar. Einnig eru birtar hagnýtar ráðleggingar varðandi matvendni barna.

Höfundur efnis um AHDH og mataræði er dr. Bryndís Eva Birgisdóttir, dósent við Háskóla Íslands, og höfundur efnis um einhverfu og mataræði og um matvendni barna er dr. Anna Sigríður Ólafsdóttir, dósent við Háskóla Íslands.

Megin niðurstöður eru þær að fjölbreyttur og næringarríkur matur í samræmi við opinberar ráðleggingar um mataræði og reglulegir matmálstímar stuðla að góðu næringarástandi sem er mikilvægt fyrir vöxt og þroska og vellíðan allra barna.

"Meðferð við ADHD og einhverfu með sérstöku mataræði er ekki ráðlögð nema þegar grunur er um óþol og ætti þá að vera í samráði við næringarráðgjafa og aðra fagaðila. Hafa ber í huga að börn á einhverfurófi eru oft á tíðum matvandari en önnur börn og geta átt erfitt með að borða fjölbreyttan mat og er því sérstaklega mikilvægt að styðja við fjölbreytt fæðuval hjá þeim börnum og stuðla þannig að góðu næringarástandi þeirra," segir í frétt landlæknis.

Með fréttinni eru birt skjöl til frekari upplýsingar.