TÍA haldin í Vestmannaeyjum

Þátttakendur á námskeiðinu
Þátttakendur á námskeiðinu

Þriðjudaginn 3. maí og miðvikudaginn 4. maí buðu ADHD Eyjar upp á námskeiðið TÍA fyrir alla þá sem koma að börnum í frístundum hér í Vestmannaeyjum.

Námskeiðið var í höndum Bóasar Valdórssonar sálfræðings. Fyrir börn með ADHD er afskaplega mikilvægt að þekking á ADHD, bæði styrkleikum og veikleikum nái yfir til allra sem vinna með þau.  Að taka þátt í íþróttum og frístundastarfi eflir félagsfærni og sjálfstraust barna þegar það gengur vel. Það er því nauðsynlegt að gefa hverju barni möguleika á að taka þátt í íþróttum og tómstundastarfi og leggja sig fram við að láta það ganga vel. Þetta námskeið var liður í því að efla fræðslu, gefa öllum verkfæri í hendurnar til að takast á við fjölbreyttan barnahóp og auka líkur á að ADHD börn fái jákvæða upplifun af því að taka þátt með jafnöldrum sínum. En aðferðirnar sem Bóas ræddi um á námskeiðinu munu svo eflaust gagnast fleiri börnum en bara ADHD börnum.

Þátttakan á námskeiðinu var góð, en samtals sátu 65 manns námskeiðið, þjálfarar, skólaliðar, stuðningar og starfsfólk frístundaversins og íþróttahússins. Umræður voru áhugaverðar og á spjallfundi á þriðjudagskvöldið fengum við einnig að heyra hlið nokkurra foreldra og augljóst að oft er verið að gera vel, en það má einnig gera betur. Umræðan er alltaf af því góða og mátti heyra á þeim að oft var mesta vandamálið samskiptaleysi.  Nauðsynlegt er fyrir foreldra barna með ADHD og aðrar raskanir að mynda samband við þjálfara/frístundaleiðtoga barnsins síns þannig að hægt sé að viðhalda opnum samskiptum á milli skóla, heimilis og frístunda. Þannig geta allir þeir sem koma að barninu í daglegu starfi vitað um röskun barnsins, hvað virkar og hvað virkar ekki. Með því að hafa góð samskipti má því oft koma í veg fyrir óþarfa árekstra og auðvelda barninu að taka þátt á sínum forsendum.

Námskeiðið var öllum þeim sem tóku þátt í því að kostnaðar lausu og erum við afskaplega þakklát öllum þeim sem sýndu því áhuga, þeim sem mættu og þeim sem studdu okkur og hjálpuðu til við að gera þetta að veruleika.

Þetta námskeið hefði aldrei verið mögulegt nema með stuðning frá einstaklingum og fyrirtækjum í bænum sem hafa styrkt okkur með ýmsum hætti síðustu ár. Það fyllir okkur stolti að tilheyra bæjarfélagi sem styður vel við fræðslu til allra sem koma að málefnum barnanna okkar og er annt um þeirra framtíð og líðan. Þetta viðhorf er algerlega í takti við þá stefnu sveitarfélagsins að bregðast við þeim áskorunum sem hvert og eitt barn stendur frammi fyrir og er bærinn í forystu á landsvísu hvað það varðar  með snemmtækri íhlutun í grunn og leikskólum og góðri þjónustu við barnafjölskyldur.

Okkur langaði því að þakka Vestmannaeyjabæ, Oddfellowstúkunni Vilborg og saumakonunum Sigurlaugu og Erlu fyrir myndarlega styrki sem gerðu okkur kleift að gera þetta að veruleika.

Kiwanis styrkti okkur í formi afnota af húsnæði en þeir lánuðu okkur húsnæði sitt fyrir bæði námskeiðin og spjallfundinn sem haldinn var þar um kvöldið.

Kalli Kriss styrkti okkur um drykki og bakaríin okkar sáu um veitingar. Þau skiptu því bróðurlega á sig, Eyjabakarí var með brauðmeti á fyrra námskeiði og sætabrauð á því seinna. Vigtin var síðan með sætabrauð á fyrra námskeiðinu og brauðmeti á því seinna.

Umsagnir eftir námskeiðið:

„Ég tók þátt í námskeiðinu TÍA eftir boð frá vinnustað um að taka þátt. Námskeiðið mun nýtast mér á mjög jákvæðan þátt í starfi mínu í félagsmiðstöð Vestmannaeyja. Einhverjir af krökkunum þar eru með ADHD og ég get eftir námskeiðið skilið þau betur og stutt betur við þau í félagsstarfinu. Ég get gefið þeim leiðsögn og verkfæri sem nýtast þeim innan og utan félagsmiðstöðvarinnar, það eru atriði sem ég lærði hvorug tveggja á námskeiðinu“  

Gugga, starfsmaður félagsmiðstöðvar

„Minn vinnuveitandi, ÍBV, boðaði sitt starfsfólk á þetta námskeið. Ég tel að námskeiðið eigi eftir að nýtast vel í starfi.  Var gagnlegt að sjá hinar ýmsu tölfræðilegu hliðar málsins sem og að hulunni var svipt af nokkrum mítum sem hafa verið í umræðunni. T.a.m ástæður fyrir lyfjum og hvaða langvarandi áhrif þau hafa á einstaklingin. Svo var sviðið opnað og gagnlegar umræður fóru í gang undir handleiðslu Bóasar sem var helvíti flottur í gegnum allt námskeiði“ 

Kári Kristján Kristjánsson, yfirþjálfari, handboltamaður og ungfrú Snæfells- og Hnappadalssýsla