Fréttatíminn: Hjartahlýr rokkprestur - Sigurvin Lárus Jónsson stjórnarmaður í ADHD

Viðtal Fréttatímans við Sigurvin Lárus Jónsson, stjórnarmann í ADHD 18. október 2013

„Mér vitanlega er ég eini presturinn innan Þjóðkirkjunnar sem hlustar á dauðarokk. Ég hef sérstaka unun af sænsku dauðarokki,“ segir séra Sigurvin Lárus Jónsson og bætir kómískur við: „Það er miklu betra en norskt dauðarokk.“ Mér er samt ljóst að hann er ekkert að grínast. „Ég hlustaði mikið á þungarokk sem unglingur, hlustaði á Metallica, Sepultura og Slayer. Það er samt ekki fyrr en á seinni árum sem ég kynntist dauðarokki og þá sérstaklega sænsku hljómsveitinni Opeth að ég heillaðist af því.“

Sigurvin hefur sinnt æskulýðsstarfi við Neskirkju frá árinu 2006 og eftir prestvígslu árið 2010 fékk hann þar stöðu æskulýðsprests. Hann er afar vinsæll meðal barna og unglinga sem sækja kirkjuna og þykir hafa rifið æskulýðsstarfið mikið upp. Það er kannski ekki að undra. Sigurvin hefur glaðlega og hlýja nærveru og strákslegt útlit þegar hann er ekki í hempunni. „Unglingunum finnst mjög svalt að presturinn þeirra hlusti á dauðarokk. Ég hef í raun mjög fjölbreyttan tónlistarsmekk og nota tónlist til að næra mig og til að slaka á. Það er mikil tilfinning í tónlist og oft mikil reiði í rokkinu. Ég er ekki reiður maður en þegar ég er ákveðnu skapi veit ég ekkert betra en að finna kraftinn í dauðarokkinu.“

Hann reynir að sannfæra mig um að hann sé bara ósköp venjulegur maður og því til staðfestingar bendir hann á ósköp venjulegt fjölskyldulíf sitt. „Ég á tvo yndislega stráka, 8 og 10 ára. Ég er fráskilinn en er í góðum samskiptum við mína fyrrverandi konu og við búum nálægt hvort öðru. Ég á síðan yndislega sambýliskonu, Rakel Brynjólfsdóttur, sem er formaður Kristilegrar skólahreyfingar og ég er mjög stoltur af henni.“

Gagnrýndi Hátíð vonar

Í fjarveru séra Bjarna Karlssonar er Sigurvin þennan veturinn settur prestur í Laugarneskirkju og hefur hann allavega sýnt og sannað að hann er enginn venjulegur prestur. Framganga hans í tengslum við hina umdeildu Hátíð Vonar vakti mikla athygli en hann boðaði til sérstakrar Regnbogamessu þá sömu helgi í Laugarneskirkju þar sem regnbogafáni var dreginn að húni. Sigurvin mótmælti opinberlega guðfræði Franklins Graham, sem hann segir ala á fordómum í garð samkynhneigðra, að hún sé amerísk bókstafshyggja sem sé íslensku þjóðkirkjunni framandi á alla vegu. „Ég var mjög afgerandi í því að við ættum ekkert að vera að púkka upp á þennan mann,“ segir Sigurvin en sem kunnugt er hélt biskup Íslands erindi á hátíðinni. „Kirkjan á að vera opin öllum og við eigum öll að sitja við sama borð. Það er í raun býsna róttækt því í samfélaginu erum við alltaf að flokka og skilgreina fólk, út frá menntun, út frá starfi, fegurð, gæði bílsins sem þú ekur á eða fötunum sem þú gengur í. Við erum alltaf að flokka og greina. Jesús er ítrekað í guðspjöllunum að rjúfa félagsleg landamæri, að hneyksla og ögra og segja: Við erum öll jöfn. Það er það sem ég hef reynt að gera. Kannski ekki að heyksla og ögra heldur segja að við sögum öll jöfn. Mér var bara algjörlega misboðið yfir þessari hátíð. Við gleymum því stundum í umræðunni um trúfrelsi og skoðanafrelsi, sem stundum virðist snúast um rétt til að berja á minnihlutahópum, að þarna er um að ræða raunverulegar manneskjur.“ Hann segir Regnbogamessuna hafa heppnast afskaplega vel. „Hér var ekki þurrt auga í salnum og fólk úr Hinsegin kórnum hefur komið að máli við okkur og þakkað okkur fyrir að orða sársaukann. Það er auðvitað meiðandi að stærstu og áhrifamestu trúarbrögð samtímans skuli velja að berja á samkynhneigðum. Jesú bannar okkur að skilja, það er klárt bann við hjónaskilnuðum í Biblíunni en kristnir í samtímanum eru ekki að ofsækja eða halda uppi ofbeldisfullri orðræðu gegn fráskildum. Það hafa samt vissulega verið miklar framfarir og margar kirkjudeildir eru komnar en lengra en við. Sums staðar eru jafnvel samkynheigðir biskupar sem er yndislegt en þessi meiður bókstafshyggjunnar birtist hjá of mörgum.“

Glímdi við depurð

Það lá sannarlega ekki alltaf beinast við að Sigurvin yrði prestur. „Ef einhver hefði sagt mér þegar ég var unglingur að ég ætti eftir að verða prestur hefði ég líklegast hlegið,“ segir Sigurvin Lárus Jónsson þjóðkirkjuprestur. „Ég hafði þó sem barn mjög jákvæða mynd af kirkjunni. Hjalti Guðmundsson, fyrrverandi dómkirkjuprestur, var góður vinur föður míns og mér er svo minnisstætt hvernig hann mætti okkur börnunum í fermingarfræðslunni. Ég man varla orð af því sem hann sagði en ég gleymi aldrei hvernig hann mætti okkur og hvað hann sýndi okkur mikinn kærleika. Það virkilega sat í mér. Á unglingsárunum var ég mjög týndur, glímdi við depurð, misnotaði áfengi og gekk mjög illa að fóta mig. Rétt rúmlega tvítugur fór ég í áfengismeðferð og kynntist í kjölfarið góðu 12 spora fólki sem kenndi mér að iðka trú. Þetta fólk hafði engan áhuga á að ræða við mig um guðfræði eða skoðanir mínar á trúarbrögðum heldur einfaldlega kenndi mér að biðja, sitja í kyrrð og hjálpa öðrum. Ég varð fyrir sterkri trúarlegri reynslu við að vinna 12 sporin, þessi reynsla að upplifa sig ekki einan. Ég er sannfærður um að Guð er til, að hann er hér með okkur og að til hans megum við leita.“ Eftir að Sigurvin varð edrú skráði hann sig í öldungadeild, lauk stúdentsprófi og skráði sig í guðfræði. „Ég sá þetta sem vettvang til að hjálpa. Ég byrjaði í guðfræði 2001 og fer þá strax að gefa vinnu mína í Laugarneskirkju. Við Bjarni byrjuðum þá að vinna saman og hann sagði snemma við mig að guðfræði væri ekki stunduð einungis bak við skrifborð. Þarna átti hann við að þrátt fyrir ólíkar kenningar og áherslur þá snýst þetta allt saman um fólk. Ég er ekki sérfræðingur í guðlegum málefnum. Ég segi oft að ég þekki Guð en ég skil hann ekkert meira en aðrir.“ Sigurvin veit að hann fann sína réttu braut og er þakklátur fyrir að fá að sinna preststarfinu. „Ég elska þetta starf fram í fingurgómana. Prestinum er boðið inn í helgustu vé fjölskyldunnar. Þegar það fæðist barn er kallaður til prestur og hann fær að vera hluti af fjölskyldunni skamma stund. Á erfiðustu tímunum fáum við að ganga með fólki sem er að kveðja. Það er miserfitt, stundum nálgast það að vera skemmtilegt en stundum er það alveg skelfilegt. Þegar fólk glímir við mikla sorg þá meiða öll orð. Presturinn er þá sá sem er til staðar og heldur haus. Skemmtilegast finnst mér að upplifa dýrmætustu stundir fjölskyldunnar, jákvæðar og neikvæðar, þegar manni er boðið inn til að gera gagn. Þetta starf snýst um fólk og fólk er uppáhalds – að vinna með fólki og ganga með því.“

Kirkjan sjálfri sér verst

Þegar Þjóðkirkjuna ber á góma í almennri umræðu virðast flestir hafa sterkar skoðanir á henni, hvort sem þeir tilheyra henni eða ekki. „Þjóðkirkjan er þverstæðukennd stofnun. Hún nýtur trausts í samfélaginu hefur haft mikil völd en það er sem betur fer alltaf þannig að þegar kirkjan ætlar að beita völdum þá grípur íslenskt samfélag inn í og tekur af henni þau völd sem hún á ekki að hafa.“ Sigurvin segir sér ekki fært að tjá sig um einstök dæmi. „Við skulum bara hafa þetta svona almennt því þetta á við svo margt.“ Enn berast fregnir um úrsagnir úr Þjóðkirkjunni og telur Sigurvin að margar ástæður liggi þar að baki. „Ég held að kirkjan hafi reynst sjálfri sér verst. Í hvert skipti sem samfélagið upplifir að kirkjan hafi brugðist hlutverki sínu þá stendur fólk upp og segir sig úr henni. Við höfum séð það í þessum erfiðu málum eins og til að mynda Biskupsmálinu. Ég er ekki viss um að gjörðir Ólafs Skúlasonar hafi haft úrslitaáhrif um reiðina í samfélaginu heldur vegna þess að Kirkjan reyndi að breiða yfir og fela það sem hafði gerst í stað þess að takast á við það opinskátt. Ég hef trú á kirkjunni og á að sátt muni nást um samskipti hennar við opinberar stofnanir með auknum faglegum vinnubrögðum af hálfu kirkjunnar og skýrum ramma.“

Frjálslyndir múslimar

Síðasta vetur var enn á ný rætt um réttmæti leikskólaheimsókna í kirkjur og gagnrýndi ósátt móðir að sonur hennar fengi engan valkost í leikskólanum þegar hin börnin heimsóttu Neskirkju þar sem Sigurvin starfaði þá. „Kirkjan hefur stundum litið á það sem sjálfsagt mál að hún sé í hinu opinbera rými en ég tel að það þurfi skýrar leikreglur. Hvað þessar leikskólaheimsóknir í fyrra varðar þá átti ég aldrei samskipti við móðurina en gengið hafði verið frá því milli leikskólans og kirkjunnar að þar ríkti fullkomið traust. Við kröfðumst þess ekki að börnin færu með faðirvorið eða signdu sig í kirkjunni. Það eru alltaf börn í hópnum sem koma frá öðrum hefðum og við þurfum að virða það. Það er síðan alltaf ákveðinn hópur foreldra sem vill ekki að börnin sín fari í kirkju og það er bara eðlileg krafa. Það má ekki jaðarsetja þau börn og í boði þarf að vera mannsæmandi valkostur sem viðheldur reisn allra. Á meðan leikreglurnar eru ekki skýrar eru alltaf hætta á að fólk stígi á einhverjar tær. Ég held að það jákvæða sem kemur út úr þessari umræðu sé að leikreglurnar skýrast, sérstaklega þegar kemur að börnum, því dýrmætasta sem við eigum. Það gerir enginn málamiðlanir með börnin sín.“ Raunar hafa sumir foreldrar komið honum skemmtilega á óvart. „Innflytjendur af öðrum trúarbrögðum en kristni – búddistar, múslimar og kaþólikkar – hafa margir hverjir verið ófeimnir við að senda börnin sín í barnastarfið. Þeir vilja þá einfaldlega að barnið þeirra sé í trúarlegu starfi og að kristin kirkja sé stofnun í samfélaginu sem nýtur trausts. Þetta hefur komið mér á óvart. Ímyndin af múslimum er að þeir séu allir kassalaga og bókstafstrúar en mín reynsla af starfinu í Neskirkju er að múslimar sumir hverjir séu jafnvel opnari og frjálslyndari en kristnir.“

Karllæg Biblía

Sigurvin myndi þó sannarlega teljast frjálslyndur. Auk þess að halda Regnbogamessuna, stóð hann nýverið fyrir Geðveikri messu í Laugarneskirkju og þar sagði Heiðar Ingi Svavarsson, sem einnig var í viðtali hér í Fréttatímanum, frá glímu sinni við geðhvörf. Síðasta sunnudag ræddi Sigurvin síðan um ástarsögur. „Ég talaði um hvernig við segjum ástarsögur í samtímanum og hvernig klámmenning og raunveruleikasjónvarp hafa áhrif á skynjun okkar. Við erum sköpuð til tengsla en svo margt í menningunni okkar bendir til að við séum með brotin tengsl. Ég sagði ástarsögu úr Rutarbók úr Gamla testamentinu sem er svo fullkomlega róttæk því hún ögrar gildum þess tíma. Biblían á það til að vera heldur karllæg, svo við tölum bara hreint út, og þessi litla saga er falin milli Dómarabókar og Samúelsbóka sem eru karllægar sögur af valdastétt Ísraels. Þetta er sagan af Rut, móabískri konu, en þær eru í öðrum bókum testamentisins taldar lauslátar og þar að auki voru lög gegn því að giftast útlendingum, sérstaklega konum. Seinni tíma fræðimenn telja að þessi bók hafi einmitt verið skrifuð af konu. Sagan fjallar um konur sem glíma við fátækt og hungursneyð og tengsl þeirra við samfélagið sitt. Þetta endar svo með því að Rut giftist, verður formóðir Davíðs konungs og síðar Jesú. Hún fær því heiðurssess þó hún passi hvergi inn í. Það rímar kannski við þessa guðfræði að fá heiðurssess þó maður passi hvergi inn í.“

Sonurinn með ADHD

Sigurvin leggur áherslu á að guðfræðin og erindi kirkjunnar þurfi að mótast af raunverulegum aðstæðum fólks. Næsta sunnudag verður messan tileinkuð ADHD. Það hýrnar yfir Sigurvini að segja frá henni. „Við ætlum að greina Jesú með ADHD. Við ætlum að senda út fréttatilkynningu þar sem við segjum frá því að Jesú hafi verið afgerandi ofvirkur og hvatvís með snert af athyglisbresti. Guðsþjónustan verður mjög óvenjulega og við ætlum að vaða úr einum sálmi í annan eins og hvatvísir og ofvirkir gera. Auðvitað er þetta til gamans gert en það fellur inn í guðfræðihefð að leita að þáttum í fari Jesú sem maður tengir við. Það hafa konur gert, það hafa samkynhneigðir gert og það hafa svartir gert. Að þessu sinni ætlum við að lyfta upp málefnum ADHD-samtakanna þar sem ég er raunar gjaldkeri. Sonur minn er með ADHD og ég hef þurft að standa vörð um hann í skólakerfinu. Við ætlum að mæta fordómum í samfélaginu en fullorðnir með athyglisbrest eru sérstaklega útsettir fyrir þeim því lyfin sem hjálpa þeim eru einnig notuð á fíkniefnamarkaðnum. Skólakerfið gerir líka oft svolítið ráð fyrir að allir séu normal. En þetta er sumsé innlegg kirkjunnar til að vekja athygli á góðum málefnum, að halda þessar óhefðbundu messur og opna dyr kirkjunnar fyrir öllum. Við erum jú öll jöfn.“

Erla Hlynsdóttir
erla@frettatiminn.is

Vefur Fréttatímans