Hlauptu til styrktar ADHD samtökunum - Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka

Nú þegar hafa nokkrir hlauparar skráð sig til þátttöku sem ætla að hlaupa til styrktar ADHD samtökunum sem fagna 30 ára afmæli í ár en samtökin voru stofnuð þann 7. apríl 1988. Við erum þakklát öllum þeim sem hafa skráð sig til leiks og hvetjum sem flesta til að skrá sig og heita á hlauparana.

Markmið ADHD samtakanna er að börn og fullorðnir með athyglisbrest, ofvirkni og skyldar raskanir mæti skilningi alls staðar í samfélaginu og fái tilskylda þjónustu. Samtökin starfa á grundvelli faglegs samstarfs við opinbera fagaðila og félagasamtök og telja um 2.600 félagsmenn.

Samtökin halda meðal annars námskeið fyrir börn og unglinga með ADHD ásamt því að standa fyrir námskeiðum fyrir kennara, foreldra barna og unglinga með ADHD. Þá standa standa samtökin einnig reglulega fyrir fræðslufyrirlestrum og bjóða upp á spjallfundi sem eru ókeypis og öllum opnir. ADHD samtökin standa einnig fyrir útgáfu á bæklingum, bókum og öðru fræðsluefni.

Í haust munu samtökin taka þátt í evrópskum vitundarmánuði, standa fyrir alþjóðlegri afmælisráðstefnu ásamt fleiru.

Áætlað er að um 6.000 börn og 10.000 fullorðnir séu með ADHD á Íslandi. 

Hægt er að skrá sig til þátttöku í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka hér: https://www.rmi.is/