Hver króna skilar sér margfalt til baka

Hver króna sem varið er í að greina og meðhöndla ADHD hjá fullorðnum, skilar sér margfalt til baka á nær öllum sviðum samfélagsins, segir Ari Tuckman, prófessor í sálfræði. Ari segir að ADHD geti reynst samfélaginu mjög kostnaðarsamt ef ekkert er að gert, m.a. vegna fylgikvilla röskunarinnar. Þar megi nefna aukna tíðni atvinnuleysis, lægri laun og fíkniefnavanda, svo fátt eitt sé nefnt. Það að meðhöndla ekki ADHD hjá fullorðnum leiði til umtalsvert meiri útgjalda fyrir ríki og sveitarfélög, viðkomandi einstaklingar þurfi oftar en ekki á dýrari úrræðum í heilbrigðis- og félagslega kerfinu að halda og þeim sé hættara við að sýna andfélagslega hegðun.

Ari Tuckman heimsótti ADHD samtökin á dögunum og var viðstaddur útgáfu íslenskrar þýðingar bókar sinnar, "Understand your brain - Get more done" sem heitir í íslenskri þýðingu "Leyndardómar heilans - Láttu verkin tala". Þá flutti Ari fyrirlestur á vegum ADHD samtakanna á Grand Hóteli um ADHD og maka og farsæld í samböndum.

Í viðtali á vefsíðu ADHD samtakanna segir Ari mjög mikilvægt að verja fjármunum í greiningu og meðhöndlun ADHD hjá fullorðnum. Afstaða stjórnmálamanna og lágar fjárveitingar til málaflokksins skýrist ekki af viljaskorti heldur fyrst og síðast þekkingarleysi. Það sé ekkert séríslenskt fyrirbæri. Ari segir öll rök hníga að því að verja auknum fjármunum í málaflokkinn og hvetur stjórnmálamenn til að líta á það sem langtímafjárfestingu og mikilvægt skref í átt að betra samfélagi.

Viðtalið við Dr. Ara Tuckman má nálgast á forsíðu vefs ADHD samtakanna og HÉR