Jón Gnarr og Vilhjálmur Hjálmarsson um Lífið með ADHD

Jón Gnarr og Vilhjálmur í hlaðvarpinu - Lífið með ADHD.
Jón Gnarr og Vilhjálmur í hlaðvarpinu - Lífið með ADHD.

Lífið með ADHD er nýtt hlaðvarp ADHD samtakanna, sem reglulega mun birta viðtalsþætti á ruv.is og í öllum helstu hlaðvarpsveitum. Í öðrum þætti eru viðmælendurnir tveir. Annar er stjórnarmaður ADHD samtakanna og leikarinn Vilhjálmur Hjálmarsson. Sá síðari á það sameiginlegt með Vilhjálmi að vera leikari (og með ADHD) en það er fyrrum Borgarstjóri og þúsundþjalasmiðurinn Jón Gnarr, hann segir einlæglega frá skólagöngu sinni og síðan hvernig hann meðhöndlar sitt ADHD í dag.

Í frétt RUV um þáttinn kemur m.a. fram að Jón Gnarr sér ýmsar jákvæðar hliðar á ADHD og i hans tilfelli hafi lyf dregið niður eina þeirra, húmorinn:

ADHD annað orð yfir listamann

En fólk með ADHD býr oft yfir hæfileikum umfram aðra, vegna röskunarinnar. Það hefur Jón lært og hann segir að ADHD sé stór hluti af því sem gerir hann að þeim leikara, skemmtikrafti og rithöfundi sem hann er. „Ég segi með ADHD-fólk að mér finnst það annað orð yfir listamann. Fólk sem er skilgreint með ADHD hefur oft gríðarlega mikla hæfileika sem skólakerfið metur mjög lítils.“

Og ómyrkur í máli um skólakerfið. Þótt hann hafi átt erfitt með bóklegt nám hefði hann haft bæði unun og gagn af því sem hann fékk aldrei að læra. Margt af því er hann viss um að hefði reynst bæði honum og öðrum nemendum betur en annað í framtíðinni. „Ég hef oft talað um þetta, eins og með smíði. Mig langaði að læra smíði, vildi smíða kofa og á tímabili vildi ég smíða mér sverð og skjöld en ég lærði aldrei að negla nagla,“ segir hann. Í smíðatímum, sem voru takmarkaðir, lærði hann að smíða dýr úr krossviði og merkja með brennipenna en hann segist ekki hafa lært neitt gagnlegt að ráði. „Mér fannst svakalega gaman þegar smíðavellirnir komu og mig langaði að smíða kofa en ég kunni það ekki.“

Margt hefur þokast í betri átt í þessum efnum eftir því sem Jón segir en betur má ef duga skal. „Dóttir mín sem er 27 ára er lesblind og þetta er sama lesblinda og ég er með. Það hefur verið full vinna að sjá til þess að hún fái þann stuðning sem hún á rétt á að fá," segir hann. „Við höfum barist fyrir því að dóttir mín fengi aðstoð og núna er hún að klára nám í háskóla. Það hefur mikið vatn runnið til sjávar en það mætti renna hraðar.“

Ekki síður mikilvægt að negla nagla en læra dönsku

Hann nefnir til dæmis að það væri eðlilegast, og myndi til dæmis gagnast mörgum með ADHD, ef meiri áhersla væri lögð á listnám í skólakerfinu. „Mig dreymdi um það sem krakki að fara í listaskóla þar sem maður lærir að negla nagla og mála mynd. Hvernig maður á að blanda og hvernig pensil maður á að nota,“ segir hann. Einnig finnst honum brýnt að meiri áhersla sé lögð á iðngreinar. „Ég held það sé ekki síður mikilvægt að læra að negla nagla en að læra dönsku," segir hann og hlær. „Og praktískir hlutir eins og að reka fyrirtæki, hvernig á að gera það? Ef við viljum að markmið skólans sé að búa okkur undir lífið þá ættum við að gera þetta.“

Í umræðunni um raskanir af ýmsu tagi er oft deilt um lyfjagjafir. Sjálfur hefur Jón prófað ýmis lyf við ofvirkni, þunglyndi og kvíða en ekkert hefur gagnast að hans mati. „Ég hef aldrei upplifað jákvæð áhrif af þessum lyfjum og ekki viljað halda áfram á þeim," segir hann. „Ég hef valið mér að lifa án lyfja. Ég ber fulla virðingu fyrir því að fólk noti lyf en mér finnst vanta umræðu um þá sem eru með ADHD en kjósa að nota ekki lyf.“

Taugaröskunin hluti af þeirri grein sem hann valdi sér

Á tímabili varð hann var við mikla fordóma fyrir lyfjunum og nytsemi þeirra. „Þetta var kallað dóp og sagt það væri verið að dópa börn en mér finnst til dæmis að þegar ég nota lyfin verð ég skarpari og með meiri athygli en ég missi svolítið húmor," segir hann. „Þessi taugaröskun mín er svo mikill hluti af því sem ég hef valið mér."

Hann segir að sig hafi lengi langað að opna á umræðuna um lyfjagjafir og tjá sig um sína reynslu af því að velja lífið án lyfjanna. „Ég er með alvarlegt mígreni og þarf að vera á lyfjameðferð við því. Það er líka ástæðan fyrir því að ég vil ekki taka mikið magn af lyfjum. Persónulegar aðstæður fólks eru svo mismunandi."

 

Þáttinn í heild má nálgast hér að neðan:

Lífið með ADHD - Jón Gnarr og Vilhjálmur Hjálmarsson  Vilhjálmur Hjálmarsson og Jón Gnarr

 

 

 

Lífið með ADHD, hlaðvarp ADHD samtakanna er  í umsjón Karitasar Hörpu Davíðsdóttur og mun hún fá til sín góða gesti í 40-50 mínútna spjall, sem miðla af reynslu sinni og þekkingu, ekki síst af lífinu með ADHD. Gleði, sorgir, sigrar og óborganlegar lífsreynslusögur í bland við fróðleik um ADHD. Allt sem þú hélst að þú vissir um ADHD, en vissir í raun ekki...