Sumarbúðir fyrir 10-12 ára stelpur og stráka með ADHD

Skógarmenn KFUM í samstarfi við ADHD samtökin bjóða líkt og fyrri ár, upp á sumarbúðir fyrir 10-12 ára drengi með athyglisbrest, ofvirkni og skyldar raskanir.

Þá bjóða sumarbúðir KFUM og KFUK í Kaldárseli upp á fimm daga dvöl í sumarbúðunum fyrir 10-12 ára stúlkur með athyglisbrest, ofvirkni og skyldar raskanir. Flokkurinn nefnist Stelpur í stuði. skráning stendur yfir í báða flokka.

Markmiðið með "Gauraflokknum" og "Stelpur í stuði" er að bjóða þessa hópa drengja og stúlkna velkomna í sumarbúðir, þar sem þörfum þeirra verður mætt á skilningsríkan og uppbyggilegan hátt.

 

Nánari upplýsingar og skráning í "Gauraflokk"

Nánari upplýsingar og skráning í "Stelpur í stuði"


Aðstaðan í Vatnaskógi
Vatnaskógur er frábær staður fyrir kraftmikla og vaska drengi. Þar eru bátar, íþróttahús, fótboltavellir, frjálsíþróttasvæði, frábærar gönguleiðir, baðströnd, ævintýralegur skógur, bókasafn ofl. Dagskráin í Vatnaskógi er fjölbreytt og samanstendur af frjálsum dagskrártilboðum, kvöldvökum, kristinni fræðslu, söng, mikilli útiveru og reglulegum matartímum. Dagsskipulag Vatnaskógar er afar heppilegt fyrir drengi með ADHD vegna þess að ramminn er skýr, þeir hafa sitt sæti við sitt borð með sinn foringja. Hvert borð er í sama svefnsal og herbergjum. Matartímar eru mjög reglulegir. Fjölmörg tilboð um viðfangsefni sem mæta ólíkum áhugasviðum. Mun fleiri starfsmenn verða í þessum flokk en í hefðbundnum flokkum og því auðveldara að mæta hverjum og einum á hans forsendum.

 

Aðstaðan í Kaldárseli
Kaldársel er frábær staður fyrir hressar og skemmtilegar stelpur. Ævintýralegt umhverfið býður upp á óteljandi möguleika til útivistar auk þess sem gaman er að leika inni í íþróttasalnum, spila borðspil, föndra, vinna að listsköpun og margt fleira. Dagsskipulag Kaldársels er afar heppilegt fyrir stúlkur með ADHD vegna þess að ramminn er skýr, þær vita nákvæmlega hvað er að gerast hverju sinni og hvað gerist næst. Dagskráin er skýr og sýnileg alla vikuna. Hvert herbergi hefur tvo kvenkyns foringja sem koma á hverju kvöldi inn til stúlknanna og fara yfir daginn, biðja kvöldbænirnar með þeim og koma þeim í ró. Matartímar eru reglulegir og samanstanda af hollum og ljúffengum máltíðum. Á dagskránni eru fjölmörg tilboð um viðfangsefni sem mæta ólíkum áhugasviðum. Mun fleiri starfsmenn eru í þessum flokk en í hefðbundnum flokkum auk fagteymis sem kemur að öllum þáttum dvalarinnar og því auðveldara að mæta hverri og einni stúlku á hennar forsendum.

Umsóknir
Fyrirkomulag á skráningu í Gauraflokk í Vatnaskógi og Stelpur í stuði í Kaldárseli er þannig:

  1. Sótt er um dvöl á heimasíðu KFUM og KFUK. Farið verður yfir umsóknir í þeirri röð sem þær berast og með hliðsjón af markhópi Gauraflokks. Öllum umsóknum verður svarað.
  2. Forsvarsmenn flokksins yfirfara umsóknir og síðan er haft samband við foreldra þar sem þeim er tilkynnt hvort barnið þeirra kemst í flokkinn eða ekki.
  3. Barnið skráð í flokkinn.

Gert er ráð fyrir að taka á móti 40 drengjum í Gauraflokk og 20 stúlkum í Stelpur í stuði.

Nánari upplýsingar og skráning í "Gauraflokk"

Nánari upplýsingar og skráning í "Stelpur í stuði"


Vefur KFUM

Senda póst til ADHD samtakanna