Kröfuganga 1. maí - Burt með fordóma

ADHD samtökin hvetja félagsmenn sína til að fjölmenna í kröfugöngu næstkomandi fimmtudag, 1. maí. Í ár hefur Öryrkjabandalag Íslands, sem ADHD samtökin eru aðili að, ákveðið að setja baráttuna um fordómalaust samfélag – betra samfélag fyrir alla á oddinn.

Ætlunin er að nýta þá jákvæðu tóna sem eru í Eurovisionlagi Pollapönkaranna þar sem í textanum segir; „Burt með fordóma“.
Með því að uppræta fordóma í samfélaginu fáum við betri skilning og stuðning við okkar baráttumál. Fordómalaust samfélag hlýtur að vera samfélag mannréttinda og velferðar þar sem fólk nýtur skilnings og stuðnings á alla vegu.

Gönguhópur ÖBÍ og aðildarfélaga verður litríkur þetta árið og en ÖBÍ hyggst gefa öllu göngufólki „buff“ (efnisstrokk til að hafa á höfði eða um háls).

Buffið verður með áletrun og marglitum táknmyndum, meðal annars þeim sem sjást hér að ofan. Myndirnar vísa til fjölbreytileika samfélagsins og minna á að fólk er allskonar, þar á meðal fatlað fólk.

Áletrunin á buffinu segir „Burt með fordóma“ og „Betra samfélag“.

Þá hefur ÖBÍ einnig látið útbúa forgönguborða sem er um 4 metrar á breidd og með sömu myndum og áletrun og buffið. Auk þess verða öll aðildarfélögin þar upptalin. Forgönguborðinn verður borinn fremst í okkar gönguhópi.

ADHD samtökin hvetja félagsmenn til að fjölmenna í gönguna.

Hvar: Á planinu við Arionbanka við Hlemm.
Hverjir: Allir sem vilja fordómalaust og betra samfélag.
Klukkan: 13 ætlum við að hittast en gangan hefst kl. 13:30.
Hvert: Niður Laugaveginn, út Bankastrætið, Austurstrætið og að Ingólfstorgi þar sem formleg dagskrá hefst kl. 14:10.
Styttri leið: Þeir sem vilja stytta sér leið geta hist við klukkuna á Lækjartorgi og slegist í hópinn þegar hann nálgast.

Gerum daginn góðan og fáum fjölskyldu og vini til þátttöku.
Saman erum við sterkari!