Lífið á eyjunni

Skjábrot úr myndinni.
Skjábrot úr myndinni.

Lífið á eyjunni – framleidd af þeim Atla Óskari Fjalarssyni leikara og Viktori Sigurjónssyni kvikmyndagerðarmanni hlaut nýverið verðlaun á Innocenti kvikmyndahátíðinni en hátíðin sem er á vegum UNICEF, er ætlað að varpa ljósi á kvikmyndir sem fjalla um líf og upplifanir barna í heiminum.

Stuttmyndin fjallar um 12 ára strák með ADHD sem býr í litlum bæ úti á landi og á erfitt með að fóta sig félagslega sem og í skólanum. Hann glímir við mikla vanlíðan en dag einn kynnist hann strák sem flytur í bæinn, þeim verður vel til vina og tengjast náið í gegnum tónlistarsköpun.

Myndinni er m.a. ætlað að vekja athygli á geðheilbrigðismálum og einstaklingum sem passa ekki í kassann með tilheyrandi andlegri vanlíðan. Áhersla er lögð á mikilvægi þess að horft sé á styrkleika hvers og eins svo að einstaklingurinn nái að blómstra. Hún sýnir um leið fallega vináttu tveggja drengja auk þess að einblína á tilfinningar og hversu erfitt drengir eiga með að tjá líðan sína og biðja um hjálp. ADHD samtökin styrktu gerð stuttmyndarinnar og erum við mjög glöð að sjá þetta flotta verkefni fá svona góða viðurkenningu. Óskum við Atla Óskari Fjalarssyni og Viktori Sigurjónssyni innilega til hamingju með þennan frábæra árangur.

Stuttmyndina má nálgast í Sjónvarpi Símans Premium.