Ljósi varpað á stöðu ungmenna með ADHD

Málþing ADHD samtakanna, "Ferðalag í flughálku", fór fram í dag en það var liður í Alþjóðlegum ADHD vitundarmánuði. Markmiðið með málþinginu var að varpa ljósi á stöðu ungmenna með ADHD. Sólveig Ásgrímsdóttir, sálfræðingur segir mikilvægt að muna að hrósa, þar sem ungmenni með ADHD fái oft lítið annað en gagnrýni. Jóna Kristín Gunnarsdóttir, kennari við Borgarhólsskóla á Húsavík kynnti á málþinginu þróunarverkefni sem hún hefur unnið að frá árinu 2010 en það nefnist "Að beisla hugann" og er ætlað börnum og ungmennum með ADHD.

Auk þeirra flutti Margrét Gísladóttir, Dr. í geðhjúkrunarfræði erindi undir yfirskriftinni, "Fræðslu- og stuðningsmeðferð fyrir foreldra – Ávinningur af nýju úrræði. Anna Kristín Newton, sálfræðingur fjallaði um "spennusækni ungmenna með ADHD - Björgunaraðgerðir!", Drífa Björk Guðmundsdóttir, móðir ungmenna með ADHD sagði frá sinni reynslu, Bóas Valdórsson, sálfræðingur við Menntaskólann við Hamrahlíð fjallaði um sálfræðiþjónustu í framhaldsskólum og Valgeir Skagfjörð, leikari, markþjálfi og framhaldsskólakennari sagði frá starfsemi Fjölsmiðjunnar í erindi sem nefndist "Sjálfsefling í virkni".

Málþingið var vel sótt og fjallaði fréttastofa Stöðvar 2 um þingið í fréttum sínum í kvöld.

Frétt Stöðvar 2

Senda póst til ADHD samtakanna