Lyfjakaupendur geta dreift kostnaði í nýju kerfi

Sjúkratryggingar Íslands hafa boðið lyfsölum aðild að samningi um dreifingu lyfjakostnaðar vegna greiðsluerfiðleika. Samkvæmt honum munu einstaklingar sem eiga í erfiðleikum með að greiða lyf vegna lágra tekna eða óvænts lyfjakostnaðar geta dreift greiðslum.

Kostnaðardreifingin verður einstaklingum að kostnaðarlausu.

Nýtt greiðsluþátttökukerfi vegna kaupa á lyfjum tekur gildi þann 4. maí nk.

Rammasamningurinn er afrakstur viðræðna við fulltrúa lyfsala sem hafa bent á nauðsyn þess að dreifa lyfjakostnaði þeirra sem eiga í greiðsluerfiðleikum.

Hægt verður að dreifa lyfjakostnaði á 2-3 greiðslur í byrjun 12 mánaða greiðslutímabils (þ.e. lyfjakostnaði sem greiddur er áður en til þátttöku sjúkratrygginga kemur, sbr. viðmiðunarfjárhæðirnar 16.050 kr. fyrir börn, ungmenni, aldraða og öryrkja og 24.075 kr. fyrir aðra sjúkratryggða).

Kostnaði einstaklings umfram 8.000 kr. verður hægt að skipta á tvær greiðslur og kostnaði umfram 15.000 kr. verður hægt að skipta á þrjár greiðslur. Lágmarksgreiðsla verður aldrei lægri en 4.000 kr.

Ef ljóst þykir að einstaklingur muni bera háan kostnað á 12 mánaða tímabilinu og muni eiga rétt á 100% greiðsluþátttöku SÍ í lyfjum (viðmið er 48.150 kr. fyrir börn, ungmenni og lífeyrisþega og 69.416 kr. fyrir aðra) verður mögulegt að dreifa kostnaði niður á allt að tíu greiðslur.

Dæmi um greiðsludreifingu:

SMELLIÐ Á MYNDINA TIL AÐ SJÁ STÆRRI ÚTGÁFU

Samningurinn gildir um lyf sem eru með greiðsluþátttöku SÍ.

Áður en samningur um greiðsludreifingu verður gerður milli lyfsala og lyfjakaupanda þarf lyfsali að sækja um greiðsludreifingu og greiðsluþátttöku til Sjúkratrygg­inga Íslands. Lyfsölum sem gerast aðilar að rammasamningnum verður jafnframt heimilt að setja það skilyrði að sækja verði um dreifinguna á ákveðnum tíma, t.d. virka daga milli kl 9 og 12.

Lyfsalar geta gerst aðilar að rammasamningnum fram til 1. júlí 2013 og gildir hann til ársloka 2013 en þá verður ákvörðun tekin um framhald samningsins.

Sjá frétt á vef Sjúkratrygginga Íslands