Mamma Eyþórs Inga - Hann er einlægur og ljúfur

Eftirfarandi umfjöllun birtist á DV 21. maí 2013

"Hann er góðhjartaður. Hann er húmoristi með yndislega nærveru. Það er sama hvað gengur á, hann er alltaf með báða fætur á jörðinni. Hann er ótrúlega rólegur og yfirvegaður," segir Soffía Ósk Guðmundsdóttir, unnusta Eyþórs Inga.

"Hann er ofboðslega einlægur og ljúfur, hann Eyþór Ingi," segir Guðbjörg Stefánsdóttir móðir hans. "Hann á það til að vera utan við sig, hann er mikill sveimhugi þessi elska enda á hann við athyglisbrest að stríða."

Eyþór Ingi er fæddur árið 1989 og uppalinn á Dalvík. Að sögn var hann gott og meðfærilegt barn. Listrænir hæfileikar hans komu snemma í ljós, hann var farinn að leika og syngja þegar hann var eins og hálfs árs eða um leið og hann varð talandi.

"Ég var viss um það þegar hann var lítill strákur að hann myndi annað hvort helga sig leiklist eða tónlist. Ég hélt lengi að leiklistin yrði ofan á því ég gerði mér ekki grein fyrir því hvað hann hafði ofsalega sönghæfileika fyrr en hann lék Jesú í Jesus Christ Superstar, þá var hann 17 ára," segir Guðbjörg en í DV er að finna nærmynd af Eyþóri Inga þar sem rætt er við vini og fjölskyldu hans.