Móta þarf stefnu vegna sálfræðiþjónustu í framhaldsskólum

Bóas Valdórsson, sálfræðingur í MH /mynd-mbl.is
Bóas Valdórsson, sálfræðingur í MH /mynd-mbl.is

Nemendur í framhaldsskóla eru duglegir við að nýta sér sálfræðiþjónustu sem er í boði innan skólans. Þeir eru almennt opnir með að tjá sig um vandamálin sem þeir standa frammi fyrir og gera kröfu um að vera hamingjusamir. Hins vegar eru þeir undir miklu álagi og áreitið er mikið. Brýnt er að móta stefnu og skoða heildrænt hvernig sálfræðiþjónusta eigi að vera í framhaldsskólum.

Þetta kom fram í erindi Bóasar Valdórssonar, sálfræðings við Menntaskólann í Hamrahlíð, á fundi samtakanna Náum áttum um einmanaleika og sjálfskaðandi hegðun ungs fólks í morgun. Bóas var ráðinn tímabundið sem sálfræðingur við Menntaskólann í Hamrahlíð í 75% stöðu til að sporna gegn brottfalli og tók til starfa í haust.

Segja já við öllu
„Ungt fólk sýnir mikil streitueinkenni. Þau vilja ekki sleppa neinu og segja já við öllu því það er svo margt skemmtilegt í boði. Þau eru að klessa á vegg út af áreiti og álagi,“ segir Bóas og bendir á að það eru ekki bara samfélagsmiðlarnir sem trufla og gjarnan eru nefndir í þessu samhengi. Hann segir að það megi heldur ekki gleyma því að nemendur eru komnir í þriggja ára nám sem áður tók fjögur ár. Þau eru með þétta dagskrá í skóla, íþróttum, tónlistarnámi og svo þurfa þau líka að sinna félögunum og taka þátt í félagslífinu.

„Ég spyr líka hverjar eru fyrirmyndirnar? Auðvitað er eðlilegt að vera með samviskubit þegar við náum ekki að klára öll verkefnin sem við tökum að okkur,” segir Bóas og bendir á að í starfi sínu þarf hann að takast á við fjölbreytt verkefni og mörg þeirra snúast ekki síður um að setjast niður með einstaklingnum og fara yfir verkefnin og forgangsraða.

Þarf að móta stefnu
Lítil hefð er fyrir starfandi sálfræðing á Íslandi í framhalds- og menntaskólum til samanburðar við grunnskóla. Starfandi sálfræðingar eru í hlutastarfi í nokkrum skólum á þessu stigi á landinu. Starf þeirra er ólíkt eftir skólum og er til dæmis í samstarfi við sveitarfélög.
„Það er meiri vitundarvakning núna og meiri umræða um þessi mál,“ segir Bóas.

Hann kallar eftir stefnumótun um sálfræðiþjónustu á þessu skólastigi og heildstæðri úttekt á þjónustunni.
„Við þurfum að ákveða hvert við stefnum og hvað við viljum. Sérstaklega þurfum við að búa til námsefni sem eru verkfæri sem við getum notað og nýtist breiðum hópi nemenda á þessum aldri,“ segir Bóas og telur rétt að ráða sálfræðinga inn í alla skóla.

Fjallað er um sálfræðiþjónustu í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokksins, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar. Þar segir að aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu verði aukið, meðal annars með sálfræðiþjónustu á heilsugæslu og í framhaldsskólum. Stuðningur verði aukinn við börn foreldra með geðvanda og sálfræðiþjónusta felld undir tryggingakerfi í áföngum. 

Sálfræðiþjónusta er líka heilbrigðisþjónusta
Það tónar við áherslur ADHD samtakanna, sem efndu, ásamt sjö öðrum hagsmunasamtökum til undirskriftasöfnunar með áskorun til stjórnvalda um að fella sálfræðiþjónustu nú þegar undir greiðsluþátttökukerfi Sjúkratrygginga Íslands. Tæplega 11.400 manns rituðu undir áskorunina.

Þá fjallar Alþingi um tillögu til þingsályktunar um sálfræðiþjónustu í framhaldsskólum. Flutningsmenn eru þingmenn Samfylkingarinnar. Í tillögunni segir að Alþingi álykti að fela mennta- og menningarmálaráðherra að sjá til þess að frá og með skólaárinu 2017–2018 verði öllum nemendum í framhaldsskólum landsins tryggt aðgengi að sálfræðiþjónustu innan veggja skólanna þeim að kostnaðarlausu. Ráðherra hafi samráð við Kennarasamband Íslands og Sálfræðingafélag Íslands um tilhögun þjónustunnar, m.a. um meðferð sem veitt er, fjölda nemenda á hvern sálfræðing o.fl. 

Fyrri umræðu um tillögunar er lokið og er hún nú til meðferðar í velferðarnefnd Alþingis.

 

Frétt mbl.is um málið

Áskorun á stjórnvöld vegna sálfræðiþjónustu

Þingsályktunartillaga um sálfræðiþjónustu í famhaldsskólum


Senda Póst til ADHD samatakanna