Netnotkun - Fræðslufyrirlestur

Eyjólfur Örn Jónsson sálfræðingur flytur fræðslufyrirlestur um netnotkun í fundarsal ADHD að Háaleitisbraut 13, þriðjudaginn 12. maí klukkan 20:00.

Eyjólfur Örn lauk embættisprófi í sálfræði frá sálfræðideild Árósarháskóla 2005 með lokaverkefni í vinnusálfræði og sérmenntun í hugrænni atferlismeðferð hjá Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands 2008. Hann hefur skrifað grein um netfíkn á persóna.is og fjallað um efnið í sjónvarpsviðtölum á Stöð 2 og í Kastljósi á RÚV. Í greininni á persóna.is bendir hann á að netfíkn sé vaxandi vandi hér á landi sem annars staðar og talið sé líklegt að um 10% notenda muni ánetjast. Þannig megi búast við að um 26.000 Íslendingar eigi á hættu að verða netfíkn að bráð. Þróun þessarar fíknar sé líka hraðari en aðrar viðurkenndar fíknir en um 86% ánetjast netinu á fyrsta ári notkunar.

Fyrirlesturinn er ætlaður foreldrum og forráðamönnum barna og unglinga og er í boði ADHD samtakanna en nauðsynlegt er að skrá þátttöku.