Nýtt endurskinsmerki og tveir nýir bæklingar

Frá afhendingu endurskinsmerksins á Hólmsheiði.
Frá afhendingu endurskinsmerksins á Hólmsheiði.

Alþjóðlegur ADHD vitundarmánuður er nú nýhafinn en október er lagður undir vitundarvakningu ár hvert. ADHD samtökin taka virkan þátt í átakinu nú líkt og fyrr með margvíslegum hætti. Nýtt endurskinsmerki var kynnt í dag, tveir nýir fræðslubæklingar voru gefnir út og árlegt málþing samtakanna var kynnt. Málþingið veðrur haldið í lok október og beinist athyglin að föngum og öðrum sem lenda í refsivörslukerfinu.

Útgáfa fræðslubæklinga

Tveir nýir fræðslubæklingar voru gefnir út í dag. Annars vegar er það "Náin sambönd & ADHD", bæklingur sem ætlaður er fullorðnum einstaklingum með ADHD og mökum þeirra. Bæklingurinn er þýddur úr finnsku og staðfærður en finnsku ADHD samtökin gáfu fyrr á árinu út bæklinginn "ADHD & parisuhde".

 

 

Hins vegar er um að ræða bæklinginn "What is ADHD?", grunnbækling um ADHD á ensku. Áður hefur komið út íslenskur bæklingur og þýðing hans á pólsku.

Bæklingarnir eru fáanlegir á skrifstofu ADHD samtakanna, Háaleitisbraut 13, Reykjavík og á rafrænu formi á vef samtakanna, www.adhd.is

 

Í lok vitundarmánaðar kemur svo út fræðslubæklingur um réttarvörslukerfið & ADHD. Nokkuð er um liðið síðan ADHD samtökin gáfu út fræðslubækling ætlaðan lögreglu, fangavörðum og öðrum þeim sem starfa í réttarvörslukerfinu og var tímabært orðið að endurskoða hann. Bæklingurinn kemur út í tengslum við málþing samtakanna sem haldið verður 28. október n.k.

Endurskinsmerki

Formleg afhending endurskinsmerkis ADHD samtakanna árið 2016 fór fram í dag en afhending þess markar upphaf vitundarmánaðar.

Þetta er áttunda árið í röð sem ADHD samtökin selja endurskinsmerki í þágu starfseminnar. Sem fyrr á Hugleikur Dagssson teikninguna á merkinu.

Páll Winkel, fangelsismálastjóri og starfsfólk Fangelsismálastofnunar, fengu afhent fyrstu eintök bæklinganna og endurskinsmerksins við athöfn í fangelsinu á Hólmsheiði í dag.

Athöfnin var táknræn fyrir þær áherslur sem ADHD samtökin setja í vitundarmánuði þetta árið.

„Fangelsismálastofnun fagnar því að athyglinni sé í þessu vitundarátaki beint að föngum. Mikilvægt er að fagleg umræða eigi sér stað um málefnið og að við sameinumst öll um að gera vel á þessu sviði. Það eru sameiginlegir hagsmunir okkar allra að leita leiða til að aðstoða fanga og auka þannig líkurnar á að þeir geti tekið þátt í samfélaginu án afbrota að lokinni afplánun,“ sagði Páll Winkel, fangelsismálastjóri við athöfnina í dag.

Endurskinsmerkin má nálgast á skrifstofu samtakanna, Háaleitisbraut 13, Reykjavík og á vefnum www.adhd.is. Allur ágóði af sölu endurskinsmerkjanna rennur til starfsemi ADHD samtakanna.

Málþing ADHD - Að fanga tækifærin

ADHD samtökin efna til málþings föstudaginn 28. október í Gullfossi, Fosshóteli við Þórunnartún í Reykjavík. Málþingið hefst klukan 12:30 og stendur til klukkan 17:00.
Yfirskrift þess er „Að fanga tækifærin“ og verður athyglinni beint að brotamönnum með ADHD, aðstoð og bjargráðum í fangelsum landsins. Þar koma fram bæði erlendir og innlendir fyrirlesarar og verður fyrst og fremst reynt að líta til lausna.

Skráning er hafin á vef ADHD samtakanna en nánari dagskrá verður auglýst síðar.

Almennt verð er kr. 3.500,- en félagsmenn ADHD samtakanna greiða kr. 2.500,-
Í skráningargjaldi eru innifaldar léttar veitingar og nýútkominn fræðslubæklingur um Refsivörslukerfið & ADHD.

Útgáfan, sala endurskinsmerkjanna og málþingið eru þættir í myndarlegri dagskrá ADHD samtakanna í alþjóðlegum vitundarmánuði nú í október.

Senda póst til ADHD samtakanna


Frétt mbl.is um vitundarmánuðinn