Núll-merkt lyf falla undir greiðsluþátttöku ef einstaklingar hafa lyfjaskírteini frá SÍ:

Lyf sem ADHD einstaklingar taka, munu eftir 4. maí næstkomandi, falla undir greiðsluþátttöku Sjúkratrygginga Íslands (SÍ), að því gefnu að viðkomandi einstaklingur hafi lyfjaskírteini. Þetta  er áréttað vegna fyrirspurna félagsmanna um svokallaða núll merkingu ADHD lyfja í lyfjaskrá.

Algeng lyf sem ADHD einstaklingar taka að staðaldri, s.s. Metýlfendat, (Concerta - Ritalin Uno - Concerta), Strattera, Circadin, Modiodal, Amfetamín, falla því undir greiðsluþátttöku í nýju kerfi eins og áður þ.e. með lyfjaskírteinum, þrátt fyrir að vera núll-merkt.

Lyfjaskírteini munu í nýja kerfinu annars vegar staðfesta þrepaskipta greiðsluþátttöku SÍ og hins vegar fulla greiðsluþátttöku þegar einstaklingar hafa greitt hámarks upphæð. Læknir sækir um lyfjaskírteini fyrir einstaklinga til SÍ í öllum tilvikum.

Ljóst er að einhverjar breytingar verða á lyfjakostnaði með tilkomu nýju laganna.

ADHD samtökin hvetja félagsmenn til að senda samtökunum athugasemdir varðandi nýja greiðsluþátttökukerfið og munu samtökin vinna úr þeim athugasemdum sem berast og nýta þær til hagsmunagæslu í þágu félagsmanna.

Hægt er að senda fyrirspurnir og athugasemdir á adhd@adhd.is merkt "Lyfjakostnaður".

Vegna fyrirspurna um lyfjaútreikninga bendum við á að leita til Sjúkratrygginga Íslands.