Pjetur St. Arason: Björgum börnunum-Nokkur orð um þríhjólaslys, ofbeldi, ADHD og lyfjanotkun

Austurglugginn 15.11.2013

Pjetur St. Arason, kennari við Verkmenntaskóla Austurlands of félagi í ADHD samtökunum skrifar grein í nýjasta tölublað Austurgluggans. Pjetur skrifar um ADHD og lyfjanotkun, ofbeldi fyrri tíma og auknum skilningi á röskuninni.

Ég er einn af u.þ.b. 700 Austfirðingum sem eru með taugaþroskaröskun í heila sem stundum er kölluð ADHD, eða athyglisbrestur með ofvirkni. Við eigum oft erfitt með að einbeita okkur að einföldustu verkefnum en síðan getum við komið á óvart með því að sökkva ofan í einhver verkefni sem við erum að leysa þannig að við gleymum jafnvel að borða eða sofa. ADHD-inu geta síðan fylgt aðrar raskanir eins og t.d. hegðunarvandmál, fíknihegðun, afbrotahegðun, vanvirkni, depurð, þunglyndi og geðhvarfasýki svo eitthvað sé nefnt. Það er því mikið hagsmunamál fyrir samfélagið að huga vel að einstaklingum með ADHD.

Ég var uppátækjasamt barn, læknarnir á heilsugæslunni þekktu mig mjög vel. Þegar ég birtist var venjan að taka til nál og tvinna. Skiptin sem ég kom á spítalann með gat á hausnum verða ekki talin á fingrum annarrar handar, þau eru óteljandi. Á fjórða ári var ég að leika mér fyrir framan húsið heima hjá mér. Þá sé ég að á lóðinni fyrir ofan götu stendur nýtt þríhjól sem nýi nágranninn á. Ég rauk af stað eins og eldflaug skaust ég upp á bakkann, sem var talsvert hærri en ég, litli snáðinn, snaraðist á þríhjólið og hjólaði beint niður tröppurnar. Ég skall með höfuðið í götuna. Þá kom ég heim alblóðgur, líklega verið heppinn að vera með meðvitund. Annað skipti datt ég á hausinn í timburhlöðu Kaupfélagsins og flugbeitt bindijárnið fláði af mér höfuðleðrið. Þá þurfti mamma að rjúka frá pottum og skjótast með mig á spítalann til þess að láta sauma mig saman.

Kennarinn minn í fyrsta bekk skyldi ekki hvers vegna ég gat ekki setið kyrr, afhverju ég þurfti að skríða upp á borð eða undir það, ef svo bar undir. Kannski er það ósanngjörn krafa á 7 ára barn að það sitji kyrrt í 5 x 40 mínútur. Þetta var áður en búið var að finna upp ADHD. Strákurinn var bara óþekkur og vildi ekki hlýða, það ætti bara að hýða hann. Já, það var kennari við skólann sem beitti líkamlegum refsingum, hann átti það til að sparka í mig með tréklossunum sínum, marblettirnir sem komu eftir þau spörk eru löngu horfnir en örin á sálinni eru djúp. Þetta var á áttunda áratug síðustu aldar, ég veit að skólinn hefur breyst töluvert síðan og vonandi er starfsfólk skólans orðið meðvitaðra um að óþægðin verður ekki barin úr börnunum.

Það helsta sem hefur breyst er að þekkingin á hegðunarröskunum hefur aukist og ýmsar atferlismótandi aðferðir hafa komið til skjalanna. Þá er einnig komin á markaðinn lyf sem hjálpa einstaklingum með ADHD að takast á við einkennin. Á ráðstefnu ADHD-samtakanna, sem nýlega var haldin, var kynnt rannsókn á áhrifum lyfjanna á námsgetu. Þar kom fram að börn með ADHD sem eru á lyfjum bættu námsárangurinn sinn töluvert á samræmdum prófum grunnskóla sem haldin eru í fjórða og sjöunda bekk. Þeim börnum með ADHD sem ekki voru á lyfjum, fór hinsvegar aftur í námi.

Þó að lyfin hjálpi til við að ná stjórn á einkennum ADHD þá batnar ekki allt sjálfkrafa við að einstaklingurinn fari á lyf. Aðrar aðferðir eru betur til þess fallnar að ná stjórn á óæskilegri hegðun þannig að einstaklingurinn öðlist sjálfstjórn. Hinsvegar gera lyfin það að verkum að ýmsar atferlismótandi aðferðir verða mun skilvirkari. Með því að ná tökum á einkennum ADHD öðlast einstaklingurinn meiri stjórn á hegðun sinni og kemur þannig í veg fyrir að hann aki fram af bjargbrúninni eins og ég gerði í barnæsku minni.

Greinin birtist í Austurglugganum 15. nóvember 2013