RÚV: ADHD-börn þurfi meiri svefn

Unglingar sem glíma við einkenni athyglisbrests og ofvirkni þurfa meiri svefn en jafnaldrar þeirra sem ekki glíma við slíkt. Þetta er niðurstaða rannsóknar vísindamanna við Háskólann í Bergen í Noregi. Hún birtist í fræðiritinu Behavioral Sleep Medicine. RÚV greinir frá.

Í frétt RÚV segir að rannsóknin hafi náð til 10 þúsund norskra ungmenna á aldrinum 16 til 19 ára. Haft er eftir Mari Hysing, sálfræðingi sem leiddi rannsóknina, að fram hafi komið sterk fylgni á milli ADHD-einkenna og svefnörðugleika. Mari Hysing telur að ungmenni sem fá meðferð við athyglisbresti með eða án ofvirkni þurfi einnig að fá aðstoð við að ná tökum á svefninum.

Athyglisbrestur hefur lengi verið tengdur svefnörðugleikum en rannsókn Hysing er sú fyrsta sem varpar ljósi á fylgni milli einkenna athyglisbrests og svefnvandamála með því að rannsaka stórt úrtak.

Svefnvandinn var meiri eftir því sem einkenni athyglisbrests voru alvarlegri hjá ungmennunum. Þeir unglingar sem sýndu mikil einkenni ADHD sváfu um 5,5 klukkustundir á nóttu. Þá vantaði að jafnaði um þrjár og hálfa klukkustund upp á að ná góðum nætursvefni.

Unglingar sofa almennt of lítið og þeir þátttakendur sem ekki sýndu mikil einkenni athyglisbrests sögðust sofa 2 klukkustundum skemur en þeir þyrftu að gera, að jafnaði.

Rannsóknir hafa sýnt fram á að það að glápa á bláskjái fyrir háttinn getur raskað svefni. Hysing segir þetta þó ekki meginvanda unglinga með ADHD-einkenni; neikvæðar og niðurdrepandi hugsanir haldi frekar fyrir þeim vöku.

Kannað var hvort lyf við ADHD röskuðu svefnvenjum þeirra sem tóku þau en í ljós kom að lyfin höfðu ekki áhrif á svefn.

Svefnleysi getur rænt fólk athyglinni. Hysing segir því óljóst hvort rekja megi einkenni athyglisbrests beint til svefnleysis eða hvort athyglisbrestur orsaki það. Eitt sé þó víst og það sé að svefnleysi geri ungmennum með athyglisbrest enn erfiðara fyrir. Hún mælir því með svefnráðgjöf þeim til handa.

Frétt RÚV

Rannsókn vísindamanna við Háskólann í Bergen