RÚV fjallaði um helgina um biðlista eftir greiningu ADHD: Listarnir lengjast stöðugt

Fréttastofa RÚV fjallaði um helgina um biðlista eftir greiningu ADHD. 

Um 240 börn bíða nú eftir greiningu hjá Þroska- og hegðunarstöð Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu, og biðlistinn lengist stöðugt. Flest bíða eftir greiningu á athyglisbresti og ofvirkni. Ekki er langt síðan fáir voru meðvitaðir um ADHD, eða athyglisbrest, með eða án ofvirkni. Börn með þessa röskun urðu mörg illa úti í skólakerfinu, og voru ýmist talin tossar eða óþekktarormar. Þetta hefur breyst, og það kann að vera skýring á því að mun fleiri foreldrar og kennarar sækja um greiningu á athyglisbresti hjá Þroska- og hegðunarstöð Heilsugæslunnar. Gyða Haraldsdóttir, forstöðumaður stöðvarinnar, segir að nú sé komið í óefni. Af þeim 240 börnum sem eru á biðlista, bíða um 190 eftir greiningu á ADHD.

Beiðnum fjölgað mikið frá 2009
Um þrettán starfsmenn sinna greiningunum. Gyða Haraldsdóttir, forstöðumaður Þroska- og hegðunarstöðvar Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu segir að þeir geti sinnt 270 beiðnum á ári. Árið 2008 bárust stöðinni 290 beiðnir, en á undanförnum árum hefur þeim fjölgað í 370 á ári. Starfsfólki á stöðinni hefur hins vegar ekki fjölgað síðan 2008 en árið 2009 byrjaði beiðnum um greiningu að fjölga mikið. Börnin þurfa flest að bíða í um tíu mánuði eftir að komast í greiningu. Það bætist við þann tíma sem þau hafa beðið eftir frumgreiningu hjá skólasálfræðingi. Biðin getur reynst dýrkeypt.

Lengri biðlistar þýða dýrari úrræði
Löng bið eftir greiningu hjá Þroska- og hegðunarstöð getur haft alvarlegar afleiðingar fyrir börn, segir Björk Þórarinsdóttir formaður ADHD samtakanna. Fylgiraskanir ADHD aukist ef ekkert er að gert.

„Og þá getum við verið með þunglyndi, kvíða og svo margt annað. Þá eru börnin orðin það alvarlega veik að þau lenda oft inni á spítala eða BUGL. Og við vitum dæmi um það. Alvarlegasta dæmið er barn sem reyndi sjálfsvíg,“ segir fromaður ADHD samtakanna.

Hún segir að ADHD hafi ekki aðeins áhrif á börnin og foreldra þeirra, heldur einnig skólann, bekkjarsystkini og kennara barnanna.



Kvöldfréttir - RÚV-Sjónvarp 31.08.2013