Rofar til í geðheilbrigðisþjónustu við börn fyrir norðan og austan?

Heilbrigðisráðherra segir samkomulag í burðarliðnum um geðheilbrigðisþjónustu barna og unglinga á Norður- og Austurlandi. Ráðherra segist hafa beint þeim tilmælum til forstjóra Landspítalans og forstjóra Sjúkrahússins á Akureyri, að leita allra þeirra leiða sem færar eru til að greiða úr málinu. Þetta kom fram í svari ráðherra við fyrirspurn Brynhildar Pétursdóttur þingmanns Bjartrar framtíðar á Alþingi í dag. Ekki liggur fyrir á þessari stundu í hverju samkomulagið felst.

Lítið gerst á heilu ári

Brynhildur Pétursdóttir, þingmaður Bjartrar framtíðar ræddi áhyggjur sínar af stöðu geðheilbrigðismála barna og unglinga á Norður- og Austurlandi í fyrirspurnatíma á Alþingi í dag. Þar til fyrir um ári síðan hafði teymi barnageðlæknis og sálfræðings unnið á Sjúkrahúsinu á Akureyri. Í kjölfar skipulagsbreytinga sögðu þeir upp og ekki tókst að finna varanlega lausn á því að það teymi gæti unnið áfram við sjúkrahúsið.

"Enginn barna- og unglingageðlæknir sótti um stöðuna sem var auglýst og í vetur hafa verið í gangi reddingar þar sem læknir og sálfræðingur hafa aðstöðu á sjúkrahúsinu fram til loka maí. En þjónustan er þó ekki með sama sniði og áður því að læknir og sálfræðingur flokkast ekki sem greiningarteymi samkvæmt skilgreiningu Sjúkratrygginga Íslands," sagði Brynhildur Pétursdóttir

Hún sagði flækjustig í málinu mjög hátt og sagðist ekki gera lítið úr því en alvarlegt væri að hennar mati að ekki hafi verið fundin ásættanleg lausn, þó ekki væri nema til nokkurra ára, þannig að þetta teymi gæti áfram veitt sömu þjónustu og verið hefur.

"Ýmsar hugmyndir hafa verið uppi, t.d. að teymið gæti starfað undir BUGL en með aðsetur á Akureyri, Akureyrarbær tæki yfir þjónustuna og fái það fjármagn sem henni fylgir eða teymið starfi sjálfstætt samkvæmt sérstökum samningi við Sjúkratryggingar Íslands og hafi þannig sömu aðstæður og heimildir og önnur greiningarteymi. Nú skilst mér að BUGL eigi að sinna þessari þjónustu eða hluta af henni með því að fara norður tvisvar í mánuði en þó ekki í greiningarvinnuna ef ég skil rétt. Það er mjög erfitt að fá sérfræðinga út á land. Þess vegna finnst mér mjög nauðsynlegt að allir kostir séu skoðaðir í þessu máli og við leggjum einhvern veginn ágreining til hliðar og finnum lausn. Ég held að það sé alveg ljóst í þessu tilfelli að sérsmíða þarf lausnina, það getur þurft að breyta reglugerðum, búa til nýjar reglugerðir eða hugsa út fyrir kassann, en þá gerum við það bara. Við berum ábyrgð á því að börn og unglingar fái þessa bráðnauðsynlegu þjónustu," sagði Brynhildur Pétursdóttir.

Hún spurði heilbrigðisráðherra hvort kannað hafi verið að það teymi sem nú er til staðar á Akureyri gæti starfað undir öðrum hatti svo sem undir BUGL eða Akureyrarbæ eða sjálfstætt með sambærilegar heimildir og aðstoð og þau greiningarteymi sem nú þegar eru starfandi. Það væri mjög mikilbægt. Ennfremur spurði Brynhildur ráðherra hvort hann teldi að allar leiðir hefðu verið kannaðar og hvort staðan nú væri ásættanleg.

Skýr fyrirmæli

Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra svaraði því til að augljóst væri að vandamálið stafaði fyrst og fremst af því að við værum með tiltölulega fáa einstaklinga á sviði barna- og unglingageðlækninga í landinu. Sennilega væru þeir um sex.

"Það er rétt hjá háttvirtum þingmanni að eftirspurnin eftir þessari þjónustu er til muna meiri en það fagmenntaða fólk sem við höfum á þessu sviði annar og erfiðleikar eru við að ná því til starfa utan höfuðborgarsvæðisins, nema ef vera skyldi að það ágæta fólk sæki þá til vinnu í lausum stundum erlendis, sem ég veit dæmi um. Í þessu tiltekna máli er flækjustigið allverulega hátt, það er augljóst. Það togast á bæði faglegir hagsmunir, einstaklingsbundnir og svo stofnanastrúktúrinn líka og óþarfi er að velta sér mikið upp úr því. Ég hef beint þeim tilmælum til forsvarsmanna þessarar þjónustu, þ.e. til forstjóra Landspítalans og forstjóra Sjúkrahússins á Akureyri, að leita allra þeirra leiða sem færar eru til að greiða úr þeim þjónustuþætti fyrir börn og unglinga á Norður- og Austurlandi. Eftir því sem mér er síðast sagt frá er í burðarliðnum ákveðið samkomulag sem ég veit ekki nákvæmlega hvernig kemur til með að líta út en ég veit þó til þess að þar hafa þeir kostir verið skoðaðir sem háttvirtur þingmaður nefndi áðan, hvort hægt væri að reka þetta áfram undir BUGL o.s.frv. Fyrirmæli mín til þeirra ágætu forsvarsmanna þessara tveggja stofnana sem eiga að hafa yfirstjórn á þessum málum voru þau að skoða alla kosti sem í boði eru en ég veit á þessari stundu ekki nákvæmlega hvernig það stendur," sagði Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra.

Sjá umræður um málið á Alþingi