Sjónarhóll fær hvatningarverðlaun ADHD samtakanna 2023

Vilhjálmur Hjálmarsson, formaður ADHD samtakanna, Bóas Valdórsson, framkvæmdastjóri Sjónarhóls og Wi…
Vilhjálmur Hjálmarsson, formaður ADHD samtakanna, Bóas Valdórsson, framkvæmdastjóri Sjónarhóls og Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra.

Sjónarhóll - ráðgjafamiðstöð ses. hlýtur hvatningarverðlaun ADHD samtakanna árið 2023, fyrir ómetanlegan stuðning við börn með ADHD og fjölskyldur þeirra í hátt í 20 ár. Þetta var tilkynnt við upphaf 35 ára afmælisráðstefnu ADHD samtakanna - Betra líf með ADHD, sem haldin er á Grand hótel í dag og á morgun. Heilbrigðisráðherra, Willum Þór Þórsson og formaður ADHD samtakanna, Vilhjálmur Hjálmarsson afhentu framkvæmdastjóra Sjónarhóls, Bóasi Valdórssyni verðlaunin - viðurkenningarskjal og glæsilegt málverk eftir Mæju - Maríu Sif Daníelsdóttur.  

Í ávarpi sínu við verðlaunaafhendinguna fór Vilhjálmur yfir rökstuðning stjórnar fyrir valinu og sagði m.a. eftirfarandi:

"Sjónarhóll – ráðgjafarmiðstöð ses. tók formlega til starfa 1. ágúst 2004. Stofnaðilar sjálfseignarstofnunarinnar eru ADHD samtökin (ADHD), Landssamtökin Þroskahjálp (LÞ), Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra (SLF) og Umhyggja, félag til stuðnings langveikum börnum (UH).

Sjónarhóll er óháð ráðgjafarmiðstöð sem frá upphafi hefur unnið að því að styrkja og efla einstakar fjölskyldur. Á síðustu 20 árum hafa tæplega 6 þúsund fjölskyldur fengið aðstoð, ráðgjöf og fræðslu á ýmsu formi og þjónusta Sjónarhóls frá upphafi verið gjaldfrjáls.

Í starfi Sjónarhóls er lögð áhersla á að mikilvægt sé að mæta þörfum barna og sem hafa skilgreindar stuðningsþarfir og starfsfólk unnið markvisst að því að tengja saman þjónustuveitendur, veita ráðgjöf um hvar þjónustu er að finna og vekja athygli á málum þegar skortur er á þjónustu eða ef þjónusta og stuðningur er ekki að skila sér til þeirra sem á þurfa að halda. Ráðgjafar Sjónarhóls hafa sinnt fjölskyldum barna á öllum aldursbilum út um allt land.

Foreldrar barna með ADHD hafa í miklu mæli reitt sig á Sjónarhól í gegnum tíðina og ADHD tengdum fyrirspurnum fjölgað ár frá ári. Inntak slíkra erinda er oft á þann veg að foreldrar eru óvissir með hvaða þjónusta er í boði fyrir börnin sín, hvaða réttindi börnin hafa og hvernig best er að bera sig að til að sækja stuðning og aðstoð hjá hinu opinbera. Sjónarhóll hefur þannig verið allt frá stofnun ómetanlegur samstarfsaðili ADHD samtakanna.

Við óskum stofnendum, núverandi og fyrrverandi stjórnarfólki og ráðgjöfum Sjónarhóls til hamingju með verðlaunin og óskum Sjónarhóli velfarnaðar."

Hvatningarverðlaun ADHD samtakanna eru viðurkenning sem stjórn ADHD samtakanna úthlutar einu sinni á ári, fyrst árið 2021. Verðlaunin má veita hverjum þeim sem með mikilsverðum hætti hefur lagt sitt af mörkum til bæta lífsgæði fólks með ADHD á Íslandi. Einstaklingar, félagasamtök, stofnanir, fyrirtæki eða hverskyns lögaðilar geta fengið Hvatningarverðlaun ADHD samtakanna. Áður hafa Dr. Urður Njarðvík (2021) og KFUM og KFUK (2022) fengið viðurkenninguna.