Staða geðlækninga er verulega slæm - Erfitt fyrir fullorðna að fá tíma hjá geðlækni án tilvísunar.

Ellen Calmon, framkvæmdastjóri ADHD samtakanna
Ellen Calmon, framkvæmdastjóri ADHD samtakanna

Nánast ógerlegt er fyrir fullorðna að komast að hjá geðlæknum hér á landi að sögn Ellenar Calmon, framkvæmdastjóra ADHD-samtakanna.

Morgunblaðið fjallaði um málið föstudaginn 6. september.

"Það eru margir geðlæknar hættir að taka við nýjum sjúklingum. Þá getur verið tæplega árs bið í fyrsta viðtal hjá geðlækni og síðan getur verið hálfs árs bið til viðbótar í einhvers konar greiningu. Staða geðlækninga á Íslandi er verulega slæm," segir Ellen.

Fáir geðlæknar eru starfandi á Íslandi og stéttin eldist mun hraðar en hún endurnýjast, að því er fram kemur í frétt um þessi mál í Morgunblaðinu 6. september.

Frá því í mars á þessu ári hefur verið sérstakt ADHD-teymi starfandi á geðdeild Landspítalans. Það er samsett af geðlæknum og sálfræðingum og á að létta á þeim biðlista sem er til geðlæknis.

"Við höfum verið að reyna að hafa áhrif á heilsugæsluna um að vera meðvitaðri um ADHD. Það á ákveðin skimun að geta farið fram þar en það er ekki alltaf reyndin. Ef heilsugæslulæknir skimar getur hann sent sjúklinginn áfram til teymisins á Landspítalanum. Þar fer fram önnur skimun, sem er aðeins dýpri, og þá annaðhvort skimast sjúklingurinn frá, þ.e. greinist ekki með ADHD, eða hann skimast þannig að hann þurfi nánari greiningu, þá klárar teymið greininguna og sjúklingurinn kemst í hendur geðlæknis. Það er mikill léttir fyrir marga því það er svo erfitt að komast að hjá geðlækni án tilvísunar."

Ellen segir teymið hafa náð um þrjátíu til fjörutíu greiningum það sem af er ári en þurfi að vera aðeins öflugra til að ná að ganga á biðlistann.

Staðan skánar ekki í bráð

Kristinn Tómasson, formaður Geðlæknafélagsins, segir að nánast allir geðlæknar taki einvörðungu við nýjum sjúklingum í gegnum tilvísanir.

"Með tilvísun er fjögurra til tólf vikna bið. Án tilvísunar er raunverulegur biðtími yfir þrír mánuðir,« segir Kristinn. »Það er langur listi sem bíður þess að fá þjónustu og til þess að forgangsraða í þeirri þjónustu hafa menn valið það að taka sjúklinga fyrst og fremst eftir tilvísun frá heimilislækni eða öðrum heilbrigðisstarfsmanni."

Geðlæknar eru ekki hættir að taka við nýjum sjúklingum, að sögn Kristins, en hjá elstu og umsetnustu geðlæknunum getur biðin verið löng og erfitt að komast að.

"Vandinn er sá að stéttin er að eldast heilmikið. Þetta er hópur manna á aldrinum 65 til 70 ára sem hafa verið mjög öflugir en þeir munu hætta á næstu árum og margir farnir að minnka við sig því það hefur orðið samdráttur í fjölda viðtala. Nýir læknar koma ekki inn og því fækkar í stéttinni. Í því felst vandinn, það er engin endurnýjun."

Kristinn sér ekki stöðuna skána í fyrirsjáanlegri framtíð.

"Kjörin hér heima eru ekki samkeppnishæf við nágrannalöndin og það er ákveðinn þröskuldur. Þá hafa heildarfjárveitingar til geðheilbrigðismála ekki náð að mæta þeirri þörf sem er skilgreind út frá eðli og umfangi geðsjúkdóma í samfélaginu."