Stúdentaráð Háskóla Íslands styrkir nemendur til að fara í ADHD greiningu

Stúdentaráð Háskóla Íslands auglýsir styrki vegna greininga á sértækum
námsörðugleikum og athyglisbrest með eða án ofvirkni (ADHD).

Greiningarsjóður er fyrir nemendur með sértæka námsörðugleika og er sjóðurinn í
vörslu Stúdentaráðs Háskóla Íslands. Hlutverk sjóðsins er að koma til móts við
kostnað námsmanna við Háskóla Íslands sem fara í greiningu vegna sértækra
námsörðugleika og vegna athyglisbrests/ofvirkni. Lög sjóðsins eru aðgengileg hér:
http://www.sjodir.hi.is/greiningarsjodur_shi

Sjóðsstjórn er einungis heimilt að veita 75% af heildarsjóðnum í styrki á hverju ári
og getur styrkþegi því ekki átt von á því að fá styrkupphæð sem nemur heildarverði
greiningar. Sjóðstjórn áskilur sér þann rétt að úthluta styrk í jöfnu hlutfalli við
útlagðann kostnað vegna greininga umsækjenda. Styrk má þó ekki veita ef meira en ár
er liðið frá því að niðurstöður úr greiningu lágu fyrir.

Styrkþegi skal skila afriti af niðurstöðu greiningar um sértæka námsörðugleika og
upplýsingum um hver framkvæmdi hana ásamt afriti af reikningi vegna greiningar.
Einnig skal fylgja með stuttur texti sem inniheldur rökstuðning fyrir þörf á
styrknum ásamt símanúmeri, netfangi og bankaupplýsingum.

Umsóknafrestur er til 25. mars 2013 og skulu umsóknir berast skrifstofu Stúdentaráðs
HÍ á Háskólatorgi (3. hæð Háskólatorgs, beint fyrir ofan Bóksöluna).

Hikið ekki við að hafa samband við skrifstofu Stúdentaráðs (shi@hi.is / 570-0852)
eða við Náms- og starfsráðgjöf (radgjof@hi.is) til þess að spyrjast fyrir um
sjóðinn.